Fræðsluerindi 13. mars 2025

Fimmtudaginn 13. mars 2025 verður flutt fræðsluerindi sem nefnist –  SKÓGAR BRETAGNE. HÁPUNKTAR ÚR FRÆÐSLUFERÐ SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS HAUSTIÐ 2024

Erindið hefst kl 19:30 í sal Arion Banka, Borgartúni 19

Elisabeth Bernard og Ragnhildur Freysteinsdóttir segja í máli og myndum frá ferðalagi til Bretagne-skagans í Frakklandi síðasta haust, þar sem skoðuð voru tré í skógum og görðum og fræðst um skógrækt svæðisins.

Elisabeth og Ragnhildur eru báðar starfsmenn Skógræktarfélags Íslands. Elisabeth er mannfræðingur að mennt og var fararstjóri ferðarinnar en farið var að hluta til um hennar heimaslóðir og nýttist þekking hennar vel í ferðinni. Ragnhildur er umhverfisfræðingur og var hún óformlegur ritari ferðarinnar, en ferðasagan sem hún tók saman verður birt í 1. tbl. Skógræktarritsins 2025.

Öll velkomin! Hressing í boði í hléi.

FRÆÐSLUERINDI: „Faðir minn átti fagurt land“ 5. MARS

Miðvikudaginn 5. mars kl 19.30  í salarkynnum Arion banka að Borgartúni 19  ætlar Gísli Gestsson, kvikmyndagerðarmaður og heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands, að sýna myndina „Faðir minn átti fagurt land“ frá 1968, sem hann gerði í samvinnu við Hákon Bjarnason skógræktarstjóra.

Einnig mun hann sýna úrval mynda sem hann, ásamt Valdimar Jóhannessyni, gerðu fyrir Átak um Landgræðsluskóga árið 1990, m.a. „Silfur hafsins – gullið í dalnum“ þar sem Jóhann Þorvaldsson, kennari og síðar skólastjóri á Siglufirði, hélt inn í dal að gróðursetja tré með börnunum, hvað sem síldinni leið.

Öll velkomin! Hressing í boði í hléi.

FRÆÐSLUERINDI UM BIRKI 25. FEBRÚAR

Á morgun 25. febrúar flytur Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur fyrirlestur sem hann nefnir – Framandi og ágengt birki í íslenskri náttúru – pælingar, kynbætur og árangur

Erindið hefst kl.19:30 hjá Arion Banka, Borgartúni 17.

Einnig verður hægt að fylgja á netinu: https://www.facebook.com/events/1410796816575615?acontext=%7B%22event_action_history%22%3A[]%7D

Þorsteinn hefur í áratugi unnið að plöntukynbótum í þágu landbúnaðar, skógræktar og garðyrkju. Hann hefur eftir farsæla starfsævi unnið í sjálfboðavinnu að kynbótum á íslensku ilmbjörkinni undir yrkisheitunum Embla og Kofoed en hefur auk þess víxlað við aðrar birkitegundir frá norðurslóðum og þróað vaxtarmikil yrki, m.a. undir heitunum Hekla og Dumba.

Þorsteinn er heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands, orðuhafi hinnar íslensku fálkaorðu og fyrrum forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

Öll velkomin! Hressing í boði í hléi.

Jólalundur í Guðmundarlundi

Verið hjartanlega velkomin í Jólalundinn í Guðmundarlundi þar sem fram fer dásamleg fjölskyldudagskrá, alla sunnudaga fram að jólum á milli 13 og 15.

Ekki missa af jólaballinu hennar Rófu, tengingarkappi Hurðaskellis, risastóra jóladagatalinu, sveimandi ævintýraverum, blaðskellandi jólasveinum, rjúkandi heitu kakói, splunkunýjum ratleikjum, jólaföndri í dásamlegri náttúru eða því að kíkja í fataskápinn í Grýluhelli.

Dagskráin er endurtekin yfir daginn svo að öll ættu að komast að, og koma sér í jólastemninguna með ævintýraverurm og jólasveinum. Ratleikur, jóladagatal, leikir og föndur verður í boði á meðan opnun stendur og hægt verður að kaupa heitt kakó og piparkökur.

Nánari tímasetningar:

Jólaball Rófu
13:10
13:40
14:10
14:35

Örtónleikar barnakóra í Kópavogi
13:00 við inngang
13:20 við kaffihúsið
13:40 við leiktækin
14:10 við kaffihúsið
14:30 við inngang

Við hlökkum til þess að sjá ykkur og njóta fjölskylduvænnar samveru í fallegu náttúrunni okkar hér í Kópavogi.
Viðburðurinn er styrktur af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar og Kópavogsbæ.

HÖGGVIÐ YKKAR EIGIÐ JÓLATRÉ - FJÖLSKYLDUSTUND Í SKÓGINUM

Jólatrjáasala verður á Fossá í Hvalfirði tvær helgar í desember 2024 þ.e. 7. og 8. desember og 14. og 15. desember 2024   milli kl 11:00 og 15:00

Einstaklingum sem og starfsmannafélögum eða öðrum hópum gefst nú, eins og undanfarin ár, frábært tækifæri til að koma að Fossá í Kjós og ná sér í jólatré.

Jólatrén eru seld eftir hæð þeirra. Tré allt að 1,5 m. á hæð kostar 6700,-. Hæðaflokkur 1,5 – 2 m. er á 8900,- og 2 – 2,5 m. á 13700,-

Þegar komið er að Fossá er hægt að fá lánaða sög og leiðbeiningar starfsfólks um hvar megi sækja tré og hvernig skuli bera sig að. (Þeir sem eiga góða sög eru hvattir til að taka hana með sér). Þegar tréð hefur verið valið og fellt stendur til boða aðstoð við að pakka trénu inn í net sé þess óskað. Hægt er að greiða fyrir tréð/ trén hvort sem er með peningum, korti eða leggja beint inn á reikning.

Öll vinna við sölu trjánna er unnin í sjálfboðavinnu og er afrakstur sölunnar notaður til að gróðursetja fleiri tré á Fossá og styrkja svæðið enn frekar sem útivistarsvæði.

Skógurinn að Fossá er opinn skógur og öllum velkomið að njóta hans árið um kring.

Hvernig kemst ég að Fossá?

Jörðin Fossá er frekar innarlega í Hvalfirði. Beygt er af Vesturlandsveginum inn í Hvalfjörð að sunnanverður, skammt frá Hvalfjarðargöngunum. Leiðin liggur inn Hvalfjörðinn og er farið yfir Laxá, framhjá Hálsi í Kjós , Hvammsvík, og Hvítanesi þar sem gamla Breta Bryggjan hangir enn uppi. Næsta jörð við Hvítanes er Fossá og er svæðið vel merkt þegar komið er að.

Allir eru velkomnir í ævintýraland jólatrjáa að Fossá. Nánari upplýsingar er hægt að fá í gegnum síma 839-6700 eða í gegnum netfangið skogkop@gmail.com

Eigendur jarðarinnar eru skógræktarfélögin í Kópavogi, Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjósarsýslu.

Birkifræsöfnun þjóðarinnar fram undan

LANDSÁTAKIÐ „ Söfnum og sáum birkifræi „ hefst formlega á degi íslenskrar náttúru 16. september í Eyjafirði þetta haustið

Tilgangurinn með verkefninu er að efla útbreiðslu birkiskóga, meðal annars með því að virkja almenning til söfnunar og dreifingar birkifræs en einnig að veita fræðslu til félagasamtaka, skóla, fyrirtækja og stofnana um vernd og endurheimt birkiskóga.

Það sé töluvert fræ á trjám víðast hvar á landinu. Á höfuðborgarsvæðinu er fræ að ná þroska og því tími til kominn að huga að fræjum. Ekkert er því þó til fyrirstöðu að safna fræi fram eftir vetri en flest ár hangir fræ á trjám fram undir jól.

Nánari upplýsingar um viðburðinn í Eyjafirði er að finna á eftirfarandi slóð:  https://island.is/s/land-og-skogur/frett/birkifraesoefnun-thjodarinnar-fram-undan

AÐALFUNDUR SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS 30. ÁGÚST - 1. SEPTEMBER 2024

Skógræktarfélag Kópavogs er héraðsskógræktarfélag innan Skógræktarfélags Íslands.

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands ( SÍ ) er haldinn að hausti til ár hvert. Á fundinum er kosið í stjórn félagsins, lagabreytingar afgreiddar þegar það á við og fjallað um margvísleg málefni sem snerta skógræktarfélögin í heild eða skógrækt almennt.

Fulltrúar frá Skógræktarfélagi Kópavogs sækja aðalfundinn og hafa þar bæði kjörgengi og kosningarétt.

Einstök skógræktarfélög skiptast á að vera gestgjafar fundarins og því er fundarstaður breytilegur milli ára. Gefur það skógræktarfélögunum tækifæri til að kynna starfsemi síns félags og fræðast um starfsemi annarra félaga. Aðalfundurinn er einnig mikilvægur félagslegur vettvangur, þar sem þátttakendum gefst kostur á að viðhalda og endurnýja kynni við gamla og nýja félaga innan skógræktarhreyfingarinnar.
Skógræktarfélag Kópavogs var síðast gestgjafi fundarins 2019.

Í ár verður aðalfundur Skógræktarfélags Íslands haldinn á Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024 og eru Skógræktarfélög Neskaupstaðar, Reyðarfjarðar og Eskifjarðar gestgjafar fundarins.

Nánari upplysingar um fundinn er að finna á eftirfarandi slóð https://www.skog.is/adalfundur-2024/

BIKARMÓT Í GUÐMUNDARLUNDI 20. MAÍ 2024

Bikarmót Breiðabliks í ólympískum fjallahjólreiðum verður haldið í Guðmundarlundi í Kópavogi mánudaginn 20. maí 2024. Mótið hefst kl. 15:00.

Brautin

Um er að ræða braut sem liggur meðal annars um skógræktarsvæði Skógræktarfélags Kópavogs og er brautin sett upp í samráði og samvinnu við skógræktina. Í aðdraganda mótsins eru hjólarar beðnir um að fara varlega þegar þeir fara um skóginn í Guðmundarlundi þar sem hún liggur í gegnum frisbígolfvöll. Vinsamlegast takið því tillit til annarra sem eiga þar leið um. Þessum hluta brautarinnar verður síðan lokað á sjálfum keppnisdegi.

DAGSKRÁ AÐALFUNDAR

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs boðar til aðalfundar félagsins þriðjudaginn 12. mars 2024
Fundurinn hefst kl 19:30 á Leiðarenda 3 í Guðmundarlundi í Kópavogi.

 

Dagskrá

1. Fundarsetning

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

3. Skýrsla stjórnar

4. Reikningar félagsins

5. Skýrslur nefnda

6. Félagsgjald

7. Lagabreytingar

8. Kosning stjórnar

9. Kosning skoðunarmanna reikninga.

10. Önnur mál

Lög félagsins má nálgast á vef félagsins www.skogkop.is
Á eftirfarandi slóð má finna staðsetningu húsins í Guðmundarlundi : https://skogkop.is/kort-og-mynd 

Með kveðju
Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs

 

 

HÖGGVIÐ YKKAR EIGIÐ JÓLATRÉ - FJÖLSKYLDUSTUND Í SKÓGINUM

Jólatrjáasala verður á Fossá í Hvalfirði tvær helgar í desember 2023 þ.e laugardaginn 2. og sunnudaginn 3. desember og aftur 9. og 10. desember milli kl 11:00 og 15:00

Einstaklingum sem og starfsmannafélögum eða öðrum hópum gefst nú, eins og undanfarin ár, frábært tækifæri til að koma að Fossá í Kjós og ná sér í jólatré.

Jólatrén eru seld eftir hæð þeirra. Tré allt að 1,5 m. á hæð kostar 6500,-. Hæðaflokkur 1,5 – 2 m. er á 8500,- og 2 – 2,5 m. á 13000,-

Þegar komið er að Fossá er hægt að fá lánaða sög og leiðbeiningar starfsfólks um hvar megi sækja tré og hvernig skuli bera sig að. (Þeir sem eiga góða sög eru hvattir til að taka hana með sér).

Þegar tréð hefur verið valið og fellt stendur til boða aðstoð við að pakka trénu inn í net sé þess óskað. Hægt er að greiða fyrir tréð/ trén hvort sem er með peningum, korti eða leggja beint inn á reikning.

Öll vinna við sölu trjánna er unnin í sjálfboðavinnu og er afrakstur sölunnar notaður til að gróðursetja fleiri tré á Fossá og styrkja svæðið enn frekar sem útivistarsvæði.

Skógurinn að Fossá er opinn skógur og öllum velkomið að njóta hans árið um kring.

Hvernig kemst ég að Fossá?

Jörðin Fossá er frekar innarlega í Hvalfirði. Beygt er af Vesturlandsveginum inn í Hvalfjörð að sunnanverður, skammt frá Hvalfjarðargöngunum.

Leiðin liggur inn Hvalfjörðinn og er farið yfir Laxá, framhjá Hálsi í Kjós , Hvammsvík, og Hvítanesi þar sem gamla Breta Bryggjan hangir enn uppi.

Næsta jörð við Hvítanes er Fossá og er svæðið vel merkt þegar komið er að.

Allir eru velkomnir í ævintýraland jólatrjáa að Fossá. Nánari upplýsingar er hægt að fá í gegnum síma 839-6700 eða í gegnum netfangið skogkop@gmail.com

Eigendur jarðarinnar eru skógræktarfélögin í Kópavogi, Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjósarsýslu.

BIRKIFRÆTÍNSLA Í VESTURBYGGÐ

MEST ER UM BIRKIFRÆ Í VESTURBYGGÐ ÞETTA ÁRIÐ

Sem kunnugt er stendur yfir áratugur Sameinuðu þjóðanna um verndun og endurheimt vistkerfa um allan heim í þágu fólks og náttúru. Íslensk stjórnvöld hafa tekið svonefndri Bonn-áskorun sem er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga undir hatti alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN í samstarfi við fleiri aðila. Markmið Íslands í þessari áskorun er að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins, í stað 1,5% nú.

LANDSVERKEFNIÐ „SÖFNUM OG SÁUM „ SEM HÓFT ÁRIÐ 2020 KALLAR EFTIR FRÆJUM

Það er misjafnt á milli ára hversu mikið framboð er af birkifræi. Í ár er almennt lítið framboð á birkifræi í flestum landshlutum að undskildri Vesturbyggð en þar má víða finna mikið magn fræja.

Nú er fræsöfnunartímanum senn að ljúka og verður gert sérstakt átak til að safna birkifræi í Vesturbyggð áður en vetur gengur í garð af fullum þunga og eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að taka þátt.

Laugardaginn 18. nóvember fer fram fræðsla um söfnun fræja og sáningu á þremur stöðum í Vesturbyggð.

Kl. 11:00 ætla Bíldælingar og nærsveitungar að koma saman á útsýnispallinum á varnargarðinum og njóta fræðslu og tína fræ.

Kl. 13:00 hefst dagskráin í Tálknafirði og kl. 15:00 á Patreksfirði.

Fræðslan verður í höndum verkefnisstjóra Landsátaksins Kristins H. Þorsteinssonar en hann er starfar jafnframt sem framkvæmdarstjóri Skógræktarfélag Kópavogs.

ALLIR GETA ORÐIÐ FRÆSAFNARAR OG FRÆGJAFAR

Landsátakið gefur almenningi færi á að leggja sitt af mörkum til landbótastarfs og stuðlar þannig að auknum skilningi á mikilvægi landbótastarfs í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Verkefnið að „SAFNA OG SÁ „ hentar flestum aldurshópum vel og sérstaklega nefna að börnin skynja mikilvægi verkefnisins, eru fljót að tileinka sér vinnubrögðin, og vinna hratt og hafa gaman af. Það er því mikilvægt að að gefa börnum tækifæri til að koma og vera þátttakendur í þessu mikilvæga verkefni. Öllum fræjum sem verður safnað verður sáð í Vesturbyggð af skólabörnum, félagsamtökum sem og öðrum sem vilja taka þátt.

Verkefnið gefur almenningi færi á að leggja sitt af mörkum til landbótastarfs og stuðlar þannig að auknum skilningi á mikilvægi landbótastarfs í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Átakið í Vesturbyggð er samstafsverkefni: Landsátaksins „Söfnum og sáum“ Vesturbyggðar, skógræktarfélagana og kirkjunnar í Vesturbyggð og fræðslusviðs biskupsstofu.

Skógræktarfélag Bíldudals

Skógræktarfélag Patreksfjarðar

Skirnarskógar

birkiskogur.is


BIRKISÖFNUN HAFIN

Gleði og eftirvænting skein úr hverju andliti þátttakenda þegar landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar um söfnun og sáningu birkifræs hófst formlega miðvikudaginn 13. september. Fyrstu skrefin voru tekin með fræðslu tveggja sérfræðinga á sviði birkis, þeirra Þorsteins Tómassonar og Aðalsteins Sigurgeirssonar. Þeir félagar fjölluðu um birkið frá ýmsum hliðum og að því loknu var gengið út í góða veðrið og birkifræjum safnað.

Markmið verkefnisins

Verkefnið Söfnum og sáum birkifræi er liður í því að breiða út á ný birkiskóglendi sem þakti við landnám að minnsta kosti fjórðung landsins en er nú einungis um 1,5 prósent. Markmið stjórnvalda í Bonn-áskorun Evrópulanda er að ná þessu hlutfalli upp í fimm prósent árið 2030. Mikilvægt er að sem flestar hendur leggi hönd á plóginn og því er biðlað til almennings að safna fræi og annað hvort sá því á eigin spýtur á beitarfriðuðum svæðum þar sem vilji er til að klæða landið skógi eða skila fræinu inn til söfnunarinnar.

Fræðsla og önnur aðstoð

Landsátakið býður upp á námskeið, fyrirlestra og fræðslu er lýtur að birki, söfnun fræja og sáningu fyrir t.d. skóla, félagasamtök og fyrirtæki. Nálgast má upplýsingar um það sem í boði er með fyrirspurn í gegnum netfangið birkiskogur@gmail.com

Verkefnastjóri Landsátaksins er Kristinn H. Þorsteinsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs með síma 839-6700.

Skógræktarfélag Kópavogs hlaut landgræðsluverðlaun 2023 fyrir endurheimt birkivistkerfa, söfnun og sáningu á birkifræi. Nánari upplýsingar um Landgræðsluverðlaunin má finna á eftirfarandi slóð: https://land.is/landgraedsluverdlaunin-2023/

Viltu fá birkifræ til að sá?

Þetta árið er heldur lítið framboð á fræi í flestum landshlutum. Einhvern reyting er alls staðar að finna ef vel er leitað, líklega minnst á Norður- og Austurlandi, heldur betra sunnan- og vestanlands en eina svæðið þetta árið sem vitað er um mikið fræ er á sunnanverðum Vestfjörðum, einkum í Vesturbyggð. Nokkurt magn er til af birkifræi í frægeymslum Skógræktarinnar og ástæða til að hvetja fólk til að nýta sér það og fara út og sá, ekki síst þar sem lítið fræ er að finna. Skógræktin býður 100 gramma pakkningar sem sendar verða í pósti meðan birgðir endast. Hafið samband við Valgerði Jónsdóttur í Vaglaskógi með netfanginu valgerdur@skogur.is.

 

LANDSÁTAKIÐ SÖFNUM OG SÁUM BIRKIFRÆI 2023 HEFST Í HEIÐMÖRK 13. SEPTEMBER

Skógræktarfélag Reykjavíkur býður til formlegrar opnunar á landsátaki Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í söfnun og sáningu á birkifræi fyrir árið 2023 miðvikudaginn 13. september kl. 18:00.

Dagskráin hefst við Elliðavatnsbæinn í Heiðmörk. Þar verður stutt fræðsla um söfnun og sáningu á birkifræi, tilgang og fyrirkomulag landsátaksins. Að því loknu verður haldið af stað út í skóg og birkifræi safnað.

Hvernig fræi er best að safna?

Birkitré eru jafn ólík og þau eru mörg. Við fræsöfnun borgar sig að hafa í huga að tréð sem í framtíðinni vex upp af fræinu, verður líklega mjög líkt trénu sem fræið er tínt af. Mikill munur er á því hve öflug mismunandi yrki (erfðahópur) eru - hve hratt þau vaxa, hve hátt, hvort þau eru bein eða kræklótt, þol gagnvart sjúkdómum og fleira.

Mest af birkifræi í Vesturbyggð

Síðustu daga hefur verið unnið að því að kortleggja hversu mikið birkifræ finnst á trjám vítt og breitt um landið. Magn birkifræja í ár er ekki með því besta sem sést hefur á höfuðborgarsvæðinu og þarf aðeins að hafa fyrir því að finna tré með sæmilegu fræmagni. Þar á því vel orðatiltækið „leitið og þér munuð finna“.

Lítið er um fræ bæði á Norður- og Austurlandi en reytingur á Suður- og Vesturlandi. Í Vesturbyggð má aftur á móti víða finna talsvert magn fræja en minna annars staðar á Vestfjörðum. Því er ástæða til að hvetja íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum sérstaklega til dáða í ár.

Birkiskógar þeki fimm prósent landsins árið 2030

Landsátakið „Söfnum og sáum birkifræi“ fer fram í fjórða skipti í ár. Þjóðin tók vel við sér þegar fyrst var efnt til átaksins árið 2020. Mikið magn fræja hefur safnast á síðustu árum og það notað til að rækta upp stór uppgræðslusvæði.

Sem kunnugt er stendur yfir áratugur Sameinuðu þjóðanna um verndun og endurheimt vistkerfa um allan heim í þágu fólks og náttúru. Íslensk stjórnvöld hafa tekið svonefndri Bonn-áskorun sem er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga undir hatti alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN í samstarfi við fleiri aðila. Markmið Íslands í þessari áskorun er að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins, í stað 1,5% nú.

Verkefnið Söfnum og sáum birkifræi er liður í því að Ísland nái þessu markmiði. Tilgangurinn er að efla útbreiðslu birkiskóga, meðal annars með því að virkja almenning til söfnunar og dreifingar birkifræs en einnig að veita fræðslu til félagasamtaka, skóla, fyrirtækja og stofnana um vernd og endurheimt birkiskóga.

Fólk um allt land er hvatt til að leggja sitt að mörkum. Annað hvort með því að safna fræi og skila því á móttökustöðvar eða sá fræinu á beitarfriðuðum svæðum þar sem vilji er til að klæða land birkiskógi eða -kjarri. 

Hægt er að sækja öskjur í verslanir og þjónustustöðvar Bónus og Olís. Þar verða líka kassar sem skila má fræinu í.

Bakhjarlar verkefnisins

Bakhjarlar verkefnisins eru Prentmet Oddi, Bónus og Olís. Þá vinnur Landvernd einnig að því að virkja fólk til þátttöku og að verkefninu vinna ásamt Skógræktinni og Landgræðslunni, Skógræktarfélag Íslands og Skógræktarfélag Kópavogs, Lionshreyfingunni og Kvenfélagasambandi Íslands. Í Norður-Þingeyjarsýslu má sækja öskjur og skila fræi í verslunina í Ásbyrgi í Kelduhverfi.

Nánari upplýsingar veita

Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, 893-2200

Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs, 839-6700.

Á staðnum verða auk þeirra sérfræðingar sem fræða gesti og gangandi um birki. Meðal þeirra tveir vísindamenn sem gert hafa rannsóknir á birki og erfðaeiginleikum þess.

Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur hefur stundað rannsóknir á birki og ræktað beinvaxin og hraðvaxta yrki. Hann er stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Reykjavíkur og verður á svæðinu við opnun landsátaksins. Aðgengilega umfjöllun hans um birki má lesa hér: https://heidmork.is/birki-betula-ssp/

Aðalsteinn Sigurgeirsson er einn af höfundum umfjöllunar í nýjasta Riti Mógilsá, um tilraun á 50 mismunandi birkikvæmum, sem sett voru út 1998. Niðurstöðurnar sýna hve miklu arfgerð skiptir fyrir viðgang trjánna. https://www.skogur.is/is/rannsoknir/utgafa/rit-mogilsar  Aðalsteinn er fagmálastjóri Skógræktarinnar og stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Reykjavíkur, og verður á svæðinu. Greinina má lesa hér: https://www.skogur.is/is/rannsoknir/utgafa/rit-mogilsar 

HEIMSÓKN ELDRI BORGARA Í GUÐMUNDARLUND 20. JÚNÍ

Hin árlega og geysivinsæla skemmtiferð eldri borgara í Kópavogi var farin í Guðmundarlund þann 20. júní í blíðskaparveðri.

Um 220 manns sóttu hátíðina sem er samstarfsverkefni Félags eldri borgara í Kópavogi, Skógræktarfélags Kópavogs og Kópavogsbæjar.

Glens og gaman hefur ætíð fylgt þessum góða hóp eldri borgara en boðið var upp á léttar veitingar, tónlistin var í höndum Gleðigjafanna þeirra Gulla, Sigga sem með aðstoð Ingvars þöndu nikkurnar og söngur fólksins ómaði um allan lundinn.  Stuttar og hnitmiðaðar ræður fluttu þau Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs, Þröstur Magnússon formaður Skógræktarfélags Kópavogs og Margrét Halldórsdóttir nýkjörin formaður Félag eldri borgara í Kópavogi og var gerður góður rómur að ræðumönnum.

Sjá einnig hér: Frétt á heimasíðu FEBK