Tröpputré.

Eins og undanfarandi ár verður Skógræktarfélagið með “ Tröpputré “ til sölu. Við eru að hefja undirbúning á að setja tréin á öflugri undirstöður en undanfarandi ár. Þessi eiga að standa betur í tröppunum og svo er hægt að nota fótinn í eldivið eða í garðeldstæðið.

thumbnail_IMG_4165[1].jpg
Tröpputré 2018.jpg

Guðmundarlundur

IMG_3796.JPG

Aðsókn að Guðmundarlundi hefur verið með ágætum í sumar þrátt fyrir rigningu flesta daga.

Nýr frisbígolvöllur hefur verið tekin í notkun. Er það eitt af verkefnunum sem kom út úr „ Okkar Kópavogur „ Til að það verkefni gæti orðið að veruleika þurfti mikið átak til að laga til skóginn, fella tré og búa til brautir. Aðal vinnan var nú samt að snyrta og laga til tréin hleypa lofti og byrtu í skóginn. Það er heilmikið mál að eiga fallega skóg og krefst mikillar vinnu. Starfsfólk Kópavogs hefur verið óþrjótandi  duglegt við að bera út úr skóginum greinar og gera stíga. Heimilismenn úr Dimmuhvarfi og Austurkór hafa verið duglegir við að moka kurli í poka. Er það ánægjulegt að geta útvegað þeim verkefni, þökkum öllum þeim sem kaupa kurl frá Skogkop. Það styrkir okkur í efla einstaklinga á þessum sambýlum.

IMG_3790.JPG

Það er ávallt verið að bæta aðstöðuna í Guðmundarlundi og það nýjasta er að eldstæði hefur verið gert til að hita ketilkaffi, hella er til að steikja lummur eða klatta Þar þarf bara að hafa kol með til að kynda undir plötunni. Ekki þarf að greiða fyrir not á þessari aðstöðu aðeins fyrir not af öðrum Grillunum, allt annað er gestum Guðmundarlundar velkomið að njóta. Munið eftir að koma með kylfu og kúlu fyrir minigolfið og dyska  fyrir Frisbígolfið.

Þökkum góða umgengni í Guðmundarlundi. Umgengni lýsir innra manni.

Þá var lagður grunnur að aldingarði í Guðmundarlundi.

„Eplið er í þinni hendi“ var á dagskrá í Guðmundarlundi laugardaginn 23. júní kl 16:00

„Eplið er í þinni hendi“ var á dagskrá í Guðmundarlundi laugardaginn 23. júní kl 16:00

Þá var lagður grunnur að aldingarði í Guðmundarlundi. Gróðursett voru sex mismunandi yrki af eplatrjám ´Close´, ´Julyred´,  ´Geneva Early´, ´Suislepp´,  ´Haugmann´ og ´Sävstaholm´. Einnig voru gróðursettir sex rifsberjarunnar af yrkinu 'Röd Hollands'.

Að lokinni gróðursetningu var boðið upp á grillaðar pylsur og epli í eftirrétt.

Líf í lundi var yfirskrift útivistar- og fjölskyldudags í skógum og lundum víða um land  þennan dag.

Eftirtalin eplayrki sem valin voru og framleidd af Jóni Guðmundssyni garðyrkjufræðing á Akranesi voru gróðursett í Guðmundarlundi 23. júní 2018:

 Close

´Close´ er sumarepli frá Virginiu í Bandaríkjunum sem kom fram 1925 og kom til Íslands um árið 2000 svo vitað er.  Aldinið er frekar stórt og gult í grunninn með rauðri slikju yfir. Stundum nær rauði liturinn yfirhöndinni. Close þykir gott borðepli en einnig góð í matreiðslu en þá má eplið ekki vera um of þroskað.  Yrkið er Þriggja litninga tré og getur ekki frjógvað önnur tré.

 Julyred

´Julyred´ er sumaryrki frá New Jersey er kemur fram 1962. Hingað til lands komið 2005 eftir því sem best er vitað.  Aldinið er miðlungsstórt, grunnlitur gulgrænn með rauðum strípum. Þykja góð borðepli.

Geneva Early

´Geneva Early´ er sumaryrki frá New York  fylki í Bandaríkjanum frá árinu 1982. Yrkið kemur fyrst til Íslands 2004 að talið er. Aldinið er meðalstórt og í grunninn gulhvítt með rauðri slikju á þeirri hlið er vísar að sól. Eplin eru helst notuð sem borðepli en einnig eru þau eitthvað notuð í matreiðslu.

Suislepp

´Suislepp´ er eistneskt  sumaryrki frá  aldamótunum 1900.  Aldinið er miðlungsstór, gulhvítt og rauðyrjótt.  Mjög  gott borðepli og til matvinnslu alls konar.  Sjálfsfrjótt að hluta og góður frjógjafi.

Haugmann

´Haugmann´ er Norskt haustyrki frá því um 1850 en berst sennilega fyrst til Íslands 1974. Aldinið er meðalstórt, gult og rauðröndótt epli. Er notað jöfnum höndum sem borðepli og í matvinnslu.  ´Röd Haugmann´ er stökkbreytt Haugmannsyrki með alrauð epli. 

Sävstaholm

´Sävstaholm´ er sænskt sumaryrki frá því um 1830. Talið er að yrkið hafi fyrst borist til landsins um 1960. Aldinið er miðlungsstórt, grunnlitur gulgrænn með rauðum strípum.

Eplin þykja bragðgóð og eru helst notuð sem borðepli.

Upprunalega móðurtréð lifir enn góðu lífi síðan 1835.

 Gróðursett rifsberjayrki var:

 Röd Hollandsk

'Röd Hollands' er gamalt hollenskt yrki sem kom fram fyrir 1729. Hérlendis hefur það verið í ræktun frá frá a.m.k. 1830

Aldinin eru glansandi rauð og berjaklasar meðalangir. Berin eru aðalega notuð í saft, sultu og hlaup. Rifs er sjálfrjóvgandi.

Samantekt: Kristinn H. Þorsteinsson

Eplið er í þinni hendi – Líf í lundi 23. júní

epli.png

Laugardaginn 23. júní kl 16:00 verður lagður grunnur að aldingarði í Guðmundarlundi í Kópavogi. Gróðursett verða eplatré og berjarunnar og þátttakendur fá fræðslu um ræktun aldintrjáa og berjarunna. 

Að lokinni gróðursetningu verður boðið upp á grillaðar pylsur og epli í eftirrétt.

Guðmundalundur er afar vistlegt og fjölsótt útivistarsvæði sem Kópavogsbúar og aðrir gestir heimsækja í auknum mæli á öllum árstímum. Markmiðið með aldingarðinum er að skapa meiri fjölbreytileika í Guðmundarlundi styrkja svæðið og auka gæði staðarins sem aðlaðandi og nærandi útivistasvæði.

Á undanförnum árum hefur verið vaxandi áhugi á ræktun ávaxtatrjáa og berjarunna aukist hér á landi. Ný yrki skjóta upp kollinum og þekking vex með degi hverjum. Skógræktarfélag Kópavogs ætlar að byggja upp aldingarð í Guðmundarlundi öllum til yndis og ánægju og nýta sér til þess þá þekkingu sem skapast hefur í einum þekktasta aldingarði landsins, Meltungu í Fossvogsdal í Kópavogi. Þar vaxa með ágætum fjöldinn allur aldintrjáa. 

Fræðslu og leiðsögn annast Kristinn H. Þorsteinsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs og Bernhard Jóhannesson, framkvæmdarstjóri Skógræktarfélagsins

Allir eru velkomnir 

Líf í lundi er yfirskrift útivistar- og fjölskyldudags í skógum og lundum víða um land  þennan dag

Leiðin í Guðmundarlund

gl.jpg

Fyrir þá sem ekki rata í Guðmundarlund er hér lýsing af beinustu leiðinni frá Vatnsendavegi að Guðmundarlundi.

Beygt er af Vatnsendavegi á hringtorgi inn á Markaveg  og hann ekinn til austurs gegnum hesthúsahverfið á Kjóavöllum þar til komið er að götu sem heitir Landsendi. Þar er skilti sem vísar á Guðmundarlund en einnig er skilti við hringtorgið á Vatnsendavegi merkt Guðmundarlundi. 

Ný hreinlætisaðstaða í Guðmundarlundi

Nýtt vatnssalerni hefur verið sett upp í Guðmundarlundi.  Það er til mikilla bóta að hafa vatnssalerni í stað kamra sem þarf að tæma reglulega og er kostnaðarsamt er að reka. Salernin eru tvö og vaskur í þeim báðum. Gámurinn eru einangraður, upphitaður, og í honum er ljós og rennandi vatn. Við treystum því að ekki verða unnin spjöll á þessari fínu aðstöðu og hægt verði að hafa þetta ávallt opið fyrir gesti okkar sem heimsækja Guðmundarlund. 

IMG_3504.JPG
IMG_3503.JPG

Hermannsgarður

Vinnu- og fræðsludagur verður í Hermannsgarði 7. júní

Vinnu- og fræðsludagur verður í Hermannsgarði í Guðmundarlundi í Kópavogi  fimmtudaginn 7. júní kl. 17:00 – 19:00

Hermannsgarður er samvinnuverkefni Kópavogsbæjar, Skógræktarfélags Kópavogs og Garðyrkjufélags Íslands til minningar um Hermann Lundholm sem var garðyrkjuráðunautur bæjarins.

Garðurinn samanstendur að mestu af fjölærum garðblómum úr garði Hermanns. Það er ýmislegt sem þarf gera í garðinum í upphafi sumars s.s. fjarlægja illgresi, skipta plöntum, raka yfir beð og spjalla saman.  

Þetta er tilvalin leið fyrir félaga til að hittast og spjalla og bera saman bækur sínar. Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í ræktun er þetta upplagt tækifæri til að læra til verka, skoða hönnun, staðsetningu og plöntuval. Athugið að hver og einn getur mætt þegar henni/honum hentar frá  kl. 17:00.

Verkfæri verða á staðnum og boðið verður upp á grillaðar pylsur og gos í dagslok.

Leiðin í Guðmundarlund

Fyrir þá sem ekki rata í Guðmundarlund er hér lýsing af beinustu leiðinni  frá  Vatnsendavegi að Guðmundarlundi.

Beygt er af Vatnsendavegi á hringtorgi inn á Markaveg  og hann ekinn til austurs gegnum hesthúsahverfið á Kjóavöllum þar til komið er að götu sem heitir Landsendi. Þar er skilti sem vísar á Guðmundarlund en einnig er skilti við hringtorgið á Vatnsendavegi merkt Guðmundarlundi.

kort_gudmundalundur.jpg

 

 

 

Fyrsti stjórnarfundur eftir aðalfund.

Fyrsti stjórnarfundur eftir aðalfund Skógræktarfélags Kópavogs var haldinn 23. apríl í Guðmundarlundi. Stjórnin skipti með sér verkum og er hún eftirfarandi :

Kristinn H. Þorsteinsson Formaður

Kristján Jónasson Varaformaður

Hannes Siggason Gjaldkeri

Þröstur Magnússon Ritari

Hrefna Einarsdóttir  Meðstjórnandi

Gísli Óskarsson Meðstjórnandi

Karl M. Kristjánsson Meðstjórnandi

IMG_3371.JPG

Varastjórn eru eftirfarandi :

Margrét Ragna Kjartansdóttir

Jón Jakob Jóhannesson

Sæmundur Alfreðsson

Bernhard Jóhannesson er Framkvæmdarstjóri 

 

 

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs.

Aðalfundur  Skógræktarfélags Kópavogs

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs boðar til aðalfundar mánudaginn 16.apríl 2018.

Fundurinn hefst kl. 20.00 og verður í Kiwanishúsinu, Smiðjuvegi 13a, Kópavogi

Dagskrá

 

1.     Fundarsetning

2.     Kosning fundarstjóra

3.     Kosning fundarritara

Dagskrárliðir skv. félagslögum:
4.     Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári

5.     Skýrslur nefnda

6.     Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins

7.     Tillaga að félagsgjaldi

8.     Lagabreytingar

9.     Kosningar skv. félagslögum

10. Tillögur um framtíðarverkefni félagsins

11. Önnur mál
Að formlegri dagskrá lokinni mun Ragnhildur Freysteinsdóttir umhverfisfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands flytja erindi í máli og myndum sem nefnist:
„Skógræktarferð til Kanada“

Veitingar í boði félagsins

Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna!

Með góðum kveðjum,

TRJÁKLIPPINGAR

TRJÁKLIPPINGAR

Nauðsynlegt er að laga til vöxt trjáa og runna helst einu sinni á ári og jafnvel oftar.  Algengast er að aðalklippingin sé framkvæmd að vetri eða snemma vors en einnig má klippa tré og snyrta á öðrum árstímum. Í verkið þarf góða sög, klippur og jafnvel stiga.  Marga runna nægir að grisja lítillega og laga aflaga vöxt. Einnig er gott að klippa vel frá gangstígum, gluggum og öðrum mannvirkjum.Best er að byrja á því að taka burt dauðar greinar og einnig allar greinar sem nuddast saman. Flesta runna er gott að grisja þannig að fjarlægja elstu greinarnar og skapa þannig pláss fyrir nývöxt.
Þetta á sérstaklega við um runna og tré sem blómgast á eldri greinum.

Runna og limgerði getur þurft að endurnýja reglulega alveg frá grunni og er þá sagað eða klippt niður í 10-25 sm hæð. Runna, sem blómgast á greinum frá fyrra ári, má líka klippa strax eftir blómgun. Stundum er líka hægt að fórna blómgun í eitt ár ef að endurnýja á runna eins og t.d birkikvist.

Hægt er að flokka tré og runna gróflega eftir því hvernig þeir blómgast.

 

  1. Runnar sem blómgast á endum greina sem vaxið hafa árið áður. T.d lyngrósir, sýrenur og gullregn. Slíkar tegundir eru aðallega grisjaðar ef þurfa þykir.
  2. Runnar sem blómgast eftir endilöngum greinum frá fyrra ári. Klippt er eftir blómgun eða elstu greinarnar grisjaðar burt. T. d. eru margir kvistir, toppar, snækóróna, geislasópur og flestar runnarósir (fjallarós, þyrnirós o.fl.) í þessum flokki. Til viðbótar má nefna rifs, sólber og stikkilsber sem líka tilheyra þessum flokki.
  3. Runnar sem blómgast á nýjum greinum. T.d dögglingskvistur, japanskvistur, perlukvistur og víðikvistur. Þessa runna má klippa alveg niður á hverju ári án þess að skerða blómgun.
  4. Klifurplöntur má grisja og stytta á veturna og oft er líka gott að klippa utan úr slíkum plöntum eins og t.d fjallabergsóley og skógartopp. Fjallabergsóley má líka klippa strax að blómgun lokinni. Bjarmabergsóley má klippa nokkuð mikið án þess að það komi niður á blómgun og sama á við um skógartopp.

Ef ætlunin er að endurnýja runna er stundum gott að gera það í 2-3 áföngum. Þá er hluti yngstu greinanna skilinn eftir til þess að hjálpa plöntunni af stað um vorið. Síðan má fjarlægja þær sem eftir stóðu síðar um sumarið eða veturinn eftir

Stundum þarf að grisja trjákrónur sem eru orðnar mjög þéttar og tætingslegar. Þetta er gert til þess að opna fyrir loft og birtu inn í krónuna en það dregur úr hættu á að reyniáta og aðrir sjúkdómar herji á trén. Einnig er rétt að fjarlægja rótarskot frá trjám.

Greinar skal ávallt saga upp við stofn en ekki að skilja eftir stubba. Þungar greinar er gott að taka í áföngum.
Ekki er góð aðferð að taka mikið ofan af trjám eins og sumir hafa gert. Slík tré eiga mjög erfitt með að loka sárunum og vanþrífast oftast og eru til lítillar prýði. Þó getur komið til greina að taka ofan af trjám ef það er gert snemma og vandað til verks. En að skilja eftir stóra og svera stofna er yfirleitt ekki góður kostur. Betra er að grisja burt nokkur tré og lofa þeim sem eftir standa að vera eðlileg og heilbrigð.

Grisjun trjákrónu og uppkvistun trjástofna getur verið góð lausn ef tré eru farin að valda miklum skugga. Sumum tegundum eins og birki og hlyn getur blætt mikið á vorin þegar þau byrja að laufgast. Betra er að klippa þau í febrúar-mars eða eftir laufgun.
Oftast er óþarft að bera í sár eftir að greinar hafa verið sagaðar burt. Ef ástæða þykir til er hægt að fá sérstakt sárasmyrsl sem kemur í veg fyrir sýkingar og hjálpar sárum að gróa.

trjaklippingar.jpg

Hvaða eiginleika hafa kjötmjölskögglar sem áburður?

Kjötmjöl það sem framleitt er hér á landi er í raun kjöt- og beinamjöl. Mjölið er framleitt úr bæði sláturúrgangi og beinum stórgripa og sauðfjár. Í svarinu verður mjölið kallað kjötmjöl til einföldunar.

Efnainnihald og leysni

Í kjötmjöli er að finna helstu næringarefni sem plöntur þurfa til vaxtar í hentugum hlutföllum, það er nitur (N) ~ 8%, fosfór (P) ~ 5% og kalín (K) ~ 0,5%. Kjötmjölið inniheldur á bilinu tífalt til fimmtánfalt niturinnihald miðað við húsdýraáburð, en um þriðjung af nitri miðað við algengan, auðleystan kemískan túnáburð.

Kjötmjöl er seinleystur áburður og sjást skýr áburðaráhrif á grasvexti þar sem hann hefur verið notaður á uppgræðslusvæðum í að minnsta kosti þrjú ár, mest á öðru ári. Áhrifin vara þó mun lengur og virðist mjölið duga til að breyta illa grónu landi í gróið land. Mjölið hefur yfirleitt verið notað í duftformi en á síðustu árum hafa kögglar verið búnir til úr mjölinu til að auðvelda dreifingu þess, til dæmis á golfvelli. Þess ber að geta að hefðbundinn „kemískur“ túnáburður er auðleysanlegur og nýtast næringarefnin úr slíkum áburði því að langmestu leyti fyrsta sumarið.

Kjötmjölið hefur yfirleitt verið notað í duftformi en á síðustu árum hafa kögglar verið búnir til úr mjölinu til að auðvelda dreifingu þess, til dæmis á golfvelli.

kjotmjol_litil_130812.jpg

Áhrif á jarðveg

Kjötmjöl er fremur kalkríkt og hefur ekki sýrandi áhrif á jarðveg eins og sumar gerðir af tilbúnum áburði hafa. Jafnvel er rætt um að kjötmjöl geti nýst erlendis sem eins konar kölkun á súrum jarðvegi, það er til að gera jarðveg basískari.

Kjötmjöl er ríkt af efnum og efnasamböndum, svo sem lípíðum, fjölpeptíðum og amínósýrum sem verða til við hitameðferð þá sem kjöt og beinaleifar fara í gegnum við vinnslu kjötmjölsins. Þegar slíkt efni, sem brotið hefur verið niður, er borið á jarðveg, þá margfaldast fjöldi örvera og jarðvegslífvera. Hugsanlega gæti aukinn fjöldi jarðvegsörvera náð að brjóta niður annað lífrænt efni sem til staðar er í jarðvegi og aukið þar með frjósemi hans enn frekar. Því er ekki aðeins mikilvægt að skoða kjötmjölið út frá beinu efnainnihaldi, heldur einnig út frá þeim áhrifum er það getur haft á lífríki jarðvegsins sem geta síðar skilað jarðvegsbætandi áhrifum. Sama gildir um fleiri gerðir lífræns áburðar.

Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið á notkun kjötmjöls sem áburðar hafa verið gerðar erlendis við hlýrri skilyrði en hér á landi. Reikna má með að við kaldari aðstæður í jarðvegi, svo sem hér, gangi niðurbrotsferli í kjötmjölinu hægar en þar sem hlýrra er og því ætti áburðurinn að duga heldur lengur, það er vera seinleystari en erlendis. Þess ber einnig að geta að jarðvegur hérlendis flokkast nánast allur sem eldfjallajarðvegur og hann hefur vissa eiginleika, til dæmis hærri bindingu af lífrænu efni og fosfór en þekkist í flestum nágrannalöndum okkar. Því má búast við að einhver mismunur sé milli áburðargjafar hér á landi með kjötmjöli. Hvort sem þau áhrif eru okkur í hag eða ei skal ósagt látið.

Í tilraun sem Landgræðsla ríkisins setti upp á Geitasandi á Rangárvöllum kom kjötmjölið betur út en til dæmis húsdýraáburður miðað við áhrif eftir 2 ár.

Um notkun á kjötmjöli

Kjötmjöl var notað sem fóður fyrir jórturdýr hérlendis og erlendis. Notkun þess var þó bönnuð hér á landi sem fóður fyrir jórturdýr árið 1978 og síðar í Evrópu og víðar í kjölfar kúariðu en nokkur tilfelli greindust í mönnum. Auk þess að vera góður prótíngjafi í skepnufóður er kjötmjöl ágætisáburður á gróður og hefur í ríkari mæli verið notað til áburðargjafar.

Nokkuð hefur verið slakað á kröfum um notkun kjötmjöls sem áburðar á síðustu árum, en settar voru afar strangar reglur um notkun mjölsins eftir kúariðufárið og í ljósi þess að dýralæknar óttuðust að sauðfjárriða gæti smitast með mjölinu. Heimilt er í dag að nota mjölið hér á landi til áburðar á beitilönd eða lönd sem eru nýtt til fóðurgerðar samkvæmt reglugerð nr. 395/2012 frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu frá apríl 2012, að því tilskildu að land sé ekki beitt strax í kjölfar áburðargjafarinnar. Reglur um íblöndun óætra efna, svo sem húsdýraþvags, eiga að taka gildi í september 2012. Reglur þessar eiga að tryggja að kjötmjöl verði nothæft sem áburður og þannig verði minni hætta á hringrás smitefna.

Kjötmjöl er kjörinn áburður til uppgræðslu, ekki síst vegna hægrar leysni og sjást áhrifin greinilega í 2-3 ár. Hefur áburðurinn verið borinn saman við aðrar tegundir áburðar, bæði lífræns og ólífræns, í tilraun sem Landgræðsla ríkisins setti upp á Geitasandi á Rangárvöllum. Þar skilaði kjötmjölið litlum áburðaráhrifum fyrsta sumarið, en hafði náð sömu áhrifum og tilbúni áburðurinn strax á öðru ári. Annar lífrænn áburður, svo sem slóg, húsdýraáburður og fleira stóð kjötmjölinu að baki. Þriðja árs uppgjör tilraunarinnar hefur ekki farið fram en spennandi verður að sjá þróunina. Miðað er við að bera á 1-1,5 tonn á hvern hektara og eru notaðir skeljasandsdreifarar þegar miklu magni er dreift. Hefur kjötmjöl verið notað til uppgræðslu á Þorlákshafnarsöndum, á Sandskeiði og víðar í landnámi Ingólfs, í Þjórsárdal og nú nýlega í landi Bolholts á Rangárvöllum. Einnig hefur mjölið verið nýtt til áburðar á íþróttavelli og golfvelli.

Helsti ókosturinn við nýtingu kjötmjöls er að fuglar og refir sækja í lyktina af mjölinu, meðal annars mávar.

Kjötmjöl ætti að vera ágætur áburður, að minnsta kosti sem íblöndun með tilbúnum kemískum áburði, til dæmis við ræktun á tvíærum tegundum en þar mætti nefna olíurepju. Hugsanlega mætti þá sleppa voráburðargjöf seinna árið. Þetta hefur þó ekki verið notað svo greinarhöfundur þekki til.

Helsti ókosturinn við nýtingu kjötmjöls er að fuglar og refir sækja í lyktina af mjölinu og ef það er kögglað ná þeir að éta það í mun meira magni en þegar því er dreift í duftformi. Fuglar eru þó horfnir nokkrum dögum eftir að dreifingu er lokið og fyrr ef rignir á mjölið eftir dreifingu.

Annar ókostur sem ber að nefna er að ef kjötmjöl er sett í sömu holu og trjáplöntur er hætta á að hann geti þurrkað upp plöntur, sér í lagi í þurrkatíð, en kjötmjölið er afar þurrt og dregur í sig raka úr umhverfinu. Einnig geta refir og önnur dýr þefað uppi kjötmjölið, jafnvel fram á vetur, og reynt að grafa eftir því en þá geta plönturnar fylgt með í kjölfarið. Þetta síðastnefnda gildir einnig um fiskimjöl.

Heimildir og áhugaverðir tenglar:

Spurningin í heild sinni hljóðaði svo:

Mig langar að vita hvaða eiginleika kjötmjölskögglar hafa sem áburður og hver bein áhrif á grasflötinn eru, samanborið við mykju/skít og/eða kemískan kornaáburð?  
Höfundur : Hreinn Óskarsson PhD, sviðstjóri samhæfingarsviðs / skógræktin.
 

Fræðslufundur

Fjórði fræðslufundur vetrarinns var haldin 27. febrúar og var vel sóttur. Friðrik Baldursson flutti erindi um " Kópavogur með grænum augum " var erindinu vel teki og afar fróðlegt og kom mörgum fundarmanninum á óvart hversu Kópavogur er grænt sveitarfélag og hefur mörg falleg græn svæði. Endilega kynnið ykkur grænusvæðin í Kópavogi og njótið þeirra. Af vef Kópavogsbæja :

 Umhverfisstefnan og framkvæmd hennar skal vera liður í daglegu starfi Kópavogsbæjar og stofnana bæjarins. Umhverfisstefnuna á að kynna fyrir starfsfólki, íbúum og starfsmönnum fyrirtækja í Kópavogi og birta opinberlega á vef Kópavogsbæjar. 

IMG_3218.JPG

Vissir þú að ..........

Vissir þú að...Hvað vinst með skógrækt? Ef við erum með 4ra metra háa trjáröð sem 15 metrar að lengd þá vinnast a.m.k eftirfarandi: -Vindstyrkurí skjóli trjánna mimkar um helming og hitastig getur hækkað um ca 5 gráður.- Blaðmassi trjánna síar og bindurum 1 tonn af ryki á ári úr andrúmslofti, auk þessi sem tréin safna ýmsum mengandi efnum og binda kolefni. -Trjáröðin myndar 1,7 kg af súrefniá klukkustund sem er meðalsúrefnisþörf fyrir 64 menn. -Á sólríkum deigi gufa upp um 400 lítrar út frá blöðum trjánna. þetta eikur rakastigið í loftinu og bætir lífsklylrði fyrir annan gróður. -Uppskera á garðávöxtum korni og grasi eykst um 13-24%........

IMG_2721.JPG

Fræðslufundur 27. febr. 2018 kl.20

 

Fundarboð

 Skógræktarfélag Kópavogs boðar til fræðslufundar
þriðjudaginn 27. febr. 2018, kl. 20

Á fundinum mun Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogs flytja erindi sem nefnist:  

"Kópavogur með grænum augum"

Fundurinn verður haldinn í Kiwanishúsinu, Smiðjuvegi 13a, Kópavogi (sjá staðsetningu á meðfylgjandi korti).

Kaffi og meðlæti í boði félagsins.

Félagsmenn eru hvattir til þess að fjölmenna á fundinn og taka með sér gesti.Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs

IMG_2862.JPG

Tilkynning frá stjórn Skógræktarfélags Kópavogs um breytingar sem varða stjórnina:

Á stjórnarfundi SK þann 29.jan. s.l. tilkynnti Bragi Michaelsson ritari stjórnar  að hann hefði tekið ákvörðun um að hverfa úr stjórn félagsins og myndi sú ákvörðun taka gildi samstundis.Á sama fundi var tekin ákvörðun um að Skógræktarfélag Kópavogs myndi ráða starfsmann í stað þess að hafa verktaka. Starfsmaðurinn hefur stöðu framkvæmdastjóra félagsins.            Bernhard Jóhannesson sem verið hefur formaður félagsins frá því í apríl 2017 var ráðinn sem framkvæmdastjóri og sagði af sér sem formaður félagsins og vék þar með úr stjórninni á stjórnarfundinum 29.jan. s.l.    Bernhard mun hefja störf 1.mars 2018.  Ólafur Wernersson sem hefur verið varaformaður félagsins hefur tekið við sem formaður. Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs býður Bernhard velkominn til starfa og þakkar jafnframt Braga Michaelssyni fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs

Fræðslufundur 30. janúar 2018 Kl,20

Skógræktarfélag Kópavogs boðar til fræðslufundar
þriðjudaginn 30.jan. 2018, kl. 20

Á fundinum mun Þorbergur Hjalti Jónsson sérfræðingur á Mógilsá tala um markað fyrir iðnvið hér á landi, arðsemi skógræktar og hvað þurfi til að fjárfestar leggi í stórfelda skóggræðslu.“ Fundurinn verður haldinn í Kiwanishúsinu, Smiðjuvegi 13a, Kópavogi (sjá staðsetningu á meðfylgjandi korti).

Kaffi og meðlæti í boði félagsins.

Félagsmenn eru hvattir til þess að fjölmenna á fundinn og taka með sér gesti.

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs

Kiwanishús.PNG

Ný heimasíða.

Gleðilegt ár ágætu félagar í Skógkóp. Ný heimasíða fór í loftið um áramót og vonum við að hún líki vel. Ef það eru einhverjar ábendingar þá eru þær kærkomnar og munum við reyna að bregðast við þeim. Smátt og smátt mun koma meira efni inná síðuna, allt sem var á gömlu síðunni sem skipti máli var fært á milli. Eitthvað sem ekki átti lengur við var þurkað út. Helstu breytingar eru að pöntun á grillaðstöðu er komin inná síðuna og von er á dagatali tengdri síðunni fljótlega. Verið óhrædd að senda efni sem þið teljið að eigi heima á síðunni, allt efni er vel þegið.

Kveðja Bernhard Jóhannesson

Read More