Umsagnarbeiðni í Skipulagsgátt Kópavogsbæjar

Þann 11. júlí óskaði Kópavogsbær eftir umsögn Skógræktarfélags Kópavogs um eftirfarandi mál í Skipulagsgátt:

Vatnsendahlíð, Vatnsvík og Kjóavellir. Nýtt deiliskipulag og breyting á deiliskipulagsáætlunum., nr. 0963/2025: Lýsing (Nýtt deiliskipulag)
Kynningartími var frá 11.7.2025 til 1.9.2025.

Á eftirfarandi slóð má skoða breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 og breytingu á deiliskipulagi/nýtt deiliskipulag:
https://skipulagsgatt.is/files/098c7abb-931a-424c-87b2-f9bf25f23bf2
og um samráðsáætlun Kópavogsbæjar:
https://skipulagsgatt.is/files/ad49cf3b-6200-4d39-b3ca-3a7559dfab4b

Þann 28. ágúst 2025 sendi stjórn félagsins frá sér eftirfarandi umsögn inn í Skipulagsgátt:

===========================================

                                                                                         28.8.2025

Kópavogsbær

Efni:
Breyting á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040. Vatnsendahlíð, Vatnsvík og Kjóavelli.

Í pósti dagsettum 11. júlí 2025 óskar Kópavogsbær eftir umsögn Skógræktarfélags Kópavogs við breytingar á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040.Vatnsendahlíð, Vatnsvík og Kjóavellir, nr. 0960/2025.
Það kom stjórn og starfsmönnum Skógræktarfélags Kópavogs verulega á óvart að Skógræktarfélaginu hafi ekki verið boðið að vera samráðsaðili í því ferli sem hafið er.
Í kynningu á skipulagsdrögum eru eftirfarandi aðilar nefndir til að tryggja samráð:

·         Hestamenn á svæðinu

·         Eldri borgarar í Boðaþingi

·         Íþróttafélög; Breiðablik, HK, Gerpla

·         Nemendur í Hörðuvalla- og Vatnsendaskóla

·         Stjórn félags eldri borgara í Kópavogi

·         Hópur eldri borgara sem sækja félagsmiðstöðina Boðaþing

·         Íbúar í Gula- og Boðaþingi

Það er mikill munur á að fá tækifæri til að sitja við borðið sem samráðsaðili eða vera umsagnaraðili eins og Skógræktarfélagi Kópavogs stendur til boða. Skógræktarfélagið telur að reynsla og þekking starfsmanna og stjórnar geti nýst við þróun skipulagsdraganna.
Skógræktarfélag Kópavogs hefur verið umsjónaraðili Guðmundarlundar frá árinu 1997 og hefur rekið þar útivistarsvæði opið almenningi. Hin síðari ár hefur lundurinn verið rekinn í góðu og farsælu samstarfi og með stuðningi frá Kópavogsbæ. Skógræktarfélag Kópavogs hefur sinnt samfélagslegu hlutverki í áratugi með því að taka á móti skólafólki, einstaklingum frá Velferðarsviði, fólk með hreyfihömlun og einstaklingum sem koma frá öðrum löndum og eru að koma sér fyrir á Íslandi. Félagið hefur tekið að sér að afla verkefna, annast kennslu og þróa færni sumarstarfsmanna í fjölbreyttum verkefnum á sviði umhverfismála.
Um 60 – 70 þúsund manns af öllu höfuðborgarsvæðinu, almenningur, skólafólk, íþróttafélög og ýmis stuðnungs félög og fyrirtæki leggja leið sína í Guðmundarlund ár hvert. Skógræktarfélagið annast daglegan rekstur og umhirðu 365 daga ársins og er rekstur svæðisins í þeim farvegi að svo sómi sé að. Kópavogsbær nýtur sannarlega góðs af jákvæðu umtali um Guðmundarlund í samfélaginu.

Í samningi milli Kópavogsbæjar og Skógræktarfélagsins frá árinu 2022 kveður meðal annars svo á að Menntasvið Kópavogsbæjar í samstarfi við Skógræktarfélag Kópavogs og Náttúrustofu Kópavogs skuli leiða þróunarverkefni sem miðar að því að móta og innleiða miðstöð útináms í Guðmundarlundi fyrir skóla- og frístundastarf í Kópavogi.

Fé fékkst úr Sprotasjóði Rannís fyrir verkefni tengt útinámi og þróun miðstöðvar útináms. Í verkefninu er lögð áhersla á umhverfis- og sjálfbærnimenntun í leik- og grunnskólum og frístundum, að efla fjölbreytt nám í náttúrulæsi, umhverfis og náttúruvernd, mikilvægi útivistar, lýðheilsu og sjálfbærni í samræmi við menntastefnu Kópavogs. Verkefnið er í aðgerðaráætlun menntasviðs Kópavogsbæjar. Útinám skólabarna frá skólum Kópavogs fer fram vor og haust bæði innan Guðmundarlundar og á Vatnsendaheiði.
Að klippa í sundur tengingu útivistarsvæðanna í Guðmundarlundi og Vatnsendaheiði myndi rýra verulega gæði svæðisins sem heilstæðu kerfi útivistarsvæðis og fræðslumála.

Það eru ekki margir staðir á landinu öllu sem njóta jafn mikillar aðsóknar og Guðmundarlundur og er það ekki að ástæðulausu. Með ört stækkandi byggð er mjög mikilvægt að standa vörð um útivistarsvæði og gefa  bæjarbúum og gestum sveitafélagsins andrými til að upplifa náttúru, menningu og holla hreyfingu í fögru umhverfi.
Það eru fjölmörg tækifæri á að horfa til þess að Guðmundarlundur geti áfram þjónað sem mikilvægt hlið inn á víðlendur Vatnsendaheiðar þar sem Kópavogsbúar og aðrir gestir njóta þess að ganga um, skokka, hjóla eða fara um ríðandi.
Mikill fjöldi ökutækja tengist óneytanlega útivistasvæðinu í Guðmundarlundi og á Vatnsendaheiði. Leiðin frá Vatnsendavegi um Þingmannaleið og að Guðmundarlundi fer ekki í gegnum íbúðarhverfi eins og sjá má á uppdráttum.  Ekki er að sjá að gert sé ráð fyrir bílastæðum við Guðmundarlund samkvæmt Mynd 5 í gögnum um breytingum á aðalskipulagi Kópavogs 2019 – 2040.  Ekki er óalgengt að milli 60 og 70 bifreiðar séu á bílaplani Guðmundarlundar. Þess má geta að langferðabifreiðar með leik – og grunnskólabörnum koma daglega virka daga einkum vor og haust og þá eru oft margar rútur á bílastæðinu í einu. Aðgengi þarf að vera skýrt og öryggi gesta og gangandi í hávegum haft.
Á Mynd 5 í gögnum er ekki að sjá að landamerki Guðmundarlundar sé í samræmi við þá samninga sem eru á milli Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Kópavogs. Gerum við athugasemdir um þá villu sem þar er að finna.

Guðmundarlundur og Vatnsendaheiði er paradís í Kópavogi sem mikilsvert er að horfa á sem eina órjúfanlega heild.

 
Með kveðju fyrir hönd stjórnar.
Jón Ingvar Jónasson formaður
Kristinn H. Þorsteinsson framkvæmdarstjóri