GUÐMUNDARLUNDUR MEÐ TUGI ÞÚSUNDA GESTA Á ÁRI - FRÉTT Í MBL

Frétt sem birtist í Mbl 3. júní 2022 rituð af Steinþóri Guðbjartsson steinthor@mbl.is Ljósmynd: Morgunblaðið/Hákon

Guðmundarlundur með tugi þúsunda gesta á ári - Nær 5.000 skráðir gestir í vikunni • Þörf á stærra svæði

Guðmundarlundur í Kópavogi er mjög vinsælt, um 11 hektara útivistarsvæði og þangað koma tugir þúsunda gesta árlega. „Við erum komin yfir þolmörk og í raun þyrftum við að stækka svæðið vegna vinsælda þess,“ segir Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs.

Guðmundarlundur í Kópavogi er mjög vinsælt, um 11 hektara útivistarsvæði og þangað koma tugir þúsunda gesta árlega. „Við erum komin yfir þolmörk og í raun þyrftum við að stækka svæðið vegna vinsælda þess,“ segir Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs.

Guðmundur H. Jónsson, þáverandi forstjóri BYKO, og fjölskylda gáfu Skógræktarfélagi Kópavogs, gamlan sumarbústað og skóg í leigulandi í eign Kópavogs í Stórabási í Vatnsendahlíð í Vatnsendalandi 1997 og fékk spildan nafnið Guðmundarlundur. Félagið hefur unnið markvisst að landgræðslu og skógrækt á svæðinu, en jafnframt stuðlað að aukinni fræðslu um það samfara uppbyggingu þess með útivist og afþreyingu í huga. Þar eru margir göngustígar, grasflatir, leiksvæði, níu holu minigolfvöllur, tíu brauta frisbígolfvöllur og grillaðstaða á þremur stöðum auk húsnæðis sem er meðal annars notað sem fræðslumiðstöð fyrir börn í grunnskólum Kópavogs. „Svæðið hefur vaxið og dafnað smám saman og er eitt allra besta og vinsælasta útivistarsvæðið landsins,“ segir Kristinn.

Regluleg aðsókn allt árið

Almenningur nýtir svæðið allt árið. Kristinn segir það vinsælt fyrir ýmis mannamót eins og til dæmis fyrirtækjasamkomur, fjölskyldudaga, afmæli og brúðkaup auk þess sem meðlimir í félagasamtökum séu tíðir gestir. Daglega í desember fyrir jólin standi jolasveinar.is fyrir leiksýningu, þar sem Grýlu, Leppalúða, Skjóðu og fleiri bregður fyrir í skóginum. „Í fyrra komu 10.000 gestir í skóginn í desember, annað eins í maí og þessa vikuna eru tæplega 5.000 skráðir gestir,“ segir Kristinn um aðsóknina.

Kristinn bendir á að Guðmundarlundur sé í raun hlið inn í Vatnsendaheiðina og áfram inn í Heiðmörk. „Þetta er sannkölluð útivistarperla í jaðri annarrar slíkrar.“ Grunnskólabörn í Kópavogi taki þátt í gróðursetningu í svonefndum Skólaskógum á hverju ári, skólakrakkar víðs vegar að af landinu komi á svæðið sér til skemmtunar og það iði af lífi og fjöri árið um kring. „Bikarmót fjallahjólreiðamanna í Breiðabliki fer fram í Vatnsendahlíðinni árlega og stjórnendur nota aðstöðuna okkar en þessu fylgir fjöldi keppenda, starfsmanna og áhorfenda, svo dæmi um viðburð sé tekið.“

Skógræktarfélag Kópavogs sér alfarið um svæðið og segir Kristinn mikla vinnu aðeins við að halda hlutum í horfinu. Stækkunarmöguleikar séu fyrir hendi. Lundurinn sé í tengslum við skóg fyrir ofan á Vatnsendaheiðinni og tvinna megi svæðin betur saman.

„Gríðarlegur fjöldi leitar í Guðmundarlund og Vatnsendaheiðina en þrátt fyrir það verða margir mjög hissa þegar þeir koma hingað í fyrsta skipti, og það kemur þeim á óvart hvað þetta er skemmtilegt svæði. Það hefur enda aðeins verið reifað hvort ekki sé kominn tími til að stækka Guðmundarlund og efla hann.“