Árskýrsla Skógræktarfélags Kópavogs

Árskýrsla Skógræktarfélag Kópavogs milli aðalfunda frá 21. mars 2023 – 12. mars 2024

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs 2023 var haldinn 21. mars á Leiðarenda 3 í Guðmundarlundi. Stjórn félagsins er þannig skipuð.

Þröstur Magnússon formaður
Jón Ingvar Jónasson varaformaður
Sigrún óskarsdóttir gjaldkeri
Loftur Þór Einarsson ritari
Júlíus meðstjórnandi og
Hrefna Einarsdóttir varamaður
Kristinn H. Þorsteinsson er starfsmaður félagsins.

Frá aðalfundi hafa verið haldnir 6 stjórnarfundir.

Starfsemi skógræktarfélagsins var með svipuðu sniði og undanfarin ár.

Maí mánuður var sólarlítill og votviðrasamur á höfuðborgarsvæðinu eftir annars prýðilegt veður vikuna á undan. Seint í maí kom hver lægðin á fætur annarri yfir landið með suðvestan- og sunnan hvassviðri sem ollu töluverðum skemmdum á gróðri. Tré, runnar og annar gróður misstu lauf áveðursmegin og létu á sjá langt fram eftir sumri. Blómgun misfórst hjá sumum tegundum sem voru farin að blómstra og dæmi um það er birki sem ekki náði  að mynda og þroska fræ nema að litlu leyti víðast hvar á landinu. Sumarið og haustið var með ágætum.

Milli Skógræktarfélagsins og Kópavogsbæjar er samningur sem meðal annars kveður á um að félagið taki á móti sumarstarfsmönnum og sjái um að rekstur og umhirðu Guðmundarlundar og að lundurinn sé í þeim farveg að sómi sé að.   Svæðið skal opið fyrir gesti og gangandi árið um kring.  Þá nær samningurinn yfir samstarf um daglegan rekstur á Leiðarenda 3 en eignarhlutur Kópavogsbæjar er 55 % og Skógræktarfélagsins 45 % Samningurinn nær einnig yfir skóg- og landgræðslu á Vatnsendaheiði, Selhólum og Selfjalli í landi Lækjarbotna. Samningurinn sem er til 3. ára rennur út um áramótin 2024 og 2025.

Fyrstu sumarstarfsmenninir komu til starfa um mánaðamótin apríl - maí en þorinn allur hóf störf 22. maí og luku störfum 9. ágúst. Fáeinir starfsmenn fengu tækifæri á að starfa áfram fram að áramótum. Rúmlega 25 manns voru skráðir í störf hjá skógræktarfélaginu yfir sumartímann sem er heldur færra en árið áður en skortur á sumarstarfsmönnum sem hafa getu til að stjórna veldur því.

Skógræktarfélag Kópavogs hefur sinnt samfélagslegu hlutverki í áratugi með því að taka á móti skólafólki, einstaklingum frá Velferðarsviði, fólk með hreyfihömlun og einstaklinga sem koma frá öðrum löndum og eru að koma sér fyrir á Íslandi.  Félagið hefur tekið að sér að afla verkefna, annast kennslu og þróa færni sumarstarfsmanna í fjölbreyttum verkefnum á sviði umhverfismála.

 Sem fyrr var misjafnt hversu lengi sumarstarfsmenn stöldruðu við. Öflugir einstaklingar í virkri atvinnuleit sem nýverið höfðu fengið kennitölu og voru í sinni fyrstu vinnu í Guðmundalundi stoppuðu stutt við. Með viljann að vopni hvarf þetta fólk fljótt til annarra starfa þar sem von var um framtíðarstörf. Þannig hefur skógræktarfélagið orðið stökkpallur fyrir duglegt og áhugasamt fólk til að koma sér inn samfélagið. En því miður þá eru ekki allir sem ná að nýta sér starfsemi skógræktarfélagsins sem stökkpall inn í lífið. Þó við hjá skógræktarfélaginu séum öll að vilja gerð til að leggja okkar að mörkum til samfélagsins og aðstoða fólk í sínum fyrstu skrefum í nýju samfélagi þá eru vandamálin mörg og sum það flókin að það þarf fólk með kunnáttu víðtæka reynslu til að fást sum vandamál starfsmanna sem við hjá skógræktarfélaginu getum ekki boðið upp á.

Frá Sambýlinu í Dimmuhvarfi komu íbúar og tóku þátt í verkefnum í Guðmundarlundi en þeim fylgja ætíð aðstoðarmenn enda fötlun þeirra mjög mikil. Ekki eigum við von á öðru en að það góða samstarf haldi áfram.

Á árinu annaðist Skógræktarfélagið gróðursetningar á um 19.000,-  trjáplöntum í Selfjalli ofan Lækjarbotna. Mest var gróðursett af birki. Skógræktarfélagið hlúði að fyrri gróðursetningum en sem fyrr urðu nokkur aföll en skemmdir stöfuðu einkum frá skafrenning þá um veturinn.

Í Selfjalli og í Lækjarbotnum hafa félagasamtök fengið úthlutað reiti til gróðursetninga en hafa jafnframt möguleika á að koma sér upp aðstöðu til að mynda með bekkjum og borðum. Félögin eru Kiwanisklúbburinn Eldey, Lionsklúbburinn Eir, Rótarýklúbburinn Borgir, Rótarýklúbbur Kópavogs , Soroptimistaklúbburinn og Útivist. Rótarýklúbburinn Borgir var eina félagið sem gróðursetti þetta árið og var það gert á fallegum degi í lok september. Alls voru settar niður 130 birkitré. Önnur félög sem höfðu undirbúið gróðursetningardag um mánaðarmótin maí – júní frestuðu fyrirhuguðum gróðursetningum þar sem mikil rigning dundi á Selfjalli þegar stundin rann upp.

Skátaskáli Garðbúa í Lækjabotnum var leigður af og til undir sumarstarfsfólk fyrir kaffiaðstöðu en sú aðstaða er til fyrirmyndar í alla staði.

Gróðursetningar -  og fræðsludagur grunnskólabarna í Kópavogi er reglulegur þáttur í skólastarfinu en ár hvert fá þau plöntur úr Yrkjusjóði til gróðursetningar í Skólaskógum á Vatnsendaheiði. Sem fyrr mættu skólarnir á Vatnsendaheiði og eftir fræðslu og gróðursetningar og var farið niður í Guðmundarlund  þar sem var grillað og stundaðir ýmsir leikir. Gróðursettar voru um 1200 plöntur.

Í lok ágúst bauðst framkvæmdastjóra félagsins Kristni H. Þorsteinssyni að flytja erindi hjá Rótarýklúbbnum Borg. Í fyrirlestrinum stiklaði Kristinn á stóru í  máli og myndum um starfsemi Skógræktarfélags Kópavogs í þau rúm 54 ár sem félagið hefur starfað. Erindið nefndi hann „ Áhrifavaldar í rúm 50 ár“
Undanfarin þrjú ár hefur Skógræktarfélagið í samstarfi við Kópavogsbæ boðið almenningi að taka þátt í gróðursetningum á Vatnsendaheiði undir leiðsögn og leggja sitt að mörkum í þágu samfélagsins. Í síðasta starfstímabili var boðið upp á einn dag til gróðursetningar fyrir almenning og var dagurinn boðaður í tengslum við og undir merkinu Líf í lundi en sá viðburður hefur fest sig sessi um land allt þar sem hvatt er til hreyfingar, samveru og skóga- og náttúruupplifunar. Dagurinn var auglýstur 27. júní en þann dag rigndi eldi og brennistein. Hér í Guðmundarlund mættu félagsmenn, hjón sem voru tilbúinn í slaginn en framkvæmdastjóri sá auman á sjálfum sér og aflýsti viðburðinum.

Verkefnið  „Okkar Kópavogur“ er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í bænum. Íbúar fá tækifæri á að kjósa inn hugmyndir í rafrænni kosningu. Eins og fram kom á síðasta aðalfundi þá voru tvö verkefni sem snúa beint að okkur kosinn inn árið 2022. Annars vegar myndarlegur göngu- og hjólastígur milli Boðaþings og Guðmundarlundar sem lagður var strax þá um sumarið 2022 en sá stígur hefur styrkt svæðið okkar heldur betur sem útivistarsvæði og hins vegar var kosið inn uppsetning á leiktækjum í Guðmundarlundi. Leiktækinn komu upp haustið 2023 og var mjög vel að öllu staðið og á verktakinn og Kópavogsbær heiður skilið fyrir þá framkvæmd.

Félagsmiðstöðvar eldri borgara  - og Félag eldri borgara í Kópavogi efndu til skemmtiferðar í Guðmundarlund fimmtudaginn 15. júní. Gestgjafar í Guðmundarlundi voru Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær sem tóku á móti gestunum milli klukkan 14:00 og 16:00. Formaður Skógræktarfélags Kópavogs, Þröstur Magnússon, bæjarstjórinn í Kópavogi, Ásdís Kristjánsdóttir og formaður Félags eldri borgara í Kópavogi Margrét Halldórsdóttir ávörpuðu gesti sem voru um í 200.

Félag eldri borgara á Selfossi sóttu Guðmundarlund heim þann 13. september. Þau nutu fræðslu í máli og myndum í sal og síðan var gengið um Guðmundarlund undir leiðsögn framkvæmdastjóra.

Bikarmót Breiðabliks í ólympískum fjallahjólreiðum var haldið í Vatnsendahlíð og í Guðmundarlundi í Kópavogi sunnudaginn, 21. maí. Þetta er orðinn árviss viðburður og er mikill fjöldi manni á öllum aldri sem mæta til að njóta dagsins bæði sem keppendur og áhorfendur. Brautin lá sem fyrr um Vatnsendahæð, að hluta til innan skógarins í Guðmundarlundi og við bílastæðin. Mótið tókst á allan hátt vel og aðstoðaði Skógræktarfélagið Breiðablik eins og kostur var. Miðstöð mótshaldara var í fræðslusetrinu á Leiðarenda 3. Næsta mót verður haldið um Hvítasunnuna næstu eða nánar tiltekið 20. maí.

Stuðningsfélagið Kraftur hefur það að leiðarljósi að beita sameinuðum kröftum sínum til að aðstoða og styðja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein. Árlega koma félagsmenn, fjölskyldur og velunnarar og halda sumarhátíð.  Að þessu sinni var dagurinn 22. júní og var margt um manninn eða um 200 manns sem nutu grillmatar og leikja í ágætis veðri.

Neistinn Styrktarfélag hjartveikra barna hélt sína sumarhátíð í Guðmundarlundi 9. ágúst með glæsibrag. Að sjálfsögðu var grillað, spilað minigólf og frisbí og síðan mættu allskonar fígúrur sem skemmtu börnunum jafnt sem fullorðnum.  

Í Hermannsgarði voru tvö pör gefin saman að viðstöddu fjölmenni eins og var árið áður. Það voru fleiri sem stefndu á að láta pússa sig saman utandyra en slæm veðrátta þessa völdu daga sló það út af borðinu.

Notkun á fræðslusetri okkar á Leiðarenda 3 hefur aukist jafnt og þétt. Starfsmenn skóla og hinar ýmsu deildir og svið Kópavogsbæjar hafa í auknum mæli notfært sér það sem húsið og umhverfið hefur uppá að bjóða. Hér fer fram stefnumótun, námskeið og ýmislegt annað. Kennarar hjá grunn- og leikskólum bæjarins hafa mætt í í auknum mæli með nemendur í  fræðslu og til leikja. Þá hefur Gamla húsið notið vinsælda sem afdrep fyrir nemendur þegar útinám fer fram í Guðmundarlundi. Húsið er leigt út fyrir giftingarveislur, afmæli og aðra viðburði fyrir gesti og gangandi. Mini- og frisbígolfið, sem og grillaðstaðan njóta sem fyrr mikilla vinsælda.

Í samningi milli Kópavogsbæjar og Skógræktarfélagsins kveður svo á um að Menntasvið Kópavogsbæjar í samstarfi við Skógræktarfélag kópavogs og Náttúrustofu Kópavogs skuli leiða þróunarverkefni sem miðar að því að móta og innleiða miðstöð útináms í Guðmundarlundi fyrir skóla- og frístundastarf í Kópavogi. Lögð verður áhersla á að efla fjölbreytt nám í náttúrulæsi, umhverfis og náttúruvernd, mikilvægi útivistar og lýðheilsu og sjálfbærni, í samræmi við menntastefnu Kópavogs. Þessi vinna er hafin og gengur vel. Framkvæmdastjóri félagsins á sæti í vinnuteymi þróunarverkefnisins. Þess má geta að í haust voru nemendur og kennarar frá Vatnsendaskóla í þróunarvinnu í einn og hálfan mánuð í Guðmundarlundi og höfðu aðsetur í Gamla húsinu með öllum þeim músum sem þar búa. Í vor munu birtast niðurstöður frá þessari vinnu. Það kemur fram hjá öllum kennurum sem að þessu koma að Guðmundarlundur er sá staður sem henti hvað best til útikennslu.

Við hjá skógræktarfélaginu höfum verið að reyna átta okkur á hversu margir sækja lundinn heim ár hvert. Teknar hafa verið stykkprufur á mismunandi tímum og dögum í sæmilegu veðri og þar af betra er algengt að á bílastæðinu standi á bilinu  25 – 60 bílar á virkum degi að vinnudegi loknum þó engin sérstakur viðburður sé í gangi.  Við þennan fjölda bætast bílar sem koma og fara allan daginn þó álagið sé mest milli kl 17:00 og 19:00. Meiri fjöldi er um helgar og þegar viðburðir eru t.d þegar sumarhátíð er hjá fyrirtækjum og félagasamtökum. Við teljum nokkuð öruggt að yfir 60 þúsund manns séu að koma í Guðmundarlund á ári og ef við gerum ráð fyrir að 3,5 manns séu að jafnaði í bíl þá eru um 17 þúsund bílar að aka í gegnum hesthúsahverfið hvora leið samtals 34 þúsund ferðir með tilheyrandi truflun og hættu. Bílastæðið við Guðmundarlund er barn síns tíma og þeir sem vilja sjá gera sér grein fyrir því að bílastæðið og vegurinn í gegnum hesthúsahverfið er slysagildra. Við getum örugglega öll verið sammála um að það þarf að tryggja sem best öryggi þeirra sem koma og vilja njóta útiveru og góðrar samveru á einu fjölsóttasta útivistarsvæði landsins. Tæknilega er alls ekki flókið að koma þessum öryggismálum í betra horf.  Þetta snýst um skynsemi og vilja.

Ævintýri í Jólaskógi í Guðmundarlundi var haldið fjórða árið í röð. Sá háttur er hafður á að sýningar hefjast á 10 mínútna fresti og ganga þátttakendur á milli pósta eða sýningarstaða vopnaðir vasaljósum og hitta á ferðum sínum persónur úr jólafjölskyldu okkar Íslendinga, þau Grýlu, Leppalúða, jólasveinana og tröllasystkini þeirra og dvelja hjá hverjum og einum í 10 mínútur. Dagskráin er um klukkutíma löng sýning sem endar í kakó veislu og  piparkökum. Ævintýri í Jólaskógi hófst 25. nóvember og henni lauk 30 desember. Veðrið var með ágætum flesta daga.

Þá voru haldin skemmtanir í skóginum fyrir foreldrafélög grunn- og leikskólabarna Kópavogi sem fyrr. Sú nýbreytni varð að viðburðurinn "Jólalundurinn" var í fyrsta sinn  í Guðmundarlundi en það var Kópavogsbær í samstarfi við skógræktarfélagið sem bauð gestum inn í Guðmundarlund alla sunnudaga í aðventunni þar sem meðlimir úr íslensku jólafjölskyldunni stóðu vaktina frá kl. 13 – 15 og buðu upp á jólaball, spurningakeppni og margs konar sprell eins og þeim er von og vísa. Mikil aðsókn var að þessum viðburði sem og jólaskóginum .  Það er vitað með vissu í Guðmundarlund komu yfir 17000 manns í desember til að njóta alls þess sem boðið var upp á. 

Þetta er ekki tekið út með sældinni einni. Skemmdarverk og þjófnaður hafa sett mark sitt á árið sem fyrr. Langþráðar öryggismyndavélar voru settar upp í desember víða um Guðmundarlund. Hvort þær eiga eftir draga úr skemmdaverkum á eftir að koma í ljós en vonandi erum við að fara upplifa betri tíma hvað það varðar.

Guðmundarlundur í heild sinn krefst mikils viðhalds. Þegar tugir þúsunda manna ganga um svæðið þá gefur eitthvað eftir. Hamarinn er á lofti marga daga ársins, Það er verið að sópa, þrífa salerni og losa rusl allt árið um kring svo þegar sólin hækkar á lofti bætast við fjölmörg verkefni til að mynda  málningar- og smíðavinna, sáningar, sláttur og viðhald stíga  svo fátt eitt sé nefnt. Skógræktarfélagið hefur náð halda þeim stadus að vera með þrifalegt og snyrtilegt yfirbragð. En eðlilega kosta það mikla vinnu.

Eins og fram hefur áður komið þá tóku Skógræktin og Landgræðslan höndum saman árið 2020 og óskuðu eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins.

Verkefnið er hluti af skuldbindingum Íslands vegna Bonn áskorunarinnar og átaki í endurheimt birkiskóga. Markmið verkefnisins er að efla útbreiðslu birkiskóga með því að virkja almenning í söfnun og dreifingu birkifræs, veita fræðslu til félagasamtaka, skóla, fyrirtækja og stofnana um vernd og endurheimt birkiskóga. Skógræktarfélag Kópavogs hefur stýrt þeim hluta Bonn áskorunarinnar sem nefnt er Söfnun og sáning á birkifræi.

Blómgun birkis vorið 2023 var með ágætu móti en óheppileg veðurskilyrði nánast um land allt gerði vonir manna um gott fræár að engu. Vesturbyggð var einn af fáum stöðum landsins þar sem nóg var af fræjum. Verkefnistjórn landsátaksins ákvað því að halda allri hvatningu um söfnun fræja í lágmarki vegna lélegs fræárs. Í allri umræðu um birkisöfnun 2023 var bent á  þeir sem höfðu áhuga á að safna fræi þyrftu að hafa fyrir því og leita fræja. Fókusinn var settur á Vesturbyggð vegna mikils fræmagns sem þar var og því haldið á lofti.
Landsátakið hófst formlega þetta árið miðvikudaginn 13. september í Heiðmörk hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Fyrstu skrefin voru tekin með fræðslu tveggja sérfræðinga á sviði birkis, Fjallað um birkið frá ýmsum hliðum og að því loknu var gengið út í góða veðrið og birkifræjum safnað. Eftirtekja var rýr en fræðslan stóð fyrir sínu.

Birkifrætínsla og fræðsla fór fram í Vesturbyggð 18. nóvember og var fólk á öllum aldri hvatt til að taka þátt. Veðurguðinir voru þátttakendum hliðhollir en það var fallegt veður, svalt og stilla. Skógræktarfélögin á svæðinu og þjóðkirkjan stóðu á bak við söfnunina ásamt landsátakinu. Meðal sjálfboðaliða voru fermingarbörn sem tóku vel til hendinni meðvituð um mikilvægi verkefnisins. Þau fræ sem söfnuðust voru eyrnamerkt Vesturbyggð og notuð til áframhaldandi skógræktar þar að ósk heimamanna.
Þetta haustið skilaði sér talsvert minna magn fræja í söfnunarkassana en árin á undan.  Það sem í kassana kom skilaði sér um mánaðarmótin september og október og nánast ekkert eftir það. Þó árið hafi verið á heildina litið frekar rýrt þá náðist að vekja athygli  á Landsátakinu mjög víða. Vonandi verður gott fræár næsta haust og þar sem grunnskipulag verkefnisins er með festu og þá verður auðvelt að bregðast við og efna til söfnunardaga þar sem magn fræja verður að finna.

Verkefnastjóri leitaði uppi viðburði þar sem möguleiki var á að vekja athygli á Landsátakinu.

DesignTalks er alþjóðleg ráðstefna sem haldin var í Silfurbergi í Hörpu 3. maí í tengslum við HönnunarMars. DesignTalks er stór ráðstefna og vel þekkt alþjóðlega sem mikilvægur vettvangur innblásturs og samtals um helstu þróun og breytingar sem drifnar eru áfram með aðferðum hönnunar og arkitektúrs.

Landsátakið í söfnum og sáningu lagði til umslög með birkifræi og upplýsingum um verkefnið sem var lögð í hvert sæti í Silfurbergi áður en ráðstefnan hófst. Í upphafi ráðstefnunnar var sagt frá Landsátakinu og þátttakendur hvattir til þess að nýta sér fræin og leggja málinu lið. Þá lögðum við til fjölda birkitrjáa sem skreyttu sviðið á ráðstefnunni.

Leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn í Hörpu dagana 16. til 17. maí og lagði landsátakið þar einnig til birki og kynningarefni.

Fimmtudaginn 11. maí var sýningin  „Birkiverk“ haldin í sal Skógræktarfélags Kópavogs, Leiðarenda 3 í Guðmundarlundi í Kópavogi. Nemendur í vöruhönnun buðu gesti velkomna á sýninguna en þar var hægt að sjá mismunandi verkefni nemenda sem eiga það sameiginlegt að tengjast birki á einn eða annan hátt. Vinna við verkefnin hófst í febrúar og þar voru nemendur að vinna með og rannsaka íslenska birkið og  gerðu fjölbreyttar tilraunir út frá ólíkum sjónarhornum.

Landsátakið söfnum og sáum aðstoðaði nemendur á margan hátt og á sýningunni afhentu nemendur gestum umslag með yfir 1000 fræjum í ásamt fræðsluefni sem nemendur notuðu til kynningar um markmið og tilgang Landsátaksins.   

Áfanginn er hluti af þverfaglega rannsóknarverkefninu Birkivist.

Mannauðsdagurinn 2023 var haldinn föstudaginn 4. október í Eldborgarsal Hörpu. En hann var fyrst haldinn árið 2011 og hefur vaxið hratt og dafnað með hverju ári og er nú einn stærsti viðburður stjórnunar og mannauðsmála hér á landi.

Starfsmennt fræðslusetur voru með kynningarbás og fengu umslög með birkifræjum í ásamt fræðsluefni um tínslu og sáningu birkis sem þau dreifðu til þeirra sem á básinn komu.   

 

Í lok september fór fram vísindavaka Rannís í Laugardagshöllinni og var rannsóknasvið Skógræktarinnar með kynningarbás fyrir gesti vökunnar. Stöðug aðsókn var í básinn en gestum var boðið að skoða í víðsjá árhringi trjáa og geitungabú, Miðlað var fræðslu um skógarmælingar,  reiknuð  kolefnisbinding skóga og margt fleira. Í glerkrukku voru birkifræ og gátu gestir tekið þátt í getraun þar sem spurningin var hversu mörg birkifræ væru í krukkunni og hversu stór skógur gæti vaxið upp af þessum fræjum ef þau yrðu öll að trjám. Í lokin bauðst gestum á kynningarbás Skógræktarinnar að taka með sér matskeið af birkifræi í umslagi landsátaksins ásamt leiðbeiningum um söfnun og sáningu birkifræja og voru allir hvattir til að sá fræjunum í illa gróið land.  

Á síðasta ári hófst samstarf á milli Landsátaksins söfnun og sáum og Þjóðkirkjunnar. Kirkjan hefur reglulega fengið birkifræ frá landsátakinu því öll börn sem skírast fá að gjöf um 1.000 fræ í umslagi og eru aðstandendur barnanna hvattir til að koma fræjunum í jörðu. Hefur þetta mælst vel fyrir og er vilji til áframhaldandi samstarfs. Það er því ánægjulegt og skemmtilegt að fermingarbörn í Vesturbyggð tóku þátt í verkefninu og söfnuðu fræjum sem skila sér til skírnarbarna.

Þau ár sem verkefnið hefur staðið yfir hafa skilað dýrmætum árangri og reynslu. Tekist hefur að mynda og viðhalda öflugu samstarfsneti fyrirtækja, frjálsra félagasamtaka og opinberra aðila um verkefnið. Fræðslustarf hefur verið öflugt og vakið mikla athygli innanlands og að nokkru leyti einnig utan landsteinanna. Þetta tvennt myndar sterkan grundvöll fyrir áframhaldandi starfsemi verkefnisins. Hins vegar hefur náttúran verið duttlungafull að vanda. Aðeins eitt gott fræár hefur komið þar sem finna mátti fræ nær alls staðar á landinu og víða í mjög miklum mæli. Þess utan hefur fræframboð verið takmarkað við ákveðin svæði. Brugðist hefur verið við þessu með því að beina átakinu inn á þau svæði. Því er mikilvægt að safnað sé upplýsingum um fræsetningu á mismunandi svæðum og heimaaðilar virkjaðir til að safna fræi og nýta það í heimabyggð.

Eins og kunnugt er þá sameinuðust Skógræktin og Landgræðslan um síðustu áramót undir nafninu Land og skógar

Skógræktarfélag Kópavogs veit ekki enn hvort vilji sé fyrir að félagið leiði þetta verkefni áfram en það þarf að skýrist fljótlega.

Fossá í Hvalfirði er skógræktarjörð sem Skógræktarfélag Kópavogs á til helminga á móti Skógræktarfélögum í Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjósarhreppi

Ár hvert er félagsmönnum skógræktarfélaganna sem og öðrum boðið að mæta um tvær helgar og höggva eigið jólatré gegn sanngjörnu gjaldi. Skógræktarfélag Kópavogs hefur mannað aðra helgina á móti hinum félögunum. Þá hafa félagsmenn Skógræktarfélag Kópavogs fellt hærri tré og eru þau meðal annars seld til Kópavogsbæjar sem torgtré. Síðastliðinn tvö ár hefur Skógræktarfélag ekki fellt torgtré á Fossá því öll tré voru tekin í Lækjarbotnalandi og í Guðmundarlundi.

Áskoranir og spennandi tímar eru framundan. Skógræktin er kraftmikið hreyfiafl til góðra verka með leiðandi fjölbreytta starfsemi.

Stjórn félagsins þakkar öllum þeim sem lagt hafa starfssemi skógræktarfélags Kópavogs lið á einn eða annan hátt og lagt þannig sitt á vogarskálarnar til að efla og styrkja félagið til framtíðar. Einnig þökkum við öllum sem lagt hafa leið sína í Guðmundarlund fyrir komuna og vonum að þau hafi notið dvalarinnar.

Ársskýrslan er tekin saman í mars 2024 af framkvæmdarstjóra Skógræktarfélags Kópavogs Kristni H. Þorsteinssyni og formanni félagsins Þresti Magnússyni.