SÖFNUN BIRKIFRÆS Í Mosfellbæ 30. september 2025

Land og skógur óskar eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins í anda Bonn-áskorunarinnar.

Sem kunnugt er stendur yfir áratugur Sameinuðu þjóðanna um verndun og endurheimt vistkerfa um allan heim í þágu fólks og náttúru. Íslensk stjórnvöld hafa tekið svonefndri Bonn-áskorun sem er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga undir hatti alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN í samstarfi við fleiri aðila. Markmið Íslands í þessari áskorun er að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins, í stað 1,5% nú.

Verkefnið, Söfnum og sáum birkifræi, er liður í því að Ísland nái þessu markmiði. Tilgangurinn er að efla útbreiðslu birkiskóga, meðal annars með því að virkja almenning til söfnunar og dreifingar birkifræs en einnig að veita fræðslu til félagasamtaka, skóla, fyrirtækja og stofnana um vernd og endurheimt birkiskóga.

Átakinu í ár verður hleypt formlega af stokkum í Mosfellsbæ þriðjudaginn 30. september kl 17:30 og verða það Lionsklúbburinn Úa, Lkl. Mosfellsbæjar og Lkl. Grindavíkur sem hefja söfnunina. Hittingur verður á bílaplani fyrirtækisins Villimeyjar Leiruvegi 2, 162 Reykjavík  Þaðan verður gengið spölkorn og fræi safnað í nálægum birkireit.  

Sérfræðingur frá Skógræktarfélagi Íslands kynnir verkefnið og fræðir um tínslu og sáningu birkifræs.

 

Áhrif gróðurs á líðan fólks - afmælismálþing Garðyrkjufélags Íslands 2. október

Afmælismálþingið er haldið í Fróða, sal Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8 í Reykjavík og hefst kl. 13:00

Á málþinginu verður fjallað um gróður og nærsamfélag og áhrif gróðurs á líðan fólks. Það er vel við hæfi því GÍ var upphaflega stofnað til að kenna fólki að rækta matjurtir í þeim tilgangi að bæta mataræði og heilsu landsmanna. Fljótlega breikkaði viðfangsefni félagsins og annar gróður kom sterkur inn; blómstrandi plöntur og trjágróður og má með sanni segja segja að ræktun gróðurs hafi breytt nærumhverfi okkar til hins betra.

Formlegir samstarfs aðilar málþingsins eru Land og skógur og Skógræktarfélag Reykjavíkur og koma erindi frá þeim báðum; Garðyrkjuskólinn á Reykjum en fundarstjórinn kemur þaðan og að auki verða erindi frá Embætti landlæknis og Kópavogsbæ. Rúsínan í pylsuendanum er svo erindi frá Dr. Cecil Konijnendijk en hann er einn ritstjóra skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar og höfundur hugmyndafræðinnar um 3-30-300 sem gengur út á hvernig hægt er að gera umhverfi okkar grænna og vænna. Erindi hans verður flutt á ensku.
Boðið verður upp á kaffi og bakkelsi í fundarhléi. Látið ekki þennan viðburð framhjá ykkur fara!

13:00 – 13:10  Inngangur og afmælisþankar – Guðríður Helgadóttir, formaður GÍ

13:10 – 13:40  Lýðheilsa og gróður – Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsu hjá Landlæknisembættinu

13:40 – 14:20  Trjágróður í þéttbýli – Aaron Shearer, sérfræðingur hjá Landi og skógi

14:20 – 14:50  Merk tré – Auður Elva Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur

14:50 – 15:20  Kaffihlé

15:20 –  15:50  Sveitarfélag með grænum augum –  Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs

15:50 – 16:30  Making our communities greener and healthier with the 3+30+300 principle – Hvernig gerum við samfélagið okkar grænna og heilsusamlegra með 3-30-300 leiðinni – Dr. Cecil Konijnendijk, sérfræðingur í borgarskógrækt og grænum svæðum

16:30 – 17:00  Umræður

Fundarstjóri: Björgvin Örn Eggertsson, Garðyrkjuskólanum á Reykjum

Málþingið fer fram á íslensku og ensku og er öllum opið meðan húsrúm leyfir.

Tré ársins 2025 útnefnt

Tré ársins 2025 verður formlega útnefnt við hátíðlega athöfn laugardaginn 20. september á Selfossi. Að þessu sinni er um að ræða trjátegund sem hefur tekið sér bólfestu í miðri Ölfusá í svokölluðum Jórukletti sem blasir við íbúum Selfoss. Ekki er vitað hvernig tréð hefur tekið sér bólfestu á þessum merkilega stað en aldur trésins verður kannaður þegar það verður mælt.

Athöfnin fer fram á norðurbakka Ölfusár við gamla braggann neðan við Ártún og hefst kl.14:00. Jóruklettur er í eigu Árborgar og mun fulltrúi bæjarfélagsins taka á móti viðurkenningarskjali.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands: https://www.skog.is/tre-arsins-2025-utnefnt/

Sveppaganga í Guðmundarlundi 20. september

Laugardaginn 20. september stendur Náttúrufræðistofa Kópavogs fyrir Sveppagöngu frá kl. 11-13 í samstarfi við Sveppafélagið og Skógræktarfélag Kópavogs.
Við hittumst við Gamla húsið (húsið næst bílastæðinu) kl. 11 þaðan sem Jóhannes Bjarki Urbancic vistfræðingur og forsvarsmaður Sveppafélagsins leiðir fræðsluna. Takið með körfu eða annað hart ílát undri sveppina og lítinn hníf eða vasahníf til að hreinsa þá. Gaman er fyrir þau sem eiga að hafa sveppabók og stækkunargler meðferðis.
Komið klædd eftir veðri klæða og viðbúin göngu á ójöfnu undirlagi.
Sveppafélagið var stofnað í febrúar 2025 í þeim tilgangi að vera umboðmaður og bakhjarl sveppa. Það felur í sér að vekja athygli á málefnum sveppa, styðja við sjálfbæra nýtingu þeirra, auka við þekkingu á sveppum og tala fyrir verndun þeirra þar sem við á.
Fjölskyldustundir á laugardögum eru styrktar af Menningar og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar."

Umsagnarbeiðni í Skipulagsgátt Kópavogsbæjar

Þann 11. júlí óskaði Kópavogsbær eftir umsögn Skógræktarfélags Kópavogs um eftirfarandi mál í Skipulagsgátt:

Vatnsendahlíð, Vatnsvík og Kjóavellir. Nýtt deiliskipulag og breyting á deiliskipulagsáætlunum., nr. 0963/2025: Lýsing (Nýtt deiliskipulag)
Kynningartími var frá 11.7.2025 til 1.9.2025.

Á eftirfarandi slóð má skoða breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 og breytingu á deiliskipulagi/nýtt deiliskipulag:
https://skipulagsgatt.is/files/098c7abb-931a-424c-87b2-f9bf25f23bf2
og um samráðsáætlun Kópavogsbæjar:
https://skipulagsgatt.is/files/ad49cf3b-6200-4d39-b3ca-3a7559dfab4b

Þann 28. ágúst 2025 sendi stjórn félagsins frá sér eftirfarandi umsögn inn í Skipulagsgátt:

===========================================

                                                                                         28.8.2025

Kópavogsbær

Efni:
Breyting á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040. Vatnsendahlíð, Vatnsvík og Kjóavelli.

Í pósti dagsettum 11. júlí 2025 óskar Kópavogsbær eftir umsögn Skógræktarfélags Kópavogs við breytingar á Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040.Vatnsendahlíð, Vatnsvík og Kjóavellir, nr. 0960/2025.
Það kom stjórn og starfsmönnum Skógræktarfélags Kópavogs verulega á óvart að Skógræktarfélaginu hafi ekki verið boðið að vera samráðsaðili í því ferli sem hafið er.
Í kynningu á skipulagsdrögum eru eftirfarandi aðilar nefndir til að tryggja samráð:

·         Hestamenn á svæðinu

·         Eldri borgarar í Boðaþingi

·         Íþróttafélög; Breiðablik, HK, Gerpla

·         Nemendur í Hörðuvalla- og Vatnsendaskóla

·         Stjórn félags eldri borgara í Kópavogi

·         Hópur eldri borgara sem sækja félagsmiðstöðina Boðaþing

·         Íbúar í Gula- og Boðaþingi

Það er mikill munur á að fá tækifæri til að sitja við borðið sem samráðsaðili eða vera umsagnaraðili eins og Skógræktarfélagi Kópavogs stendur til boða. Skógræktarfélagið telur að reynsla og þekking starfsmanna og stjórnar geti nýst við þróun skipulagsdraganna.
Skógræktarfélag Kópavogs hefur verið umsjónaraðili Guðmundarlundar frá árinu 1997 og hefur rekið þar útivistarsvæði opið almenningi. Hin síðari ár hefur lundurinn verið rekinn í góðu og farsælu samstarfi og með stuðningi frá Kópavogsbæ. Skógræktarfélag Kópavogs hefur sinnt samfélagslegu hlutverki í áratugi með því að taka á móti skólafólki, einstaklingum frá Velferðarsviði, fólk með hreyfihömlun og einstaklingum sem koma frá öðrum löndum og eru að koma sér fyrir á Íslandi. Félagið hefur tekið að sér að afla verkefna, annast kennslu og þróa færni sumarstarfsmanna í fjölbreyttum verkefnum á sviði umhverfismála.
Um 60 – 70 þúsund manns af öllu höfuðborgarsvæðinu, almenningur, skólafólk, íþróttafélög og ýmis stuðnungs félög og fyrirtæki leggja leið sína í Guðmundarlund ár hvert. Skógræktarfélagið annast daglegan rekstur og umhirðu 365 daga ársins og er rekstur svæðisins í þeim farvegi að svo sómi sé að. Kópavogsbær nýtur sannarlega góðs af jákvæðu umtali um Guðmundarlund í samfélaginu.

Í samningi milli Kópavogsbæjar og Skógræktarfélagsins frá árinu 2022 kveður meðal annars svo á að Menntasvið Kópavogsbæjar í samstarfi við Skógræktarfélag Kópavogs og Náttúrustofu Kópavogs skuli leiða þróunarverkefni sem miðar að því að móta og innleiða miðstöð útináms í Guðmundarlundi fyrir skóla- og frístundastarf í Kópavogi.

Fé fékkst úr Sprotasjóði Rannís fyrir verkefni tengt útinámi og þróun miðstöðvar útináms. Í verkefninu er lögð áhersla á umhverfis- og sjálfbærnimenntun í leik- og grunnskólum og frístundum, að efla fjölbreytt nám í náttúrulæsi, umhverfis og náttúruvernd, mikilvægi útivistar, lýðheilsu og sjálfbærni í samræmi við menntastefnu Kópavogs. Verkefnið er í aðgerðaráætlun menntasviðs Kópavogsbæjar. Útinám skólabarna frá skólum Kópavogs fer fram vor og haust bæði innan Guðmundarlundar og á Vatnsendaheiði.
Að klippa í sundur tengingu útivistarsvæðanna í Guðmundarlundi og Vatnsendaheiði myndi rýra verulega gæði svæðisins sem heilstæðu kerfi útivistarsvæðis og fræðslumála.

Það eru ekki margir staðir á landinu öllu sem njóta jafn mikillar aðsóknar og Guðmundarlundur og er það ekki að ástæðulausu. Með ört stækkandi byggð er mjög mikilvægt að standa vörð um útivistarsvæði og gefa  bæjarbúum og gestum sveitafélagsins andrými til að upplifa náttúru, menningu og holla hreyfingu í fögru umhverfi.
Það eru fjölmörg tækifæri á að horfa til þess að Guðmundarlundur geti áfram þjónað sem mikilvægt hlið inn á víðlendur Vatnsendaheiðar þar sem Kópavogsbúar og aðrir gestir njóta þess að ganga um, skokka, hjóla eða fara um ríðandi.
Mikill fjöldi ökutækja tengist óneytanlega útivistasvæðinu í Guðmundarlundi og á Vatnsendaheiði. Leiðin frá Vatnsendavegi um Þingmannaleið og að Guðmundarlundi fer ekki í gegnum íbúðarhverfi eins og sjá má á uppdráttum.  Ekki er að sjá að gert sé ráð fyrir bílastæðum við Guðmundarlund samkvæmt Mynd 5 í gögnum um breytingum á aðalskipulagi Kópavogs 2019 – 2040.  Ekki er óalgengt að milli 60 og 70 bifreiðar séu á bílaplani Guðmundarlundar. Þess má geta að langferðabifreiðar með leik – og grunnskólabörnum koma daglega virka daga einkum vor og haust og þá eru oft margar rútur á bílastæðinu í einu. Aðgengi þarf að vera skýrt og öryggi gesta og gangandi í hávegum haft.
Á Mynd 5 í gögnum er ekki að sjá að landamerki Guðmundarlundar sé í samræmi við þá samninga sem eru á milli Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Kópavogs. Gerum við athugasemdir um þá villu sem þar er að finna.

Guðmundarlundur og Vatnsendaheiði er paradís í Kópavogi sem mikilsvert er að horfa á sem eina órjúfanlega heild.

 
Með kveðju fyrir hönd stjórnar.
Jón Ingvar Jónasson formaður
Kristinn H. Þorsteinsson framkvæmdarstjóri

 

Fræðsluganga í Guðmundarlundi 8. júlí

Fræðsluganga í Guðmundarlundi

Garðyrkjufélag Íslands er 140 ára á þessu ári og í tilefni af afmæli félagsins hefur verið boðið upp á heilsubótar- og fræðslugöngur víðsvegar um land í sumar.

Kópavogsbær fagnar 70 ára afmæli og hafa verið haldnir fjölmargir viðburðir í bænum í því tilefni.

Þriðjudaginn 8. júlí verður fræðsluganga í Guðmundarlundi í Kópavogi og hefst gangan við aðalinnganginn kl. 17:00. Gestgjafar verða Kópavogsbær og Skógræktarfélag Kópavogs og ætla þeir félagar Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogs og Kristinn H. Þorsteinsson framkvæmdastjóri skógræktarfélagsins taka á móti gestum og  ganga um lundinn með leiðsögn.

===================================

Til að rata í Guðmundarlund er t.d. hægt að fara inn á ja.is og slá inn Leiðarendi 3 og skoða kort og eða fylgja leiðavísi.

Það eru tvær leiðir frá Vatnsendavegi. Sú sem er auðveldari er frá Vatnsendavegi og inn Markaveg. Síðan er sveigt til hægri upp Landsenda, fram hjá hesthúsum og til vinstri upp Leiðarenda.

 

 

Eldri borgarar í Kópavogi skemmtu sér konunglega í Guðmundarlundi 18. júní sl.  

Í 15 ár hefur Félag eldri borgara Í Kópavogi komið saman í Guðmundarlundi ár hvert og notið ánægju – og gleðistunda.

Gestgjafar í Guðmundalundi voru sem fyrr Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær sem tóku á móti gestunum milli klukkan 14:00 og 16:00.  

Glens og gaman hefur ætíð fylgt þessum góða hóp eldri borgara og var boðið upp á léttar veitingar, tónlist og stuttar ræður.

Aldrei hafa fleiri sótt þessa samkomu  í Guðmundarlundi en rúmlega 230 manns skráðu sig í ferðina.

Mikill fjöldi félagsmanna þáðu rútuferð og var farið frá Gjábakka, Gullsmára og Boðanum Einnig mættu margir á einkabílum.

Frétt um skemmtiferð eldri borgara í Guðmundarlund er að finna á eftirfarandi hlekk. https://febk.is/skemmtiferd-i-gudmundarlund/


Boðað til framhaldsaðalfundar Skógræktarfélags Kópavogs 2025

Framhaldsaðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs  verður haldinn 30. júní kl 17:00  á Leiðarenda 3 í Kópavogi.

Ekki tókst að tæma dagskrá aðalfundar Skógræktarfélags Kópavogs sem haldinn var 11. mars sl. Því verður haldinn framhaldsaðalfundur þar sem endurskoðaður ársreikningur verður lagður fram.Dagskrá framhaldsaðalfundar :
1. Fundarsetning
2. Reikningar félagsins
3. Önnur mál

Eldri borgurum í Kópavogi er boðið í skemmtiferð í Guðmundarlund 18. júní 2025

Eldri borgurum í Kópavogi er boðið í skemmtiferð í Guðmundarlund 18. júní  2025 í boði Félags eldri borgara í Kópavogi, Skógræktarfélags Kópvogs og bæjarstjórnar Kópavogs.

Hátíðin hefst kl. 14:00 og lýkur kl. 16:00.

Nánari upplýsingar og skráning er á heimasíðu Félags eldri borgara í Kópavogi : https://febk.is/skraning-i-skemmtiferd/

SUMARKVEÐJA

Sumardagurinn fyrsti markar kærkomin tímamót. Veturinn er að baki og við tekur sumar með björtum nóttum og gróanda. Fyrstu krókusarnir eru farnir að stinga upp kollinum, vorfuglar syngja, brum þrútnar út á trjánum og jörð má heita klakalaus víðast hvar á láglendi.
Stjórn og starfsmenn Skógræktarfélags Kópavogs þakkar þeim fjölmörgu sem með virðingu hafa notið notalegra útivistasvæða félagsins og sýnt félaginu velvild og stuðning óskum við ykkur öllum gleðilegs og sólríks sumars.

Fræðsluerindi 13. mars 2025

Fimmtudaginn 13. mars 2025 verður flutt fræðsluerindi sem nefnist –  SKÓGAR BRETAGNE. HÁPUNKTAR ÚR FRÆÐSLUFERÐ SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS HAUSTIÐ 2024

Erindið hefst kl 19:30 í sal Arion Banka, Borgartúni 19

Elisabeth Bernard og Ragnhildur Freysteinsdóttir segja í máli og myndum frá ferðalagi til Bretagne-skagans í Frakklandi síðasta haust, þar sem skoðuð voru tré í skógum og görðum og fræðst um skógrækt svæðisins.

Elisabeth og Ragnhildur eru báðar starfsmenn Skógræktarfélags Íslands. Elisabeth er mannfræðingur að mennt og var fararstjóri ferðarinnar en farið var að hluta til um hennar heimaslóðir og nýttist þekking hennar vel í ferðinni. Ragnhildur er umhverfisfræðingur og var hún óformlegur ritari ferðarinnar, en ferðasagan sem hún tók saman verður birt í 1. tbl. Skógræktarritsins 2025.

Öll velkomin! Hressing í boði í hléi.

FRÆÐSLUERINDI: „Faðir minn átti fagurt land“ 5. MARS

Miðvikudaginn 5. mars kl 19.30  í salarkynnum Arion banka að Borgartúni 19  ætlar Gísli Gestsson, kvikmyndagerðarmaður og heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands, að sýna myndina „Faðir minn átti fagurt land“ frá 1968, sem hann gerði í samvinnu við Hákon Bjarnason skógræktarstjóra.

Einnig mun hann sýna úrval mynda sem hann, ásamt Valdimar Jóhannessyni, gerðu fyrir Átak um Landgræðsluskóga árið 1990, m.a. „Silfur hafsins – gullið í dalnum“ þar sem Jóhann Þorvaldsson, kennari og síðar skólastjóri á Siglufirði, hélt inn í dal að gróðursetja tré með börnunum, hvað sem síldinni leið.

Öll velkomin! Hressing í boði í hléi.

FRÆÐSLUERINDI UM BIRKI 25. FEBRÚAR

Á morgun 25. febrúar flytur Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur fyrirlestur sem hann nefnir – Framandi og ágengt birki í íslenskri náttúru – pælingar, kynbætur og árangur

Erindið hefst kl.19:30 hjá Arion Banka, Borgartúni 17.

Einnig verður hægt að fylgja á netinu: https://www.facebook.com/events/1410796816575615?acontext=%7B%22event_action_history%22%3A[]%7D

Þorsteinn hefur í áratugi unnið að plöntukynbótum í þágu landbúnaðar, skógræktar og garðyrkju. Hann hefur eftir farsæla starfsævi unnið í sjálfboðavinnu að kynbótum á íslensku ilmbjörkinni undir yrkisheitunum Embla og Kofoed en hefur auk þess víxlað við aðrar birkitegundir frá norðurslóðum og þróað vaxtarmikil yrki, m.a. undir heitunum Hekla og Dumba.

Þorsteinn er heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands, orðuhafi hinnar íslensku fálkaorðu og fyrrum forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

Öll velkomin! Hressing í boði í hléi.

Jólalundur í Guðmundarlundi

Verið hjartanlega velkomin í Jólalundinn í Guðmundarlundi þar sem fram fer dásamleg fjölskyldudagskrá, alla sunnudaga fram að jólum á milli 13 og 15.

Ekki missa af jólaballinu hennar Rófu, tengingarkappi Hurðaskellis, risastóra jóladagatalinu, sveimandi ævintýraverum, blaðskellandi jólasveinum, rjúkandi heitu kakói, splunkunýjum ratleikjum, jólaföndri í dásamlegri náttúru eða því að kíkja í fataskápinn í Grýluhelli.

Dagskráin er endurtekin yfir daginn svo að öll ættu að komast að, og koma sér í jólastemninguna með ævintýraverurm og jólasveinum. Ratleikur, jóladagatal, leikir og föndur verður í boði á meðan opnun stendur og hægt verður að kaupa heitt kakó og piparkökur.

Nánari tímasetningar:

Jólaball Rófu
13:10
13:40
14:10
14:35

Örtónleikar barnakóra í Kópavogi
13:00 við inngang
13:20 við kaffihúsið
13:40 við leiktækin
14:10 við kaffihúsið
14:30 við inngang

Við hlökkum til þess að sjá ykkur og njóta fjölskylduvænnar samveru í fallegu náttúrunni okkar hér í Kópavogi.
Viðburðurinn er styrktur af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar og Kópavogsbæ.

HÖGGVIÐ YKKAR EIGIÐ JÓLATRÉ - FJÖLSKYLDUSTUND Í SKÓGINUM

Jólatrjáasala verður á Fossá í Hvalfirði tvær helgar í desember 2024 þ.e. 7. og 8. desember og 14. og 15. desember 2024   milli kl 11:00 og 15:00

Einstaklingum sem og starfsmannafélögum eða öðrum hópum gefst nú, eins og undanfarin ár, frábært tækifæri til að koma að Fossá í Kjós og ná sér í jólatré.

Jólatrén eru seld eftir hæð þeirra. Tré allt að 1,5 m. á hæð kostar 6700,-. Hæðaflokkur 1,5 – 2 m. er á 8900,- og 2 – 2,5 m. á 13700,-

Þegar komið er að Fossá er hægt að fá lánaða sög og leiðbeiningar starfsfólks um hvar megi sækja tré og hvernig skuli bera sig að. (Þeir sem eiga góða sög eru hvattir til að taka hana með sér). Þegar tréð hefur verið valið og fellt stendur til boða aðstoð við að pakka trénu inn í net sé þess óskað. Hægt er að greiða fyrir tréð/ trén hvort sem er með peningum, korti eða leggja beint inn á reikning.

Öll vinna við sölu trjánna er unnin í sjálfboðavinnu og er afrakstur sölunnar notaður til að gróðursetja fleiri tré á Fossá og styrkja svæðið enn frekar sem útivistarsvæði.

Skógurinn að Fossá er opinn skógur og öllum velkomið að njóta hans árið um kring.

Hvernig kemst ég að Fossá?

Jörðin Fossá er frekar innarlega í Hvalfirði. Beygt er af Vesturlandsveginum inn í Hvalfjörð að sunnanverður, skammt frá Hvalfjarðargöngunum. Leiðin liggur inn Hvalfjörðinn og er farið yfir Laxá, framhjá Hálsi í Kjós , Hvammsvík, og Hvítanesi þar sem gamla Breta Bryggjan hangir enn uppi. Næsta jörð við Hvítanes er Fossá og er svæðið vel merkt þegar komið er að.

Allir eru velkomnir í ævintýraland jólatrjáa að Fossá. Nánari upplýsingar er hægt að fá í gegnum síma 839-6700 eða í gegnum netfangið skogkop@gmail.com

Eigendur jarðarinnar eru skógræktarfélögin í Kópavogi, Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjósarsýslu.

Birkifræsöfnun þjóðarinnar fram undan

LANDSÁTAKIÐ „ Söfnum og sáum birkifræi „ hefst formlega á degi íslenskrar náttúru 16. september í Eyjafirði þetta haustið

Tilgangurinn með verkefninu er að efla útbreiðslu birkiskóga, meðal annars með því að virkja almenning til söfnunar og dreifingar birkifræs en einnig að veita fræðslu til félagasamtaka, skóla, fyrirtækja og stofnana um vernd og endurheimt birkiskóga.

Það sé töluvert fræ á trjám víðast hvar á landinu. Á höfuðborgarsvæðinu er fræ að ná þroska og því tími til kominn að huga að fræjum. Ekkert er því þó til fyrirstöðu að safna fræi fram eftir vetri en flest ár hangir fræ á trjám fram undir jól.

Nánari upplýsingar um viðburðinn í Eyjafirði er að finna á eftirfarandi slóð:  https://island.is/s/land-og-skogur/frett/birkifraesoefnun-thjodarinnar-fram-undan