MÁLÞING: ÖLL Á SAMA BÁTI – LOFTSLAGSKREPPAN OG AÐGERÐIR Í ÞÁGU FRAMTÍÐAR

Málþing um loftslagskreppuna og framtíðina verður haldið í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands föstudaginn 29. október kl. 13.30–15.30 undir yfirskriftinni: Öll á sama báti – Loftslagskreppan og aðgerðir í þágu framtíðarinnar.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, er heiðursgestur málþingsins sem haldið er á vegum Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar og Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands, í samvinnu við samráðsvettvanginn Faith for Nature (https://faithfornature.org/)

Dagskrá:
Halldór Reynisson, verkefnisstjóri umhverfismála hjá Þjóðkirkjunni, setur ráðstefnuna og ræðir um Loftlagsmál, börnin og framtíðina

Erindi:
• Halldór Þorgeirsson, fulltrúi Andlegs þjóðarráðs bahá‘ía á Íslandi: Trú á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
• Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags hjá Veðurstofunni: Kynning á nýjustu skýrslu IPCC um loftslagsbreytingar.
• Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild H.Í: Nánar um IPCC skýrsluna: Hörfun jökla og hækkun sjávarstöðu eru afleiðingar loftslagsbreytinga af mannavöldum.

Örinnlegg:
• Tryggvi Felixson, formaður Landverndar.
• Hjördís Jónsdóttir, stofnandi Skógræktarfélagsins Ungviður.
• Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði.
• Evlalía Kolbrún Ágústsdóttir, fulltrúi frá Ungum umhverfissinnum.
• Axel Árnason Njarðvík í umhverfishópi þjóðkirkjunnar.
• Áróra Árnadóttir, nýdoktor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands.
• Gunnar Hersveinn, athafnastjóri hjá Siðmennt.

Málþingsstjóri: Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðadeild við Háskóla Íslands.

Málþinginu verður streymt og má finna það á slóðinni:
https://www.youtube.com/watch?v=aUstYiAHmJg

FJALLAHJÓLAMÓT Í GUÐMUNDARLUNDI 29. ÁGÚST 2021

Sunnudaginn 29. ágúst verður XCO bikarmót Breiðablik í hjólreiðum. Brautin liggur að hluta til innan skógarins í Guðmundarlundi og inn á bílastæðin og eftir veginum meðfram grenitrjáaröðinni í átt að Vatnsendaheiði. ( Sjá meðfylgjandi kort )

 Hjólreiðaklúbbur Breiðabliks og Skógræktarfélag Kópavogs biður alla til að sýna aðgát á meðan á mótinu stendur. Brautin innan skógarins er vel afmörkuð eins og sjá má eftirfarndi myndbandi breidablikhjol/videos/

 Brautin fer ekki inn á grasflatirnar og leiksvæðin í botni lundarins.

 Allir eru velkomnir að fylgjast með mótinu og njóta. Hjólreiðakeppnin hefst kl. 10:00 og henni líkur kl. 14:00.

Miðstöð mótshaldara verður í nýja húsi Skógræktarfélagsins að Leiðarenda 3.

 Allar upplýsingar um mótið má finna á þessari síðu https://sites.google.com/view/xco-2021

Og á Facebook síðu: https://fb.me/e/1d782RTSl

 

 

Gróðursetningardagur fjölskyldunnar 21. júlí 2021

Minnum á gróðursetningardag fjölskyldunnar á morgun miðvikudaginn 21. júlí kl 17:00

================================================

Góðursetningardagur fjölskyldunnar í Kópavogi verður haldinn í þriðja sinn á þessu sumri og verður gróðursett í þágu aukinna lífsgæða á Vatnsendaheiði á morgun miðvikudaginn 21. júlí. Dagskráin hefst kl. 17:00 við Fræðslusetrið í Guðmundarlundi, Leiðarenda 3.

Eftir gróðursetningar stendur þátttakendum til boða að slá inn árangur dagsins inn í kolefnisreiknivélina og meta þannig framlag sitt til umhverfismála.

Kolefnisbinding með skógrækt er góð leið til að binda CO2 úr andrúmsloftinu til langs tíma en um leið er verið að stuðla að jarðvegsvernd. Sveppum og mordýrum í jarðvegi fjölgar vatnsmiðlun eflist og skógurinn opnar nýja möguleika til útivistar svo eitthvað sé nefnt.

Að lokinni formlegri dagskrá geta þátttakendur í Líf í lundi dvalið áfram í Guðmundarlundi og bardúsað við ýmislegt skemmtilegt enda hefur lundurinn upp á margt að bjóða. Í lundinum er meðal annars 10 brauta frísbí gólfvöllur, leiktæki og frábær 9 holu minigolf völlur.

Inni í miðjum Guðmundarlundi er Hermannsgarður, lítill og vinalegur blómagarður, með steinabeðum, stígum og bekkjum og svo er það auðvitað skógurinn sjálfur sem bíður upp á mikla möguleika til leikja og útivistar.

Fyrir þá sem ætla að taka hring á iðgrænum gólfvellinum þá má benda á að hver og einn verður að taka með sér eigin golfkylfur og kúlur og það sama á við um frísbí gólfvöllinn að diskurinn til að kasta er á valdi hvers og eins.

Til að finna Guðmundarlund er einfaldast að fara inn á https://ja.is/

og slá inn Leiðarendi 3.

Viðburðurinn er haldinn í samstarfi Skógræktarfélags Kópavogs og Kópavogsbæjar.

Ferð eldri borgara í Guðmundarlund 15. júlí 2021

Félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi og Félag eldri borgara í Kópavogi efna til skemmtiferðar í Guðmundarlund fimmtudaginn 15. júlí næstkomandi.   

Guðmundarlundur er afar vistlegt útivistarsvæði sem nýtur mikilla vinsælda almennings en svæðið hefur sterkt aðdráttarafl og hefur upp á margt að bjóða.
Gestgjafar í Guðmundalundi verða Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær sem taka á móti gestunum milli klukkan 14:00 og 16:00.  
Boðið verður upp á rútuferðir frá öllum félagsmiðstöðvum Kópavogs og verður lagt af stað stundvíslega kl. 13:30. Fólk getur einnig komið í Guðmundalund á eigin vegum en til að finna lundinn er góð leið að fara t.d. inn á www.ja.is og slá inn Leiðarendi 3 og skoða kort.

Vegna veitinga þarf að skrá þátttöku í síðasta lagi mánudaginn 12. júlí á eyðblöð í félagsmiðstöðvunum í Kópavogi eða með því að senda tölvupóst á febk@febk.is

Við skráningu þarf sérstaklega að taka fram hvort þátttakandi ætli að nýta sér rútuna eða koma sér í Guðmundarlund á eigin vegum.  

Þeir sem þurfa á hjólastólabíl að halda er bent á að panta sér far með fyrirvara hjá Ferðaþjónustu fatlaðra í síma 515 – 2720.

Glens og gaman hefur ætíð fylgt þessum góða hóp eldri borgara og sem fyrr munu Gleðigjafarnir hinir einu og sönnu mæta og boðið verður uppá léttar veitingar.

Gróðursetningardagar fjölskyldunnar 7. og 21. júlí.

Það var viðburðaríkur og ánægjulegur gróðursetningardagur á Líf í Lundi á laugardaginn 26. júní á Vatnsendaheiði og í Guðmundarlundi.

Eftir gróðursetningar stóð þátttakendum til boða að slá inn árangur dagsins inn í kolefnisreiknivélina og meta þannig framlag sitt til umhverfismála.

Kolefnisbinding með skógrækt er góð leið til að binda CO2 úr andrúmsloftinu til langs tíma en um leið er verið að stuðla að jarðvegsvernd. Sveppum og mordýrum í jarðvegi fjölgar vatnsmiðlun eflist og skógurinn opnar nýja möguleika til útivistar svo eitthvað sé nefnt. 

En járnið skal að sjálfsögðu hamra á meðan það er heitt og því blásum við á ný til sóknar og ætlum að endurtaka gróðursetningar í þágu aukinnar lífsgæða á Vatnsendaheiði miðvikudagana 7. og 21. júlí kl. 17:00 og hefst dagskráin við Fræðslusetrið, Leiðarenda 3.  í Guðmundarlundi.

Viðburðurinn er haldinn í samstarfi Skógræktarfélags Kópavogs og Kópavogsbæjar.

LÍF Í LUNDI 26. JÚNÍ

Laugardaginn 26. júní verður haldinn útivistar- og fjölskyldudagur í samstarfi Skógræktarfélags Kópavogs og Kópavogsbæjar undir merkinu Líf í lundi  þar sem hvatt er til hreyfingar, samveru og skóga- og náttúruupplifunar. Líf í lundi verður nú haldinn í fjórða sinn og fer fram í kringum Jónsmessuna víða um land.

Dagskrá

Dagskrá dagsins hefst kl 10:00 þar sem safnast verður saman í Fræðslusetrinu í Guðmundarlundi í Leiðarenda 3 og verður heitt á könnunni. Fljótlega verður gengið upp á Vatnsendaheiði undir leiðsögn og hugað að gróðri og sögu.  

Á heiðinni verður horft til framtíðar og gróðursettar plöntur í þágu aukinar lífsgæða.  

Að gróðursetningu lokinni verður gengið til baka í Guðmundarlund þar sem boðið verður upp á rjúkandi Pylsur og Bulsur að hætti grillmeistarans í Fræðslusetrinu.

*Athugið að þeir sem ekki treysta sér að ganga upp og Vatnsendaheiði en vilja taka þátt í gróðursetningum eða fylgjast með þá er hægt aka bifreið að gróðursetningar stað.

Að lokinni formlegri dagskrá geta þátttakendur í Líf í lundi dvalið áfram í Guðmundarlundi og bardúsað við ýmislegt skemmtilegt enda hefur lundurinn upp á margt að bjóða. Í lundinum  er meðal annars 10 brauta frísbí gólfvöllur, leiktæki og frábær 9 holu minigolf völlur.

Inni í miðjum Guðmundarlundi er Hermannsgarður, lítill og vinalegur blómagarður, með steinabeðum, stígum og bekkjum og svo er það auðvitað skógurinn sjálfur sem bíður upp á mikla möguleika til leikja og útivistar.

Fyrir þá sem ætla að taka hring á iðgrænum gólfvellinum þá má benda á að hver og einn verður að taka með sér eigin golfkylfur og kúlur og það sama á við um frísbí gólfvöllinn að diskurinn til að kasta er á valdi hvers og eins.

 

Óskað eftir umsögnum um drög að landsáætlun í skógrækt

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur falið Skógræktinni að birta á vef sínum drög að landsáætlun í skógrækt 2021-2031 og óska þar eftir umsögnum. Hér eru því lögð fram til kynningar og umsagnar drög að landsáætlun í skógrækt ásamt drögum að umhverfismati þeirrar áætlunar. Jafnframt liggur fyrir minnisblað til ráðherra með minnihlutaáliti við drög að landsáætlun sem sömuleiðis birtist hér með til kynningar.

Umsagnarfrestur er til 18. júní 2021

 Sjá nánar frétt á heimasíðu Skógræktarinnar:

https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir/oskad-eftir-umsognum-um-drog-ad-landsaaetlun-i-skograekt

 

_MG_1300.JPG

Ný stjórn Skógræktarfélags Kópavogs

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs var haldinn í Guðmundarlundi 27. maí 2021 kl 17:30

Á fundinum var Þröstur Magnússon kjörinn formaður stjórnar

Aðrir sem kjörnir voru í aðalstjórn voru:

·      Jón Ingvar Jónasson

·      Kristján Jónasson

·      Loftur Þór Einarsson

·      Sigrún Óskarsdóttir

Í varastjórn:

·      Hrefna Einarsdóttir

Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skiptir stjórn með sér verkum og velur varaformann, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda.

 

Skýrsla stjórnar frá aðalfundi 14. júní 2019 og skýrsla Fossárnefndar 2019 - 2020

Ársskýrsla Skógræktarfélags Kópavogs er á þessum aðalfundi félagsins 27. maí 2021 flutt fyrir rúm tvö ár, þ.e. frá aðalfundi 14. júní 2019 og fram á þennan dag, þar sem örlögin gripu inn í og ekki var framkvæmanlegt að halda aðalfund á árinu 2020.

Árið 2019 var félaginu og félagsmönnum viðburðaríkt. Félagið fagnaði hálfrar aldar afmæli og ákveðið hafði verið að aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, landssamtaka skógræktarfélaga, yrði haldinn í Kópavogi í umsjón Skógræktarfélags Kópavogs.

Að því var stefnt að umhverfissetrið að Leiðarenda 3 yrði tilbúið til notkunar um mánaðamótin ágúst– september en tafir á framkvæmdum við húsið settu strik í reikninginn og drógu því miður kraft úr fyrirhugaðri fræðslustarfsemi félagsins á árinu.

Sem fyrr áttum við gott samstarf við Kópavogsbæ. Í samstarfsverkefni Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Kópavogs voru gróðursettar um 13.000 trjáplöntur í Landgræðsluskóga og uppgræðslu í Selfjall ofan Lækjarbotna. Einnig var unnið við að kurla grisjunarvið, lagfærðir voru stígar og framkvæmd almenn umhirða í Guðmundarlundi.

Að þessum verkefnum komu námsmenn í atvinnuátaki eldri en 18 ára og fólk í atvinnuátaki frá velferðarsviði. Ungmenni frá Vinnuskóla Kópavogs tóku þátt í gróðursetningum en það var hluti af árlegri umhverfisfræðslu þeirra.

Frá Sambýlinu í Dimmuhvarfi komu íbúar og tóku þátt í ýmsum verkefnum í Guðmundarlundi, til að mynda stígagerð.

Grunnskólar Kópavogs fá ár hvert plöntur úr Yrkjusjóði til ræktunar í Skólaskógum á Vatnsendaheiði.  „Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun íslenskra skólabarna á grunnskólastigi á ári hverju“ stendur í skipulagsskrá Yrkjusjóðs. Með þessu er honum ætlað að kynna mikilvægi uppgræðslu, skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu og ala þannig upp ræktendur framtíðarinnar. Á árinu 2019 gróðursettu grunnskólabörn í Kópavogi undir handleiðslu Skógræktarfélags Kópavogs um 1.500 plöntur.

Undanfarin ár hefur verið haldinn vinnu- og fræðsludagur í Guðmundarlundi þar sem áhugasamir ræktendur hafa mætt og notið þess að stússast saman í garðinum part úr degi við beðahreinsun, plöntuskiptingar og gróðursetningar. Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í ræktun er viðburður þessi upplagt tækifæri til að læra til verka, skoða hönnun, staðsetningu og plöntuval en Skógræktarfélagið leggur til fagmenntað fólk í fræðslu og til leiðbeininga. Hermannsgarður er samvinnuverkefni Kópavogsbæjar, Skógræktarfélags Kópavogs og Garðyrkjufélags Íslands til minningar um Hermann Lundholm sem var garðyrkjuráðunautur bæjarins 1958-1989 og einn stofnenda Skógræktarfélags Kópavogs.

Að þessu sinni var Vinnu- og fræðsludagurinn í Hermannsgarði í Guðmundarlundi haldinn fimmtudaginn 25. júlí.

Líf í lundi er árlegur útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins sem haldinn var 22. júní. Á þessum degi er almenningur hvattur til þess að stunda hreyfingu, samveru og upplifa skóga og náttúru landsins. Skógar landsins hafa þjónað mikilvægu hlutverki á síðustu misserum til útivistar og líklega sjaldan verið nýttir jafn mikið að vetri og í ár. Áhrif þeirra á andlega og líkamlega heilsu landans eru nú hvergi vanmetin. Fjöldi fólks kom í Guðmund­ar­lund í Kópavogi en boðið var upp á ýmis skemmti­atriði og leiki í skóg­ar­lund­in­um. Gróðursettar voru plöntur, grillaðar pyls­ur, steiktir klattar og boðið upp ketilkaffi að göml­um skógarsið.

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, sem eru landssamtök skógræktarfélaga, var haldinn 30. ágúst – 1. september. Að þessu sinni var fundurinn haldinn í Kópavogi og var Skógræktarfélag Kópavogs gestgjafi fundarins, en það fagnaði þá 50 ára afmæli.

Á fundinum var boðið upp á fjölbreytt fræðsluerindi og farið í vettvangsferðir, þar sem skógarreitir og gróðurlendur í Kópavogi voru skoðuð.         

Eftirfarandi fræðsluerindi voru flutt á aðalfundinum.

·           Kópavogur með grænum augum - Friðrik Baldursson

·           Loftslagsskógar - Reynir Kristinsson

·           Birkikynbætur - leiðin að Heklu - Þorsteinn Tómasson

·           Avenza app GP - Björn Traustason

·           Skógrækt í 50 ár - Kristinn H. Þorsteinsson

·           Arboristar-nýir möguleikar í trjáhirðu - Orri Freyr Finnbogason

Dagskráin var öllum opin.

Umhverfissetrið í Guðmund­ar­lundi í Kópa­vogi var vígt við hátíðlega viðhöfn 30. ágúst.

For­seti Íslands, Guðni Th. Jó­hann­es­son, Ármann Kr. Ólafs­son bæj­ar­stjóri Kópa­vogs og Kristinn H. Þor­steins­son formaður Skóg­rækt­ar­fé­lags Kópa­vogs tóku til máls við at­höfn­ina. Þá gróður­settu börn úr Kópa­vogi tré í lund­in­um við hið nýja set­ur með dyggri aðstoð for­seta Íslands, bæj­ar­stjóra og full­trúa Skóg­rækt­ar­fé­lags Kópa­vogs.

Umhverfissetrið verður meðal annars nýtt af leik- og grunnskólum í Kópavogi en stefnt er að því að í Guðmundarlundi verði boðið upp á fyrsta flokks aðstöðu til útikennslu þar sem lögð verður sérstök áhersla á náttúrulæsi, umhverfis- og náttúruvernd og áhrif loftslagsbreytinga á umhverfið. Á vef Kópavogsbæjar er haft eftir Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra að Umhverfissetrið sé í samræmi við þá áherslu sem bærinn hafi lagt á útikennslu í skólastarfi í Kópavogi en í bænum séu útikennslustofur við alla skóla. „Þá er áhersla á umhverfismál og áhrif loftslagsbreytinga mikilvæg og í takt við innleiðingu bæjarins á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna,“ er haft orðrétt eftir Ármanni á vígsludeginum.

Haldnir voru 14 stjórnarfundir og 6 vinnufundir á árinu sem var aukning frá fyrri árum og var ástæðan aukin vinna vegna aðalfundar Skógræktarfélags Íslands.

Stjórn Skógræktarfélagins var þannig skipuð eftir síðasta aðalfund 2019:

·         Kristinn H. Þorsteinsson formaður

·         Kristján Jónasson varaformaður

·         Hannes Siggason gjaldkeri

·         Þröstur Magnússon ritari

·         Jón Jakob Jóhannsson meðstjórnandi

·         Hrefna Einarsdóttir varamaður í stjórn.

 

·         og framkvæmdastjóri Bernhard Jóhannesson

Þegar árið 2020 rann upp horfði stjórn félagsins til bjartra tíma. Húsnæðið í Leiðarenda 3 var svo gott sem tilbúið og var í undirbúningi að auglýsa og leigja út húsnæðið til að standa undir ýmsum kostnaði sem því fylgir að reka hús og útivistarsvæði. Svo kom Covid sem breytti öllu. Fyrirhuguðum aðalfundi félagsins sem halda átti í lok mars var slegið á frest.

Bernhard Jóhannesson, starfsmaður félagsins, sagði stöðu sinni lausri í upphafi árs 2020. Félagið var ekki með starfsmann en þá kom fram tillaga frá stjórnarmanni að leitað yrði til formanns félagsins, Kristins H. Þorsteinssonar, hvort hann væri hefði áhuga á að skipta um vettvang og taka að sér stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Kristinn ákvað að segja sig frá öðrum störfum og hóf störf í lok apríl.

Sú breyting varð á stjórn félagsins að Kristinn vék úr sæti formanns og undirritaður Kristján Jónasson tók sæti hans, Hrefna Einarsdóttir tók sæti varaformanns en aðrir hafa haldið sinni stöðu.

Í upphafi maímánaðar voru fjöldamörk samkomubanns hækkuð úr 20 í 50 manns.

Það var eins og opnað hefði verið fyrir flóðgáttir því í Guðmundarlund lagði aukinn fjöldi fólks leið sína til að stunda útiveru og lýðheilsu. Svæðið hefur sterkt aðdráttarafl enda hefur það upp á margt að bjóða. Það iðaði allt af lífi en í byrjun ágúst kom högg, ný Covid bylgja reið yfir og það dró snögglega úr komu gesta. Það ástand stóð ekki lengi því jafnt og þétt snéri fólk til baka þegar á leið og aðsóknin jókst aftur dag frá degi en leiga á grillstæðum hvarf nánast alveg. Það er auðvelt að stunda útiveru og bæta lýðheilsu í Guðmundarlundi þó margir séu í lundinum á sama tíma.

Gróðursetning grunnskólabarna í Kópavogi er reglulegur þáttur í skólastarfinu en ár hvert fá þau plöntur úr Yrkjusjóði til ræktunar í Skólaskógum á Vatnsendaheiði. Persónuleg reynsla og kynni nemanda af þessu starfi er fjársjóður sem á eftir að skila vöxtum þegar fram líða stundir. Á árinu 2020 gróðursettu grunnskólabörn í Kópavogi undir handleiðslu Skógræktarfélags Kópavogs um 1.600 plöntur en 8 skólar sóttu um að fá plöntur úr Yrkjusjóði þetta árið. Að lokinni gróðursetningu og fræðslu fóru börnin eins og áður niður í Guðmundarlund þar sem þau fengu útrás fyrir orku, gleði og skapandi leiki. Að lokum þáðu þau hressingu og hlóðu upp orku á ný. Reiknað er með því að þetta verkefni haldi áfram óbreytt. 

Samstarf milli Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Kópavogs vegna sumarstarfa 2020 var með ágætum eins og undanfarin ár. Aukið atvinnuleysi á vormánuðum var talvert einkennandi fyrir íslenskan vinnumarkað og var helsta ástæðan aukin eftirspurn ungs fólks eftir atvinnu þegar skólum lauk.

Skógræktarfélagið tók á móti fólki sem var í sumarvinnu hjá Kópavogsbæ, útdeildi verkefnum og annaðist fræðslu og verkstjórn. Þeir hópar sem komu til starfa voru ungmenni í atvinnuátaki námsmanna eldri en 18 ára, ungt fólk frá Vinnuskóla Kópavogs en það var hluti af umhverfisfræðslu þeirra. Einnig voru við störf í atvinnuátaki fólk frá Velferðarsviði Kópavogs sem komið er af léttasta skeiði og íbúar frá íbúðarkjörnum í Dimmuhvarfi og Austurkór. Undirbúningur undir áframhaldandi samstarf á svipuðum nótum er þegar hafinn.

Veðurfar sumarsins var með ágætum, hæfilega blautt, passlega vindasamt og þægilega heitt.

Gróðursettar voru um 35.000 trjáplöntur í Landgræðsluskóga og uppgræðslu í Selfjall ofan Lækjabotna. Einnig var unnið við að lagfæra stíga, laga bekki og borð, pússa og mála og þrífa grill og fjarlægja rusl, slá og hreinsa illgresi úr beðum og framkvæma almenna umhirðu í Guðmundarlundi svo eitthvað sé nefnt. Gróðursettir voru um 200 runnar af ýmsum tegundum í skógarbotn lundarins og er ætlunin að styrkja hann enn frekar með áframhaldandi gróðursetningum og sáningum runna og fjölæringa.

Vonir standa til að það verði hægt að koma niður 35.000 plöntum í Selfjall á árinu 2021.

Gras á flötunum í Guðmundarlundi kom mjög illa undan vetri og var kalið á mjög stórum svæðum. Hafist var strax handa að vori við viðgerðir, flatirnar rakaðar, losað um svörðinn, sáð og borið á. Var þetta gert þrisvar sinnum yfir sumarið en grasið átti mjög erfitt uppdráttar vegna gífurlegrar aðsóknar gesta í Guðmundarlundi. Það er alveg ljóst að það þarf að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir til að ræsa fram flatir í Guðmundalundi því þegar vatn leggst yfir svæðið og frýs þá kafnar grasið undir. Þetta er yfirstíganlegt verkefni en kostar vinnu og talsvert fé.

Eldri borgurum í Kópavogi var boðið í Guðmundarlund miðvikudaginn 1. júlí. Félagsmiðstöð eldri borgara og Félag eldri borgara í Kópavogi stóðu fyrir ferðinni. Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær tóku á móti gestunum í Guðmundarlundi. Það var glatt á hjalla enda miklir gleðipinnar mættir sem þáðu léttar veitingar og dilluðu sér og sungu undir taktföstum leik harmonikkuleikara part af degi. Bæjarstjóri Kópavogs, Ármann Kr. Ólafsson, og formaður eldri borgara, Ragnar Jónasson, ávörpuðu gesti og létu gamminn geisa um það sem þeim var þá efst í huga. Það er mikill hugur hjá öllum sem að þessu komu að endurtaka leikinn og hefur húsið að Leiðarenda verið bókað fyrir móttöku þann 3. júní 2021.

Þann 10. júní efndu félagar úr Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu og Skógræktarfélagi Íslands til gróðursetningarferðar í Áramótaskóg í Selfjalli í Lækjarbotnum.

Rótarskot eru ný leið Slysavarnafélagsins Landsbjargar til að styrkja sjálfboðastarf björgunarsveitanna í landinu. Um áramótin bjóða björgunarsveitirnar upp á sölu Rótarskots fyrir þá sem ekki vilja kaupa flugelda eða kaupa sitt lítið af hverju. Hvert Rótarskot gefur af sér tré sem gróðursett er með stuðningi Skógræktarfélags Íslands í nýjan Áramótaskóg Slysavarnafélagsins.

Af þessu tilefni voru 4.000 birkitré gróðursett í norðurhlíðar Selfjalls sem er í umsjón Skógræktarfélags Kópavogs en félagið annaðist undirbúning og stýrði verkefninu í Selfjalli ásamt Skógræktarfélagi Íslands. Sennilega munu þau Rótarskot sem seld voru um síðustu áramót verða gróðursett í Selfjall.

Ferðafélagið Útivist og Skógræktarfélag Kópavogs hófu samstarf á árinu. Ferðafélagið tók reit í fóstur í austurhlíðum Selfjalls í Lækjarbotnalandi. Markmiðið er að vinna að fjölbreyttri landgræðslu og gróðurrækt á svæðinu, setja upp bekki og fegra svæðið á annan hátt sem mun í framtíðinni nýtast félögum í Útivist auk gesta og gangandi.

Þetta verkefni er tilkomið vegna fjárgjafar Jóns Ármanns Héðinssonar til Útivistar og á að nýtast til skógræktar og fegrunar lands. Þeim var úthlutað reitur þar sem áður stóð um áratugaskeið skáli sem var í eigu ferðafélagsins Farfugla meðan það var og hét og kallaðist Heiðarból. Ætlunin er að halda því nafni um þennan reit.

Útivist hóf vinnu í Heiðarbóli fimmtudaginn 24. september þegar fjölmennur hópur félaga í Útivist safnaðist saman við Waldorfskólann í Lækjarbotnum og gekk upp og yfir Selfjall að Heiðarbóli til að kynna sér svæðið, huga að skipulagningu til framtíðar og gróðursetja trjáplöntur. Kristinn H. Þorsteinsson frá Skógræktarfélagi Kópavogs tók á móti göngufólki með skóflur og trjáplöntur og var félögum til handleiðslu. Að gömlum og góðum sið var síðan boðið upp á kaffi og kleinur.

Á skógræktarsvæðinu í Selfjalli í Lækjabotnum eru reitir sem félög fengu úthlutað fyrir nokkrum árum til að stunda trjárækt. Þau félög sem um ræðir eru Rótarýklúbbur Kópavogs og Soroptimistaklúbbur Kópavogs. Á síðasta ári fékk Lionsklúbburinn úthlutað reit og það var sannarlega glatt á hjalla 26. ágúst þegar Eirarkonur mættu í Selfjall og plöntuðu fyrstu trjánum í nýja lundinn en niður fór fallegt og veglegt linditré ásamt fjölda birki- og reynitrjáa. Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs og Þráinn Gíslason skógræktarnemi aðstoðuðu Eirarkonur og héldu uppi fræðslu á staðnum. 

Í ár fengu Kiwanisklúbburinn Eldey og Rótarýklúbburinn Borgir úthlutað reit. Fleiri félög hafa sótt um reit og verða umsóknir þeirra afgreiddar á næstunni.

Á síðasta ári tóku Skógræktin og Landgræðslan höndum saman og óskuðu eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins. Kópavogsbær og Skógræktarfélag Kópavogs tóku að sér að annast sáningu á öllu birkifræi sem safnaðist á höfuðborgarsvæðinu og sá því í skógræktarsvæði í Selfjalli í Lækjarbotnum sem er í umsjón Skógræktarfélags Kópavogs. Fulltrúi Kópavogsbæjar var Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri og fulltrúi Skógræktarfélags Kópavogs Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri félagsins. Lagt var fram fyrirkomulag sáningarinnar sem byggðist á því að bjóða almenningi að taka þátt í sáningunni og reyna að fá sem flesta til að leggja þessu lið. Formlegt upphaf sáninga í Selfjalli var 25. september en þá sáði bæjarstjóri Kópavogs birkifræjum með aðstoð nokkra barna úr Waldorfskólanum í Lækjarbotnum og fleirum. Í kjölfarið var almenningi var boðin þátttaka laugardagana 26. september og 3. október. Því miður þá rigndi mikið báða dagana skömmu áður en frædreifing hófst og hefur það án efa eitthvað dregið úr þátttöku. Alls tóku um 90 manns þátt í birkisáningum í Selfjalli haustið 2020. Í undirbúningi var að auglýsa og bjóða upp á áframhaldandi sáningar í október og var þegar búið að tryggja aðkomu fyrirtækja og félagasamtaka. Því miður sáum við okkur ekki fært að halda áfram og verkefninu var því frestað fram á vor þar sem samfélagið var ekki á góðum stað vegna Covid.

Verkefnið um söfnun og sáningu á birkifræi 2020 vakti mikla athygli og náði eyrum fjölmiðla. Landgræðslan og Skógræktin hafa leitað til Skógræktarfélags Kópavogs um að leiða þetta verkefni áfram á landsvísu á árinu 2021 og um leið að vinna að því að festa verkefnið í sessi til framtíðar. Vonandi verður birkiverkefnið áfram viðvarandi verkefni og fastur liður í samstarfi Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Kópavogs. Verkefnið fellur einkar vel að Heimsmarkmiðunum, sem er yfirstefna Kópavogsbæjar. Þessir aðilar myndu hvert haust standa fyrir söfnun birkifræja, t.d. meðal almennings og grunnskólabarna og standa fyrir sáningum vor og haust.

Aðfaranótt 24. október var gengið hér í Guðmundarlundi berserksgang. Margt var brotið og bramlað, til að mynda öskutunnur, bekkir og borð, salerniskassar og margt fleira. Tjónið var metið á 700 þúsund krónur. Tryggingar náðu ekki yfir öskutunnur, bekki og borð heldur eingöngu það sem eyðilagt var í salernishúsi. Tryggingafélagið VÍS sá aumur á Skógræktarfélaginu og bætti félaginu skaðann. Terra gaf félaginu góðan afslátt og þannig tókst okkur að kaupa betri tunnur og öflugri bekki og borð. Það hlýnar öllum um hjartarætur að finna slíka velvild í garð félagsins.

Hugmyndasöfnunin „Okkar Kópavogur“ var haldin í þriðja sinn 2019 á vegum Kópavogsbæjar. Alls komust 34 hugmyndir af samtals 100 áfram í rafræna kosningu og hlaut tillaga um leiktæki í Guðmundarlundi náð fyrir augum bæjarbúa. Í haust voru sett upp ný og skemmtileg leiktæki í Guðmundarlundi sem falla vel að skógarumhverfinu. Mikil ánægja er með þessi leiktæki og er mikil ásókn í þau.

Þann 25. september var farin fræðsluganga með félaga í Rótarýklúbbi Reykjavíkur – Breiðholt.
Um var að ræða haustferð klúbbsins og var gengið um Meltungureitinn í Fossvogsdalnum í Kópavogi og þar var meðal annars skoðaður Rósagarðurinn, Ávaxtagarðurinn og Yndisgarðurinn. Fararstjóri í ferðinni var framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs.

Fossá í Hvalfirði er skógræktarjörð sem Skógræktarfélag Kópavogs á til helminga á móti Skógræktarfélögum í Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjósarhreppi en þau félög skipta á milli sín hinum helmingi jarðarinnar. 

Ár hvert er félagsmönnum skógræktarfélaganna sem og öðrum boðið að mæta um tvær helgar og höggva eigið jólatré gegn sanngjörnu gjaldi. Skógræktarfélag Kópavogs hefur mannað aðra helgina á móti hinum félögunum. Þá hafa félagsmenn Skógræktarfélag Kópavogs fellt hærri tré og eru þau meðal annars seld til Kópavogsbæjar sem torgtré. Í ár voru færri torgtré tekin á Fossá því nú eru að falla til við grisjun falleg tré í Lækjarbotnalandi og verður svo áfram um einhver ár ef haldið verður vel á spöðunum og hugað áfram að umhirðu skógarreitanna.

Í desember fór Skógræktarfélag Kópavogs í samstarf við fyrirtækið Jólasveinar.is. Grýla, Leppalúði, Hurðaskellir og Skjóða voru í Guðmundarlundi í desember og skemmtu ungum sem öldnum. Um var að ræða tæplega klukkutíma langa sýningu þar sem áhorfendur gengu í litlum hópum um skóginn í Guðmundarlundi, vopnaðir vasaljósum og hittu á ferðum sínum fyrrgreindar persónur úr jólafjölskyldu okkar Íslendinga. Sýningar þessar vöktu mikla athygli. Guðmundarlundur var bókstaflega fullur af fólki út úr hliði dag eftir dag. Við hjá Skógræktarfélagi Kópavogs lögðumst í þá vinnu að skrá og fylgjast með umferð fólks um lundinn í desember og niðurstaða talningar er að við vitum með fullri vissu að um 6.500 manns komu í Guðmundarlund og höfum sterkan grun um að við þá tölu megi bæta vel yfir 1.000 manns. Þá eru ótaldir þeir aðilar sem nýta sér Vatnsendaheiðina ofan Guðmundarlundar til útivistar. Jólasveinar.is hafa mikinn áhuga á að vera áfram í samstarfi við Skógræktarfélagið um að setja upp leikverk tengt jólum í desember og munum við hjá Skógræktarfélaginu ganga til viðræðna með opnum hug.

Stjórnin hefur kannað lauslega möguleika á  að setja upp teljara til talningar á fólki og ökutækjum við Guðmundarlund en slíkar talningar hjálpa mikið til við skipulag og vinnu við svæðið þegar fjöldinn er orðin eins mikill og raun ber vitni.

Sett var upp ljósum skreytt jólatré á flötina í Guðmundarlundi fyrir fyrstu helgi í aðventu og hundruð skólabarna sóttu lundinn heim þar sem dansað var kringum jólatréð og sungið jólalög með Bólu og jólasveinunum svo undir tók í fjöllum. Þessi skemmtilega tilraun tókst vel en með tilliti til þess að mikið vatn getur safnast saman á flötunum þá verður án efa skoðað hvort flötur sé á að halda þessu skemmtilega verkefni áfram í einhverri mynd.

Árið 2021 leit dagsins ljós og var þá hvergi hvítan díl að sjá. Veturinn var snjóléttur og vindur oft hægur. Gróður kom misgóður undan vetri og var helst að finna skemmdir á sígrænum runnum. Jörð hristist, eldur kom úr jörðu í næsta nágrenni við okkur og Covidið truflaði alla starfsemi lengst framan af.

Notkun á  grillaðstöðu og á húsi okkar hér í Leiðarenda var hverfandi enda var veturinn þannig að það var verið að panta og síðan afpanta, panta og afpanta.

Síðust dagar hafa þó verið viðburðaríkir því að það má með sönnu segja að Guðmundarlundur hafi heillað unga framhaldsskólanemendur sem flykktust hingað og nutu þess að drekka ýmsa drykki, æla, brjóta flöskur og spýta munntóbakspúðum um allar koppagrundir. Þá þurftu einhverjir óþroskaðir einstaklingar að sparka í klósettkassa í salernishúsinu og snúa við bekkjum og borðum svo eitthvað sé nefnt.

Minna fór fyrir fræðslumálum en vonir stóðu til. Í apríl fór framkvæmdastjóri félagsins í heimsókn til Lionsklúbbsins Eir og flutti fræðsluerindi um gróðurrækt. Þann 5. maí komu félagar í Útivist saman í Heiðarbóli í Selfjalli og gróðursettu undir leiðsögn.

Sumarstarfsmenn í vinnu hjá Skógræktarfélagi Kópavogs hófu flestir störf mánudaginn 24. maí en í sumar er gert ráð fyrir um 50 stöðugildum. Það sem er óvenjulegt að þessu sinni er hversu margir af erlendu bergi brotnir verða við vinnu í sumar en það er meirihluti. Meðalaldur hefur sjaldan ef nokkru sinni verið hærri og aldrei verið töluð jafn tungumál og nú.

Þurrkur og skraufaþurr gróður hafa gert mörgum lífið leitt undanfarnar vikur.  Sinueldar hafa loguð víða meðal annars á höfuðborgarsvæðinu. Eftir mikla bruna í Heiðmörk kviknaði eldur við bílastæðið við Guðmundarlund þann 10. maí og brann  um einn og hálfur hektari. Það fór betur en á horfðist því vegur sem þverar svæðið þar sem bruninn var hægði á framskriði eldsins og þegar slökkvilið kom náðu þeir fljótt tökum á eldinum og komu í veg fyrir að hann breiddist frekar út. Mikill hálmur af gömlum lúpínustönglum sem hefur hlaðist upp með tímanum í lúpínubreiðum er mikill eldsmatur og það sýndi sig þarna enda varð eldhafið mikið og hljóp hratt yfir. Trjágróðurinn sem skemmdist var stafafura, birki, gulvíðir og loðvíðir en heilt á litið telst skaði af brunanum ekki mikill enda svæðið ekki stórt. Hættustig vegna hættu á gróðureldum var lýst yfir daginn eftir eða þann 11. maí og er enn virkt. Þrátt fyrir nokkra úrkomu undanfarna daga hefur gróður ekki náð blotna nema rétt á yfirborði og þegar sólargeislar náðu að brjótast fram á ný varð gróður skraufaþurr á augabragði.

Við erum að sjá fyrir endann á þessu þurra tímabili því framundan er væta og þá mun græn slikja færast yfir landið og allt jarðlíf taka stakkaskiptum.  

Það er ljúfur vorboði ár hvert þegar börn frá grunnskólum Kópavogs mæta í Skólaskóga í Vatnsendaheiði til að gróðursetja í reiti sína. Lindarskóli og Smáraskóli riðu á vaðið í dag og mættu um 90 börn ´til að gróðusetja tré. Næstu daga mun mikill fjöldi barna taka þátt í að rækta land sér og öðrum til yndis og ánægju.

Framundan eru því spennandi tímar með kraftmiklu og áhugasömu fólki.

Þótt margt hafi verið öðruvísi en vonir stóðu til þá hefur tímabilið frá síðasta aðalfundi í heild sinni verið gott. Það er margt í pípunum og að mörgu að huga. Þessa stundina er verið að ganga frá skógræktaráætlun fyrir Lakheiði í Lækjarbotnalandi og verður hún kynnt á félagsfundi hjá félaginu fyrr en seinna.  Þarna liggja tækifæri fyrir Skógræktarfélagið til að fá verkefni og eflast. Það þarf að hlúa betur að Hermannsgarði og koma upp merkingum svo gestir og gangandi geti fræðst um hinar ýmsu tegundir fjölæringa í garðinum. Það hefur líka verið rætt að koma upp merkingum við ólík tré í Guðmundarlundi þar sem fram koma grunn upplýsingar um viðkomandi tegund. Þá eru skilti og merkingar á bílastæði farin að láta á sjá og þarfnast endurnýjunar.

Á borðinu liggja ýmsar hugmyndir um fræðslustarfsemi félagsins sem verður hugað að um leið og tækifæri gefst. Verkefnin eru mörg og margvísleg og því þörf á að meta stöðu félagsins og huga betur að hvar við stöndum því áherslur og starfsaðferðir Skógræktarfélags Kópavogs hafa breyst í takt við samfélagið í þau 50 ár sem félagið hefur starfað.

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs þakkar öllum fjölmörgu aðilum sem stutt hafa félagið á einn eða annan hátt.

Kristján Jónasson

Formaður Skógræktarfélags Kópavog

 ===========================================================================

Árskýrsla Fossá, skógræktarfélagfyrir árin 2019 og 2020

Fossá í Hvalfirði er 1.100 hektara skógræktarjörð  í eigu Skógræktarfélags Kópavogs, sem á helming jarðarinnar á móti Skógræktarfélögunum í Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjósahrepps. Félagið er rekið á eigin kennitölu og á Skógræktarfélag Kópavogs þrjá fulltrúa í stjórn félagsins en hvert hinna félaganna 1 fulltrúa.

Aðalfundir félagsins voru haldnir 21. mars 2019 og sá síðari 15. september 2020.

Stjórn félagsins er þannig skipuð á árinu 2019 – 2020

Frá skógræktarfélagi Kópavogs:

·         Jón Jakob Jóhannesson - formaður

·         Karl M. Kristjánsson – meðstjórnandi

·         Kristinn H. Þorsteinsson – meðstjórnandi

 

Frá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar:

·         Bjarki Þór Kjartansson – gjaldkeri

 

Frá Skógræktarfélagi Kjalnesinga:

·         Baldvin Grétarsson – ritari

 

Frá Skógræktarfélagi Kjósahrepps:

·         Kristján Oddsson – meðstjórnandi

 

Það helsta sem gerðist á árinu 2019 að gróðursettar voru 660 plöntur sem íbætur í fjallið ofarlega og sunnarlega á gisið svæði. Vorið 2020 kom ósk frá Fetar, landssamtökum ferðaþjónustufyrirtækja í heilsárs-ferðaþjónustu á hálendinu um að fá að gróðursetja í land Fossá en félagið var þá að leita sér að landi til að koma saman, gróðursetja og kolefnisjafna faratækin sem þeir aka um á í atvinnuskyni. Framkvæmdarstjóri Skógræktarfélags Kópavogs tók á móti hópnum með plöntur og verkfæri og leiðbeindi við gróðursetningar. Um haustið komu saman fáeinir sjálfboðaliðar og gróðursettu greni sem vonandi eiga eftir að nýtast sem jólatré þegar fram líða tímar og önnur fá það hlutverk að binda það sem binda þarf.

Alls voru gróðursettar á Fossá 3000 greniplöntur árið 2020.

Grindarhlið var sett á veginn upp að Eystri Fossá og greiddi Fossárfélagið 50 % af kosnaði á móti eiganda Eystri Fossá.

Ljósleiðari var lagður um land Fossár og voru sett upp tengibox beggja vegna ár sem geta nýst eigendum á svæðinu.

Gert var tilboð í sumarhús Félags foreldra samtaka fatlaðra á Fossá  í október 2019 að upphæð 4. milljónir og var tilboðinu tekið. Fyrir tilboð höfðu stjórnarmenn í Fossárfélaginu ásamt öðrum farið nokkrar ferðir til að skoða húsið og meta ástand þess. Töldu menn að það væri í þokkalegu ástandi og þess virði að kaupa það og lagfæra. Húsið var þrífið og margt fór á haugana sem ónýtt var eins og dýnur, teppi, gluggatjöld og ískápur með talsverð loðnum  og illa þefandi mat.  Fljótlega þarf að huga að gleri og gluggum, bera á húsið og fleira.  Haustið 2020 var sett upp varmadæla í húsinu.

Jólatrjáasala fór fram í desember bæði 2019 og 2020 sem fyrr og stóðu félagar vaktina tvær helgar. Skógræktarfélag Kópavogs annaðist sölu trjáa aðra helgina en hin félögin deildu með sér hinni helginni. Gekk salan þokkalega, sérstaklega í desember 2020.

Farnar voru ferðir á Fossá bæði árin til að velja torgtré fyrir Kópavogsbæ. Trén voru síðan felld og flutt í Kópavog. Heldur fækkaði töku torg trjáa á Fossá 2020 því það hafa verið að koma upp vænleg tré í Lækjarbotnum og verður svo áfram ef félagið heldur vel á spöðunum og annast grisjun en flutningur trjáa er mun hagstæðari frá Lækjarbotnum en frá Fossá.

Breytingar urðu á stjórn félagsins á síðasta aðlafundi 15. september 2020.  Jón Jakob Jóhannesson og Baldvin Grétarsson gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi og er þeim þakkað fyrir vel unnin störf í Þágu Fossá.

Á aðalfundinum var kjörin ný stjórn og er hún þannig skipuð fyrir árin  2020 – 2021

Frá skógræktarfélagi Kópavogs

·         Kristinn H. Þorsteinsson – formaður

·         Karl M. Kristjánsson – meðstjórnandi

·         Kristján Jónasson - Varaformaður

Frá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar:

·         Bjarki Þór Kjartansson – gjaldkeri

Frá Skógræktarfélagi Kjósahrepps:

·         Kristján Oddsson – meðstjórnandi

 

Frá Skógræktarfélagi Kjalnesinga:

·         Hafa ekki lagt fram í stjórn

 

Fh. Fossá, Skógrækrafélags

Kristinn H. Þorsteinsson formaður.

 

 

Árleg gróðursetning grunnskólabarna í Kópavogi er hafin

Gróðursetning grunnskólabarna í Kópavogi er reglulegur þáttur í skólastarfinu en ár hvert fá þau plöntur úr Yrkjusjóði til ræktunar í Skólaskógum á Vatnsendaheiði. Persónuleg reynsla og kynni nemanda af þessu starfi er fjársjóður sem á eftir að skila vöxtum þegar fram líða stundir. Árlega gróðursetja grunnskólabörn í Kópavogi undir handleiðslu Skógræktarfélags Kópavogs um og yfir 1.600 plöntur en 8 skólar sóttu um að fá plöntur úr Yrkjusjóði þetta árið. Að lokinni gróðursetningu og fræðslu fara börnin eins og áður niður í Guðmundarlund þar sem þau fá útrás fyrir orku, gleði og skapandi leiki.

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs 27. maí 2021

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs hefur ákveðið að reyna einu sinni en að boða til aðalfundar og er stefnt á halda fundinn 27. maí 2021. 

Eins og fram hefur komið í tölvupóstum og á heimasíðu þá hefur aðalfundi félagsins verið frestað þrisvar sinnum vegna samkomutakmarkanna. Verða því lagðir fram ársreikningar fyrir tvö síðustu ár þ.e. 2019 og 2020. Sama á við um skýrslur stjórnar og nefnda. 

Rýmkað var um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og er fundurinn boðaður í skjóli þess. ( Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar er í gildi frá og með 10. maí og gildir til og með 26. maí 2021. )

Komi upp sú staða að sóttvarnaraðgerðir verði hertar frá því sem nú er áskylur stjórn Skógræktarfélags Kópavogs sér rétt til að fresta aðalfundi með stuttum fyrirvara. 

Verði fundi frestað verður það gert með tölvupósti og á heimasíðu félagsins www.skogkop.is

og endurboðun hans fer fram með sendingu  tölvupósts á félag menn og á heimasíðu félagsins. Þeir félagar sem ekki eru með skráð netföng í félagatali Skógræktarfélagsins fá sendan bréfapóst.

=====================================================================================

Aðalfundarboð 

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs boðar til aðalfundar fimmtudaginn 27. maí 2021 Fundurinn hefst kl. 17:30 og verður í Guðmundarlundi að Leiðarenda 3, 203 Kópavogi. 

 

Dagskrá

 

1.     Fundarsetning 

2.     Kosning fundarstjóra

3.     Kosning fundarritara

4.     Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári

5.     Skýrslur nefnda

6.     Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins

7.     Tillaga að félagsgjaldi

8.     Lagabreytingar

9.     Kosningar samkvæmt félagslögum

10.   Tillögur um framtíðarverkefni félagsins 

11.   Önnur mál

==============================================

Athugið: 

Á eftirfarandi slóð má finna staðsetningu húsins að Leiðarenda 3 í Guðmundarlundi. 

https://ja.is/kort/?x=362107&y=399982&type=aerial&nz=14.38&page=1&q=lei%C3%B0arendi%203

 

Lög Skógræktarfélags Kópavogs

1.gr

Félagið heitir Skógræktarfélag Kópavogs og er héraðsskógræktarfélag innan Skógræktarfélags Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Kópavogi. 

2.gr

Markmið og tilgangur félagsins er að vinna að trjárækt, skógrækt, landgræðslu og öðrum tengdum umhverfismálum í Kópavogi og nágrenni og auka þekkingu og áhuga á þeim málum. Stuðla að lýðheilsu og útiveru landsmanna. Vera samstarfsvettvangur þeirra einstaklinga, félaga, fyrirtækja og stofnana sem vilja vinna að sömu eða svipuðum verkefnum og skógræktarfélagið.

3.gr

Markmið sínum og tilgang ætlar félagið meðal annars að ná með því að:

  • Veita félagsmönnum, nemendum og almenningi fræðslu um trjárækt, skógrækt, landgræðslu og önnur umhverfismál því tengdu í fyrirlestrum, námskeiðum, myndasýningum, sýnikennslu og fræðslugöngum eftir því sem hentar hverju sinni.

  • Hafa frumkvæði að og skapa uppbyggjandi sumarstörf fyrir ungmenni sem og aðra sem þess þurfa með í samvinnu við Kópavogbæ

  • Leita samvinnu við Kópavogsbæ og aðra landeigendur í lögsagnarumdæmi Kópavogs um friðun og ræktun heppilegra landsvæða í nágrenni bæjarins en einnig við aðila utan lögsagnarumdæmis ef henta þykir.

  • Hvetja félaga og almenning til að taka þátt í verkefnum félagsins

  • Hvetja til aukinnar þekkingar og ræktunar garðplantna fólki til ánægju og augnyndis innan þéttbýlis.

  • Hafa umsjón með og annast rekstur skógræktar- og útivistasvæða og gera svæðin eftirsóknarverð til útivistar og hreyfinga.

  • Hafa Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun að leiðarljósi

4.gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum, formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. 

Formann félagsins skal kjósa sérstaklega til tveggja ára í senn. Auk þess skal á hverjum aðalfundi kjósa tvo stjórnarmenn til tveggja ára í senn. 

Kjósa skal einn varamann í stjórn til eins árs í senn.
Stjórn skipar með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. 

Aðalfundur skal kjósa tvo skoðunarmenn ársreikninga og einn varamann til eins árs í senn. 

5.gr

Aðalfundur telst lögmætur ef löglega er til hans boðað samkvæmt 6.gr

6.gr

Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en í mars mánuði ár hvert. Stjórn félagsins boðar til aðalfundar með bréfi til félagsmanna með 10 daga fyrirvara og einnig með auglýsingu í útvarpi eða blöðum. Auka aðalfund skal halda í félaginu ef stjórn félagsins telur ástæðu til, eða 50 félagsmenn óska þess. Á aðalfundir ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála, öðrum en þeim sem um ræðir í 8. og 9.gr. laga þessara. 

Dagskrá aðalfundar skal vera: 

  1. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári

  2. Skýrslur nefnda

  3. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins

  4. Tillaga að félagsgjaldi

  5. Lagabreytingar

  6. Kosningar samkvæmt félagslögum

  7. Tillögur um framtíðarverkefni félagsins

  8. Önnur mál

Aðalfundur kýs heiðursfélaga að fengnum tillögum félagsstjórnar.
Á aðalfundi og öðrum fundum félagsins hafa allir félagar atkvæðisrétt. 

7.gr

Stjórn félagsins fer með öll málefni félagsins á milli aðalfund og ræður starfsmenn félagsins. Formaður stjórnar fundum stjórnar, en ritari bókar 
fundargerðir. Stjórninni er skylt að boða til félagsfundar ef 15 félagsmenn eða fleiri óska þess. 

8.gr

Ef félagið hættir störfum skal það samþykkt á tveim lögmætum aðalfundum í röð með 3/4 greiddra atkvæða á hvorum fundi og ráðstafar þá síðari fundurinn eignum félagsins til vörslu hjá Skógræktarfélagi Íslands, uns myndaður verður að nýju félagsskapur í sveitarfélaginu með sambærileg hlutverk. Skulu þá eignirnar renna til þess félags. 

9.gr

Lögum þessum verður eigi breytt nema á löglegum aðalfundi með 3/4 greiddra atkvæða. Tillögur frá félagsmönnum um lagabreytingar skulu berast félagsstjórninni fyrir 1.febrúar eða í síðasta lagi 30 dögum fyrir aðalfund.

Lög Skógræktarfélags Kópavogs, samþykkt á aðalfundi félagsins 14. júní 2019.

 

Hættustig vegna hættu á gróðureldum virkjað 11. maí 2021

Frétt af heimasíðu: https://www.almannavarnir.is/frettir/haettustig-vegna-haettu-a-grodureldum/

Hættustig vegna hættu á gróðureldum 11. maí 2021 12:00

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á Vestfjörðum, Vesturlandi, Höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi hafa ákveðið að lýsa yfir hættustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum. (Sjá tilkynningu vegna óvissustigs). Svæðið sem um er að ræða nær frá Breiðafirði að Eyjafjöllum. Þessi ákvörðun er byggð á undanfarið hefur lítið rignt þessu svæði og veðurspá næstu daga sýnir ekki neina úrkomu af ráði.

Hættustig almannavarna er sett á ef heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum þó ekki svo alvarlegar að um neyðarástand sé að ræða.  Að lýsa yfir hættustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings

Banna opin eld vegna þurrkatíðar
Samhliða því að fara á hættustig þá hafa allir slökkviliðsstjórar, á því svæði sem hættustig nær yfir, tekið þá sameiginlegu ákvörðun að banna meðferð opins elds vegna þurrkatíðar sem nú geysar. Slökkviliðsstjórar hafa sammælst um að slíkt bann sé nauðsynlegt þar sem mikil eldhætta getur skapast af litlum neista.

Bann þetta er í samræmi við reglugerð nr. 325/2016 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

26. gr.
Afturköllun leyfis.

Sýslumanni er heimilt að afturkalla leyfi sem veitt eru skv. reglugerð þessari ef skilyrðum í leyfi er ekki fylgt eða ef upp koma þær aðstæður að hætta er talin geta stafað af leyfðri brennu.

Slökkviliðsstjóri getur stöðvað leyfða sinubrennu, eða að kveikt sé í bálkesti, og bannað meðferð opins elds sé það talið viðsjárvert vegna veðurs eða af öðrum öryggisástæðum.

Bann þetta tekur gildi frá og með deginum í dag (11.5.2021) og tekur til þess landsvæðis sem hættustigið nær yfir. Bannið gildir þar til tilkynning um afléttingu er send út. Brot varða sektum.

Almenningur og sumarhúsaeigendur á svæðinu eru hvattir til að:

  • Ekki kveikja eld innan sem utandyra (kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira)

  • Ekki nota einnota grill sem og venjuleg grill

  • Kanna flóttaleiðir við sumarhús

  • Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun

  • Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista

  • Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta)

  • Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er

Hægt er að kynna sér betur hættur vegna gróðurelda:

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112.

Gróðureldar vestan við bílastæðið við Guðmundarlund

Um einn og hálfur hektari brann vestan við bílastæðið við Guðmundarlund í dag 10. maí 2021.

Það fór betur en á horfðist því vegur sem þverar svæðið þar sem bruninn var hægði á  framskrið eldsins og þegar  Slökkvilið kom náðu þeir fljótt tökum á eldinum og komu í veg fyrir að hann breiddist frekar út.

Mjög þurrt hefur verið á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar vikur og gróður skraufaþurr.

Mikil hálmur af gömlum lúpínustönglum sem hlaðist upp með tímanum lúpínubreiðum er mikill eldsmatur og það sýndi sig þarna enda varð eldhafið mikið og hljóp hratt yfir.

Trjágróðurinn sem skemmdust var stafafura, birki og gulvíðir en heilt á litið telst skaði af brunanum ekki mikill enda svæðið ekki stórt.

Stjórn Skógræktarfélags kópavogs færir slökkvuliðsmönnum bestu þakkir fyrir snör viðbrögð og handtök.

 

FJÖLGUN SKÓGARPLANTNA MEÐ VEFJARÆKT OG STIKKLINGUM Á VEGUM NORDGEN

Athygli er vakin á áhugaverðri fræðslu um fjölgun skógarplantna með vefjarækt og stikklingum á vegum Nordgen. Þáttaka er ókeypis og öllum opin.

NordGen Forest Webinar on March 24

On March 24, NordGen will arrange an online webinar  with the theme "New technology within plant production". The webinar will be held in Scandinavian languages. To ensure your participation in the event, please make sure to register before Friday 19 March.

THEME: The use of somatic embryogenesis and cuttings in forest seedling production
WHEN:  March 24, 2021, at 13.00-15.30 CEST
WHERE: Online. A link will be sent after registration
FOR: All those interesed in the theme

READ MORE AND REGISTER

 

AÐALFUNDUR SKÓGRÆKTARFÉLAGS KÓPAVOGS 25. MARS 2021

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs hefur ákveðið í ljósi núverandi stöðu í samfélaginu að boða til aðalfundar 25. mars 2021.

Eins og fram hefur komið í tölvupóstum og á heimasíðu þá var aðalfundi félagsins frestað í tvígang vegna samkomutakmarkanna. Verða því lagðir fram ársreikningar fyrir tvö síðustu ár þ.e. 2019 og 2020. Sama á við um skýrslur stjórnar og nefnda.

Komi upp sú staða að Sóttvarnaraðgerðir verði hertar frá því sem nú er áskylur stjórn Skógræktarfélags Kópavogs sér rétt til að fresta aðalfundi með stuttum fyrirvara.

Aðalfundarboð

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs boðar til aðalfundar Fimmtudaginn 25. mars 2021 . Fundurinn hefst kl. 17:30 og verður í Guðmundarlundi að Leiðarenda 3, 203 Kópavogi.

 

Dagskrá aðalfundar

1.     Fundarsetning

2.     Kosning fundarstjóra

3.     Kosning fundarritara

4.     Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári

5.     Skýrslur nefnda

6.     Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins

7.     Tillaga að félagsgjaldi

8.     Lagabreytingar

9.  Kosningar samkvæmt félagslögum

10.  Tillögur um framtíðarverkefni félagsins

11.  Önnur mál

 

FRÁBÆR 9 HOLU MINIGOLF VÖLLUR Í YNDISLEGRI NÁTTÚRU

Nú er klaki farinn af flötum á minigolf vellinum í Guðmundarlundi í Kópavogi. Völlurinn lítur vel út, iðagrænn eftir rigningu síðustu daga og kylfingar ánægðir með ástand hans.

Völlurinn stendur öllum opinn sem vilja njóta og þarf ekki panta eða bóka tíma því þar gildir gamla góða reglan fyrstur kemur, fyrstur fær. Ekkert gjald er tekið fyrir að nota völlinn en hver og einn verður að taka með sér eigin golfkylfur og kúlur.

Minigolf völlurinn er sannkallaður sælureitur fyrir alla fjöldskylduna sem er staðsettur stutt frá ys og þys bæjarins í yndislegri náttúru.

https://skogkop.is/

https://www.facebook.com/Sk%C3%B3gr%C3%A6ktarf%C3%A9lag-K%C3%B3pavogs-118338566674484

_MG_8087.JPG