Gróðursetning grunnskólabarna í Kópavogi er reglulegur þáttur í skólastarfinu en ár hvert fá þau plöntur úr Yrkjusjóði til ræktunar í Skólaskógum á Vatnsendaheiði. Persónuleg reynsla og kynni nemanda af þessu starfi er fjársjóður sem á eftir að skila vöxtum þegar fram líða stundir. Árlega gróðursetja grunnskólabörn í Kópavogi undir handleiðslu Skógræktarfélags Kópavogs um og yfir 1.600 plöntur en 8 skólar sóttu um að fá plöntur úr Yrkjusjóði þetta árið. Að lokinni gróðursetningu og fræðslu fara börnin eins og áður niður í Guðmundarlund þar sem þau fá útrás fyrir orku, gleði og skapandi leiki.