Aðalfundur 21 mars 2023

Árskýrsla Skógræktarfélag Kópavogs milli aðalfunda frá 29. mars 2022 – 21. mars 2023

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs 2022 var haldinn 29. mars. Stjórn félagsins þannig skipuð að aðalfundi loknum.

Þröstur Magnússon formaður

Kristján Jónasson varaformaður

Sigrún óskarsdóttir gjaldkeri

Loftur Þór Einarsson ritari

Jón Ingvar Jónasson meðstjórnandi

Hrefna Einarsdóttir varamaður

Kristján Jónasson varaformaður félagsins féll snögglega frá 1. okt. Það var mikið reiðarslag fyrir alla og er hans sárt saknað. Eftir lát Kristjáns tók Hrefna Einarsdóttir sæti hans og gegnir hún nú stöðu varaformanns.

Kristinn H. Þorsteinsson er starfsmaður félagsins.

Frá aðalfundi hafa verið haldnir 4 stjórnarfundir.

Þegar aðalfundurinn var haldinn vorum við að koma út úr uppsveiflu í Covid og snjó þungum vetri. Um miðjan febrúar skall vetur á af miklum þunga og var meira og minna ófært fyrir bílaumferð í Guðmundarlund í rúman mánuð.

Samkvæmt samningi á milli Skógræktarfélagsins og Kópavogsbæjar tók félagið á móti sumarstarfsmönnum og sem fyrr voru saman komnir ólíkir einstaklingar og hópar á öllum aldri og samstarf við Kópavogsbæ með ágætum.

Fyrstu sumarstarfsmenninir komu í byrjun maí en þorinn allur hóf störf 23. maí og luku störfum 12. ágúst. Fáeinir starfsmenn frá Velferðarsviði Kópavogs fengu að starfa áfram fram að áramótum. Um 50 manns voru skráðir í störf hjá skógræktarfélaginu yfir sumartímann sem er heldur færra en árið áður. Margir entust út ráðningartímann sinn, aðrir stoppuðu stutt við og um suma vissi maður varla hvort þau voru að koma eða fara.

Frá Sambýlinu í Dimmuhvarfi komu íbúar og tóku þátt í verkefnum í Guðmundarlundi en þeim fylgja ætíð aðstoðarmenn enda fötlun þeirra mjög mikil.

Skógræktarfélag Kópavogs hefur í áratugi sinnt samfélagslegu hlutverki, tekið á móti sumarstarfsmönnum til starfa, aflað verkefna, annast kennslu og þróað færni þeirra í fjölbreyttum verkefnum á sviði umhverfismála.

Lengst af var um að ræða skólafólk en einnig einstaklinga sem átt hafa við ýmis vandamál að stríða til að mynda veikindi og eða vegna neyslu lyfja. Það sem sumarstarfsmenn áttu lengst af sameiginlegt var að bakgrunnur þeirra, rætur og menningararfleifð var íslenskt. En það hafa átt sér stað miklar samfélagslegar breytingar síðustu ár. Í vaxandi mæli erum við að taka á móti einstaklingum sem hafa þurft að flýja heimaland sitt vegna stríðs, pólitískra skoðana eða af öðrum ástæðum. Þetta er oft fólk sem lifir við bág efnahagsleg gæði, hefur litla eða enga íslensku kunnáttu og fólk sem upplifir takmarkanir vegna stöðu sinnar sem minnihlutahópur innan samfélags svo fátt eitt sé nefnt. Það eru komnar nýjar leikreglur og aðrar kröfur.

Það er ekki einfalt mál þegar saman eru komin jafn ólíkir hópar manna og raun er á. Hjá Skógræktarfélaginu yfir sumartímann er fjölmenning. Einstaklingar frá ýmsum þjóðum, með mismunandi menntun, ólík trúarbrögð og menningu og gerir hlutina á margan hátt flókna.

Skógræktarfélagið er að ganga inn í nýjan veruleika. Við stöndum núna frammi fyrir þeirri spurningu hvort það sé eðlilegt eða raunhæft að einn fastur starfsmaður félagsins hafi burði til að sinna þessu verkefni sem er orðið mun meira krefjandi en áður var. Það er vilji Skógræktarfélagsins að getað á virkan hátt tekið þátt í samfélagsverkefninu og lagt sitt að mörkum að vinna áfram með skólafólki, innflytjendum og flóttafólki sem hafa þörf á að láta hlúa að sér og komast inn í okkar samfélag. Störf í skógrækt og rekstri útivistasvæða hentar mörgum og oftast ólíkum einstaklingum og hópum. Það hefur sýnt sig að einstaklingar hafa geta notað störf hjá Skógræktarfélagi Kópavogs sem stökkpall inn í samfélagið og komist í fasta vinnu á öðrum vettvangi. Við megum ekki bregðast þessu fólki, það þurfa allir að leggjast á eitt.

Á árinu annaðist Skógræktarfélagið gróðursettningar á um 12.000 trjáplöntum í Selfjalli ofan Lækjarbotna. Mest var gróðursett af birki en flest allar barrplöntur sem komu til félagsins skemmdust á gróðursetningarstað eða í bökkum eftir næturfrost aðfaranótt 5. júní.

Í Selfjalli og í Lækjarbotnum hafa félagasamtök fengið úthlutað reiti til gróðursetninga en hafa jafnframt möguleika á að koma sér upp aðstöðu til að mynda bekkjum og borðum. Félögin eru Kiwanisklúbburinn Eldey, Lionsklúbburinn Eir, Rótarýklúbburinn Borgir, Rótarýklúbbur Kópavogs , Soroptimistaklúbburinn og Útivist.

Útivist fékk úthlutað svæði 2020 þar sem fyrirrennarar þeirra Ferðafélagið Farfuglar reistu sér skála hér árum áður en eftir stendur aðeins grunnur skálans upp í austurhlíð Selfjalls.

Fyrir utan að hlúa að plöntum og gróðursetja sótti Útivist eftir aðstoð Kópavogsbæjar til að setja frostfrítt efni í grunn gamla skálans en Útivist hyggst koma þar upp áningarstað með bekkjum og borðum sem gestir og gangandi geta nýtt sér í framtíðinni. Á haustdögum var settur grús inn í grunninn og ætla útivistarfélagar að mæta snemma sumars og hefjast handa við að koma upp áningarstaðnum.

Í júní mætti hópur systra úr Soroptimistaklúbbi Kópavogs til gróðursetningar í Selfjalli og gróðursettu reyniviðarplöntur og birki í reitinn.

Þá var hlúð að fyrri gróðursetningum en lifun plantna frá því í fyrra ( 2021 ) er nær 100%.

Klúbburinn sótti um styrk úr Vorvið sem var nýttur til að kaupa stærri plöntur af reynivið.

Félagið gróðursetti fyrst í reitinn 1993 og er þar vaxinn upp fallegur skógarreitur.

Rótarýklúbburinn Borgir kom einnig saman til gróðursetninga í júní en þau höfðu fengið úthlutað í plöntum úr Vorvið og gróðursettu birkiplöntur. Klúbburinn fékk reitinn úthlutað 2021 og er þetta annað árið sem þau mæta til gróðursetninga.

Í september gróðursettu félagar í Lionsklúbbnum Eir birkiplöntur og týndu jafnframt birkifræ sem þær lögðu inn Landsátakið Söfnum og sáum birkifræjum.

Á árinu 2021 fór fram grisjun í trjáreitum í Lækjarbotnum og var því verki haldið áfram í sumar en í smærri stíl. Einnig var lokið við að draga út eða hagræða grisjunarvið í trjáreitunum sem grisjuð voru í Lækjarbotnum árinu áður.

Kominn er nýr vegur í Lækjarbotnalandi sem liggur nálagt grisjunarviðnum sem borinn var út gefst vonandi tækifæri á að kurla viðinn og nota í göngustíga á svæðinu.

Þá var haldið áfram við áburðagjöf þar sem frá var horfið 2021 borið á plöntur í austurhlíðum Selfjalls.

Skátaskáli Garðbúa í Lækjabotnum var leigður undir sumarstarfsfólk fyrir kaffiaðstöðu en sú aðstaða er til fyrirmyndar.

Gróðursetning grunnskólabarna í Kópavogi er reglulegur þáttur í skólastarfinu en ár hvert fá þau plöntur úr Yrkjusjóði til ræktunnar í Skólaskógum á Vatnsendaheiði. Skortur var á birkiplöntum um vorið og var ákveðið að færa gróðursetningar fram á haustið.

Við það riðlaðist allt kerfið og voru það einungis þrír grunnskólar sem mættu til að gróðursetja um haustið. Gróðursettar voru 450 plöntur en auk þess söfnuðu nemendur birkifræi en þau fengu verklega fræðslu um hvernig staðið væri að gróðursetningum bakkaplantna og söfnun birkifræja og sáningu þeirra.

Undanfarin tvö ár hefur Skógræktarfélagið í samstarfi við Kópavogsbæ boðið almenningi upp að taka þátt í gróðursetningum á Vatnsendaheiði undir leiðsögn og leggja sitt að mörkum í þágu samfélagsins. Boðið var upp á þrjá daga og var sá fyrsti haldinn undir undir merkinu Líf í lundi en sá viðburður hefur fest sig sessi um land allt þar sem hvatt er til hreyfingar, samveru og skóga- og náttúruupplifunar. Tveir síðari gróðursetningar dagarnir voru haldnir 5. júlí og á degi Íslenskrar náttúru, 16. september.

Samningur var gerður milli Kópavogsbæjar og Skógræktarfélagsins um skógrækt á Vatnsendaheiði 1994 og í kjölfarið hófust gróðursetningar trjáa og hafa víða vaxið upp myndarlegir skógarteigar á heiðinni. Komið var að því að grisja þurfti þar sem þéttleiki var víða mikill og ástæða þótti opna víðast hvar betri aðgengi um reitina.

Skógarsvæðin á Vatnsendaheiði eiga gegna því megin hlutverki að vera ákjósanlegur vettvangur til útivistar.

Við grisjun var sá háttur hafður á að fella ekki tré sem einhverra hluta vegna höfðu sérstöðu eins og vaxtarlag, fegurð eða vera fágæt tegund á svæðinu. Þá fengu sumstaðar tré að standa áfram þétt saman og mynda eina heild en öðrum stöðum var grisjað vel eða eins vel og hægt er án þess að eiga í hættu að skógurinn falli um í veðrum. Nokkur tré eiga að fá að njóta sín sem stakstæð tré í framtíðinni. Þannig á að viðhalda fjölbreytileika skógarins enda hann ekki hugsaður til viðarframleiðslu.

Stefnt er að því að í framtíðinni hafi svæðið hátt útivistargildi í fögru umhverfi.

Malarstígar fyrir gangandi og hjólandi fólk voru lagðir um Vatnsendaheiði en verkefnið var valið inn í „Okkar Kópavogur“ í rafrænum kosningum sem stóðu yfir frá 26. janúar til 9. febrúar 2022. Kópavogsbær lagði einnig hestavegi um Vatnsendaheiði. Samhliða þessu voru víða lokaðar akleiðir um heiðina og þær götur gerðar að hestastígum. Þá var lagður myndarlegur göngu- og hjólastígur milli Boðaþings og Guðmundarlundar sem styrkir svæðið í og við Guðmundarlund en frekar sem aðgengilegt útivistarsvæði. Verkefnið var valið inn í „Okkar Kópavogur“ Eftir á að lagfæra kanta stígsins og er gert ráð fyrir að það verði gert með sumarstarfsmönnum á komandi sumri.

Félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi og Félag eldri borgara í Kópavogi efndu til skemmtiferðar í Guðmundarlund fimmtudaginn 15. júní. Gestgjafar í Guðmundarlundi voru Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær sem tóku á móti gestunum milli klukkan 14:00 og 16:00. Formaður Skógræktarfélags Kópavogs, Þröstur Magnússon, bæjarstjórinn í Kópavogi, Ásdís Kristjánsdóttir og formaður Félags eldri borgara í Kópavogi Ragnar Jónasson ávörpuðu gesti sem voru hátt í 200.

Þess má geta að móttaka eldri borgara í Guðmundarlundi var fyrsta embættisverk Ásdísar sem bæjarstjóri Kópavogs.

Bikarmót Breiðabliks í ólympískum fjallahjólreiðum var haldið í Vatnsendahlíð og í Guðmundarlundi í Kópavogi fimmtudaginn, 19. maí. Brautin lá um Vatnsendahæð, að hluta til innan skógarins í Guðmundarlundi og við bílastæðin. Mótið tókst á allan hátt vel og aðstoðaði Skógræktarfélagið Breiðablik eins og kostur var. Miðstöð mótshaldara var í fræðslusetrinu að Leiðarenda 3. Mikill fjöldi gesta kom í Guðmundarlund til að njóta dagsins.

15. mai fór fram hið árlega utanvegshlaupið HLAUPÁRS sem hlaup.is stendur fyrir. Bækistöð mótshaldara var í Guðmundarlundi og var mjög margt fólk sem mætti til að taka þátt keppninni eða horfa á og fjöldinn allur kom til njóta góðs dagsins á annan hátt.

Stuðningsfélagið Kraftur hefur það að leiðarljósi að beita sameinuðum kröftum sínum til að aðstoða og styðja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur héldu hér í Guðmundarlundi sína árlegu sumarhátíð. Margt var um manninn og glatt á hjalla. Öll vinna og utanumhald fyrrgreindra félaga var til fyrirmyndar.

Í Hermannsgarði voru tvö pör gefin saman að viðstöddu fjölmenni.

Í lundinn koma einstaklingar, fjölskyldur, fyrirtæki og aðrir hópar. Það er spilað minigolf, frisbígolf, grillað, haldin afmæli svo fá eitt sé nefnt. Svæðið iðar af lífi nær árið um kring. Hver árstíð hefur sinn sjarma og tækifæri til útiveru og útivistar eru óteljandi.

Ævintýri í Jólaskógi í Guðmundarlundi á aðventunni var haldið þriðja árið í röð. Dagskráin er tæplega klukkutíma löng sýning þar sem áhorfendur ganga í litlum hópum um skóginn í Guðmundarlundi, vopnaðir vasaljósum og hitta á ferðum sínum persónur úr jólafjölskyldu okkar Íslendinga, þau Grýlu, Leppalúða, jólasveinana og tröllasystkini þeirra. Veðurfar var eins og best var á kosið framan af en um miðjan desember tók að snjóa og frostið harnaði eftir því sem á leið og komu nokkrir dagar þar sem frostið féll niður í - 22 gráður.

Þá voru haldin skemmtanir í skóginum fyrir foreldrafélög grunn- og leikskólabarna Kópavogi.

Sem fyrr komu í Guðmundarlund um 10.000 manns í desember til njóta alls þess besta sem lundurinn hefur uppá að bjóða.

Því miður er lífið í Guðmundarlundi ekki alltaf dans á rósum. Aftur og aftur þurfum við upplifa skemmdarverk sem unnin eru. Bekkir og borð eru brotin í spón, rusladallar skemmdir, salerni eyðilögð og brotnar flöskur á víð og dreif.

Það hlýtur að skjóta skökku við í hugum margra þegar við hjá Skógræktarfélaginu dásemdum Guðmundarlund og segjum svæðið vistlegt útivistarsvæði um leið og við bjóðum alla velkomna en í næsta orði segjum við aftur og aftur frá því að allt sé í rúst í Guðmundarlundi, skemmd borð og brotnar flöskur.

Ástandið er oft mjög slæmt en það er í raun dulinn veruleiki sem fáir fá að njóta. Á hverjum morgni 365? daga á ári höfum við mætt í Guðmundarlund og reynum eftir fremsta megni að tryggja að gestir lundarins fái að upplifa Guðmundarlund sem vistlegt og þrifalegt svæði. En hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér því það er mikil vinna sem liggur þar að baki.

Í ársskýrslu félagsins í fyrra birtum við upplýsingar um þann tímafjölda sem fór í að halda svæðinu hreinu um helgar og á rauðum dögum á árinu 2021. Það voru 300 klukkutímar eða sem samsvarar 40 dögum. Það er grátlegt að þurfa að eyða orku og tíma í að lagfæra skemmdir og tína upp sorp næturinnar í skóginum, af grasflötum og á göngustígum.

Við erum farin að velta vöngum yfir hversu lengi við höldum út.

Rætt hefur verið lengi um að setja þurfi upp myndavélar en það er kostnaðarsamt og félagið hefur ekki burði til að setja upp og reka slíkar vélar. Leitað hefur verið til Kópavogsbæjar en þeir eru með töluverðan rekstur og þekkingu á sviði eftirlitsmyndavéla og hafa þeir tekið vel í þá bón að setja upp vélar okkur að kostnaðarlausu.

Það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að annast rekstur fasteigna.

Gamla húsið krefst stöðugs viðhalds svo hægt sé að taka á móti sumarstarfsmönnum en húsið þjónar þeim sem kaffistofa. Húsið er illa farið, mikill fúi og fúkkalykt eftir því. Maður bíður eftir því að gólfið gefi sig en mikið sig er komið í það. Gluggar á suðurhlið voru lagfærðir rétt til þess að þeir geti haldið glerinu föstu í fáein ár í viðbót og haldið úti bæði vatni og vindi. Hluti af rafmagni var lagfært árið 2021 og ljóst er að það þarf að taka seinni hlutann á sumri komandi því ef hreyfir vind í úrkomu þá slær rafmagn út en inni í húsinu er að vatnsinntak alls svæðisins. Það mátti stundum litlu muna að það frysi í vatnsinntaks herberginu í vetur þegar frost var sem mest. Tekið var rafmagn af helmingi húsins þar lagnir eru ekki í lagi og þarf að gera við það áður en sumarstarfsmenn mæta til vinnu.

Rafmagn sló oft út á öllu svæðinu í vetur. Kalla þurfti stundum til rafvirkja til að virkja rafmagnið aftur. Er það mat hans að það þurfi að endurskoða allt er tengist rafmagni í Guðmundarlundi og skiptir þá engu hvort húsin séu nefnd Gamla húsið, Grillhúsið, Nýjahúsið eða ljósastaurar. Eins er þörf á að endurskoða allt sem tengist neysluvatni á svæðinu.

Ef gerð yrði fagleg úttekt á húsakynnum í Guðmundarlundi í dag þá yrði sú skýrsla frekar dökk.

Geymslugámar við Gamla Húsið þar sem verkfæri og annað sem nota þarf við starfsemina voru lagfærðir. Allir voru þeir farnir að leka og var farið í það að rífa upp ryðgötin og sjóða í. Tókst það með ágætum en reikna má með að um leið og einu gati er lokað þá opnast annað.

Þá voru reistar girðingar á milli Gamla hússins og gáma og lokað af svæði sem ætlað er að geyma hjólbörur og önnur verkfæri inni í læstu porti en einnig var reistur veggur frá Gamla húsinu til vesturs að bílaplani til að stúka af vinnusvæði.

Í Guðmundarlundi var farin yfirferð um skóginn , sagaðar brotnar og skemmdar greinar eða vegna annarra ástæðna.

Áfram var unnið við stígagerð í skóginum og settir niður runnar í skógarbotninn og í jaðra hans til auka fjölbreytni og gera lundinn ævintýralegri.

Snemma sumars voru komnir niður 1000 runnar og að auki fjölæringar en þetta gróðursetningar átak hefur staðið yfir í 3 ár. Það var því áfall þegar í ljós kom að hátt í helmingur allra runna voru horfnir. Þeim var hreinlega stolið. Sá aðili sem þar var að verki hefur greinilega haft ágætis þekkingu á tegundum plantna. Allar sígrænar plöntur eins og sýprustegundir, lífviðir, einitegundir og ýviðir voru horfnar með öllu, Plöntur sem teljast fágætar í útivistarskógum til að mynda stjörnuhrjúfur, garðakvistill, ýmsar lyngrósir og klukkurunni eru ekki meðal runna i Guðmundarlundi í dag. Festingar sem höfðu það hlutverk að festa klifurplöntum við stofna á trjám á meðan plantan kemur sér fyrir voru fagmannlega losaðar af og plöntunar fjarlægðar.

Á snyrtilegan hátt höfðu holunar verið huldar svo það erfitt gat verið að átta sig hvar planta stóð.

Gras á flötunum í Guðmundarlundi kom ekki vel undan vetri og var kalið á stórum svæðum en það gerist árlega enda liggur vatn og ís yfir stóran hluta svæðisins talsverðan tíma ár hvert og gras kafnar. Hafist var handa snemma vors að leysa upp yfirborð flatana og sá grasfræi í og bera á áburð. Var þetta gert þrisvar sinnum yfir sumarið en sáningar eiga erfitt uppdráttar vegna gífurlegrar aðsóknar gesta í Guðmundarlundi sem nota grasfletina til leikja. Þó orsakir vetrardauða eða skemmda eru margar þá má sjá á vorin nákvæmlega hvar frosið vatnið lá lengst af yfir vetrartímann.

Fossá í Hvalfirði er skógræktarjörð sem Skógræktarfélag Kópavogs á til helminga á móti Skógræktarfélögum í Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjósarhreppi

Ár hvert er félagsmönnum skógræktarfélaganna sem og öðrum boðið að mæta um tvær helgar og höggva eigið jólatré gegn sanngjörnu gjaldi. Skógræktarfélag Kópavogs hefur mannað aðra helgina á móti hinum félögunum. Þá hafa félagsmenn Skógræktarfélag Kópavogs fellt hærri tré og eru þau meðal annars seld til Kópavogsbæjar sem torgtré. Síðastliðinn tvö ár hefur Skógræktarfélag ekki fellt torgtré á Fossá því öll tré voru tekin í Lækjarbotnalandi og í Guðmundarlundi.

Eins og fram hefur áður komið þá tóku Skógræktin og Landgræðslan höndum saman árið 2020 og óskuðu eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins.

Verkefnið er hluti af skuldbindingum Íslands vegna Bonn áskorunarinnar og átaki í endurheimt birkiskóga. Markmið verkefnisins er að efla útbreiðslu birkiskóga með því að virkja almenning í söfnun og dreifingu birkifræs, veita fræðslu til félagasamtaka, skóla, fyrirtækja og stofnana um vernd og endurheimt birkiskóga

Leitað var til Skógræktarfélags Kópavogs um félagið kæmi að þessari vinnu og annað árið í röð hefur starfsmaður skógræktarfélagsins haft umsjón með söfnun og dreifingu á birkifræi í samstarfi við starfsfólk Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

Vorið 2022 var haft samband við skóla landsins og þeim boðin fræðsla um vistheimt með birki og kynningu á landsátakinu. Skólarnir höfðu öðrum hnöppum að hneppa þar sem dagskrá vetrarins hafði riðlast mikið hjá þeim. Þrír skólar, allir í Kópavogi þ.e.

Lindaskóli, Smáraskóli og Hörðuvallaskóli, þáðu verklega fræðslu á Vatnsendaheiði vorið 2022 og gróðursettu í kjölfarið birkiplöntur og lærðu að sá fræjum í gróðursnautt land. Álfhólsskóli þáði fræðslu um haustið og gróðursett var birki, tínt birkifræ og börnin og kennarar lærðu að sá í örfoka land. Vinnuskóli Kópavogs fékk myndræna og verklega kennslu

seinni part júnímánaðar og fram í júlí. Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs vann að hugmynd með Þjóðkirkjunni um að öll börn á Íslandi sem skírast fái að gjöf um 1.000 fræ í umslagi og eru aðstandendur barnanna hvattir til að koma fræjunum í jörðu. Skógræktarfélag Kópavogs sá um að koma fræjum í hendur kirkjunnar fólks og undirbúa verkefnið sem fór formlega af stað 9. október. Nú þegar er farið að vinna að því að undirbúa fræðslu um endurheimt vistkerfa og kolefnisbindingu með birki fyrir fermingarbörn en hugmyndin er að þau safni birkifræi og skili inn í landsátakið. Úr þeim banka fá síðan börnin sem skírast fræ. Skógræktarfélag Kópavogs mun hefja fræðslu á nýju ári og ætlunin er að þjálfa upp leiðbeinendur innan kirkjunnar um land allt til að annast fræðsluna í framtíðinni því ríkur vilji er að þetta festist í sessi um ókomna tíð.

Á kynningardögum í grænum mánuði hjá Toyota á Íslandi í júní afhenti fyrirtækið umslög

með 1.000 birkifræjum öllum þeim sem sóttu fyrirtækið heim. Gestir voru hvattir til að sá

fræjunum í örfoka land og taka þannig þátt í endurheimta landgæði og binda koltvísýring í

gróðri. Skógræktarfélagið útvegaði fræ og sá um setja um 1.000 fræ í hvert umslag

sem var merkt Toyota en þar var einnig vísað í upplýsingar um landsátakið, sáningar og

söfnun á vefnum birkiskogur.is. Skógræktarfélagið hélt fyrirlestara fyrir starfsmenn Toyota tvo daga í röð í júní.

Í september voru fræðsludagar fyrir fjölskyldur hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga í Garðsárreit í

Eyjafirði, Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Heiðmörk, Skógræktarfélagi Suður-Þingeyinga,

Stórutjarnaskóla, Skógræktarfélagi Reyðafjarðar og hjá Skógræktarfélagi Kópavogs á

Vatnsendaheiði.

Önnur félagasamtök sem nutu fræðslu Skógræktarfélags Kópavogs voru Lionsklúbburinn Eir

og Lionsklúbbur Reykjavíkur, Soroptimistaklúbbur Kópavogs og Skátasambandið.

Lionsklúbbur Reykjavíkur, Skógræktarfélag Reyðarfjarðar og skátar nutu aðeins fyrirlestrar í

sal.

Þá nutu eftirtalin fyrirtæki og félagasamtök fræðslu og tóku þátt í frætínslu og sáningu:

Íslandsbanki, Tempo ehf., Gönguklúbburinn - einn tveir og á Listasafni Ásgríms Sveinssonar

var fræðsla og birkifrætínsla í tengslum við sýninguna „Eftir stórhríðina“.

Skógræktarfélag Garðabæjar hélt sinn aðalfund 20. mars og fyrir hönd Skógræktarfélags Kópavogs heimsótti framkvæmdarstjóri Skógræktarfélags Kópavogs Garðbæinga og hélt þar erindi sem hann nefndi „ Yndisskógurinn“

Markmið og tilgangur Skógræktarfélag Kópavogs er að vinna að trjárækt, skógrækt, landgræðslu og öðrum tengdum umhverfismálum í Kópavogi og nágrenni og auka þekkingu og áhuga á þeim málum. Stuðla að lýðheilsu og útiveru landsmanna. Vera samstarfsvettvangur þeirra einstaklinga, félaga, fyrirtækja og stofnana sem vilja vinna að sömu eða svipuðum verkefnum og skógræktarfélagið.

Stjórn skógræktarfélagsins og starfsmaður hafa lagt lóð sín á vogarskálarnar og unnið markvisst að því að efla samfélagið með það að sjónarmiði að klæða land skógi, fegra ásýnd þess og bæta og styrkja gróðurþekju. Félagið hefur lagt aukna áherslu á að efla umhverfisvitund skólabarna sem og alls almennings með aukinni fræðslu um umhverfismál. Þá hefur félagið að undanförnu stigið stórt skref með sveitafélginu til að taka á móti innflytjendum og skapa þeim verkefni. Og sem fyrr hefur félagið tekið á móti hóp frá velferðarsviði sem og ungu skólafólki til starfa.

Tímanir breytast og mennirnir með vísar til mikilvægis þess að vera með þjónustu á hreyfingu og sníða og þróa hana að þörfum samfélagsins.

Stjórn félagsins þakkar öllum þeim sem lagt hafa starfssemi skógræktarfélags Kópavogs lið á einn eða annan hátt og lagt þannig sitt á vogarskálarnar til að efla og styrkja félagið til framtíðar. Einnig þökkum við öllum sem lagt hafa leið sína í Guðmundarlund fyrir komuna og vonum að þau hafi notið dvalarinna.

Ársskýrslan er tekin saman í mars 2023 af framkvæmdarstjóra Skógræktarfélags Kópavogs Kristni H. Þorsteinssyni og formanni félagsins Þresti Magnússyni.