Guðmundarlundur

Yfirlitsmynd af Guðmundarlundi

Yfirlitsmynd af Guðmundarlundi

 
 

Guðmundarlundur sem er í Vatnsendahlíð í Vatnsendalandi er afar vistlegt útivistarsvæði sem Kópavogsbúar eru óðum að kynnast og njóta og nýtur orðið mikilla vinsælda. Skógræktarfélag Kópavogs á og rekur lundinn. Guðmundarlundur er öllum opinn. Lundurinn er lokaður frá föstudegi til sunnudags milli kl 19:00 - 07:00

Gamla húsið

Gamla húsið

Í honum eru fjögur útigrill, þar af tvö í grillhúsi með borðum og bekkjum, eitt grill er við Gamla húsið, farið er til vinstri þegar komið er inn fyrir hliðið að garðinum og fjórða grillið er á nýrri flöt, Grillflöt með barna- og leiksvæði sem gengið er beint inná af planinu, vinstra megin við stóru hliðin.

Í lundinum er töluvert skógarsvæði með skemmtilegum stígum og lundum. Einnig er stór grasflöt, sem nota má til leikja eða samkomuhalds.

gudmundarlundur-gongukort-mars2009.jpg

Sumarið 2008 bættist við í Guðmundarlund myndarlegur garður með fjölbreyttum fjölærum garðagróðri úr garði Hermanns heitins Lundholm. Garðurinn ber nafnið Hermannsgarður. Sumarið 2009 voru gerð nokkur beð milli Hermannsgarðs og grillhúss með hátt í hundrað runnaplöntum af um 70 tegundum. 

hermannsgardur.jpg

Búið er að malbika aðalstíginn um Guðmundarlund og setja lýsingu með honum. Innst í Guðmundarlundi er komið nýtt félags- og þjónustuhús sem jafnframt er fræðslusetur. Það hús hefur fengið nafnið Nýja húsið. Þar er hægt að leigja salinn til ýmissa samkoma.

gudmgamlib.gif

Þann 28. nóvember 1997 afhenti Guðmundur Jónsson  og fjölskylda hans Skógræktarfélagi Kópavogs 6,5 hektara landsspildu þar sem Guðmundur og fjölskylda hans höfðu ræktað upp örfoka land. Þá var þar kominn vöxtulegur skógur en eftir var að ganga frá stórri flöt sem enn var í órækt. 
Svæðið er nefnt Guðmundarlundur eftir gefanda þessarar höfðinglegu gjafar.

Gudml-upphaf1.jpg
Gudml-upphaf2.jpg

Skógræktarfélag Kópavogs sér um umhirðu, viðhald, sorphirðu, og viðhald á salernisaðstöðu (sem er á svæðinu 1.maí - 30.október).

Félagið hefur mjög takmarkaðar tekjur og á ekki aðra kosti en fá kostnaðinn greiddan frá notendum svæðisins. Til að hafa á móti útlögðum rekstrarkostnaði höfum við sett upp gjald fyrir afnot hópa af aðstöðunni. Nánari upplýsingar um grillaðstöðu og leigu í Guðmundarlundi.

Grillhúsið í Guðmundarlundi.

Grillhúsið í Guðmundarlundi.

 

Hér má finna part úr skemmtilegri grein frá ferlir.is um Guðmundarlund.

Skammt frá Litlabás er Stóribás. Þar er nú hinn myndalegasti skógræktarlundur. Á skilti við Lundinn segir: "Guðmundur Halldór Jónsson varð snemma áhugasamur um ræktun landsins.
Hann er vaxinn úr grasi í fallegri sveit norður í Fljótum í Skagafirði, þar sem vetur eru snjóþungir og harðir, en jörð vaknar gjarnan iðagræn að vori undan hvítum feldi. Sú náttúrusýn hefur án efa haft sterk og mótandi áhrif á Guðmund. Hann hleypti ungur heimdraganum, en ann sínum bernskustöðvum og hefur á síðari árum kostað kapps að græða sárin foldar norður þar með umsvifamikilli skógrækt á jörð sinni Minna-Grindli.

Það er óhætt að segja að aðdragandi stofnunar Byggingavöruverslunar Kópavogs árið 1962, sem Guðmundur reisti og rak ásamt Hjalta Bjarnasyni mági sínum, hafi verið ræktunarstarf hans í landi Vatnsenda. Þar tók Guðmundur á leigu landspildu snemma á sjöunda áratugnum. Ásamt fyrri konu sinni Önnu Bjarnadóttur og börnum braut hann ófrjóa jörð og setti niður kartöflur og rófur. Uppskeran var síðan seld og ágóðanum varið í uppbyggingu verslunarrekstursins.

image005.jpg

Árið 1967 voru fyrstu trjáplöntur gróðursettar í Stórabásim eins og þetta land heitir, þar á meðal sitkagrenisplanta, sem Guðmundur hljóp með upp í hlíðina og gróf niður mót suðvestri. Þetta tré er í dag mjög áberandi og gróskumikið þar sem það breiðir út sígrænar greinar og býður gesti og gangandi velkomna í Guðmundarlund. Af brennandi áhuga og óbilandi elju ræktaði Guðmundur upp þetta örfoka land, sem nú er orðið að sannkallaðri vin. Þegar illa áraði og harðir vetur brutu niður og eyðilögðu fyrri ræktunarstörf eða frostnætur á sumri felldu viðkvæmar plöntur, þá var horft til grenitrésins góða og byrjað upp á nýtt af tvíefldum krafti.

unnamed.jpg

Um árabil var plastgróðurhús í Stórabási eða Garðinum, því innan fjölskyldunnar var alltaf talað um að fara upp í Garð. Í þessu gróðurhúsi var eplatré ásamt perutré, sem bæði náðu að bera ávöxt og einnig heilmikil jarðarberjaræktun. Það er Guðmundi og fjölskyldu hans mikils virði að vita af þessum reit í höndum Skógræktarfélags Kópavogs og megi hann vaxa og dafna og veita bornum og óbornum ómældar yndisstundir.