Lög Skógræktarfélags Kópavogs

1.gr. 

Félagið heitir Skógræktarfélag Kópavogs og er héraðsskógræktarfélag innan Skógræktarfélags Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Kópavogi. 

2.gr. 

Markmið og tilgangur félagsins er að vinna að trjárækt, skógrækt, landgræðslu og öðrum tengdum umhverfismálum í Kópavogi og nágrenni og auka þekkingu og áhuga á þeim málum. Stuðla að lýðheilsu og útiveru landsmanna. Vera samstarfsvettvangur þeirra einstaklinga, félaga, fyrirtækja og stofnana sem vilja vinna að sömu eða svipuðum verkefnum og skógræktarfélagið.

3.gr. 

Markmið sínum og tilgang ætlar félagið meðal annars að ná með því að:

  • Veita félagsmönnum, nemendum og almenningi fræðslu um trjárækt, skógrækt, landgræðslu og önnur umhverfismál því tengdu í fyrirlestrum, námskeiðum, myndasýningum, sýnikennslu og fræðslugöngum eftir því sem hentar hverju sinni.

  • Hafa frumkvæði að og skapa uppbyggjandi sumarstörf fyrir ungmenni sem og aðra sem þess þurfa með í samvinnu við Kópavogbæ

  • Leita samvinnu við Kópavogsbæ og aðra landeigendur í lögsagnarumdæmi Kópavogs um friðun og ræktun heppilegra landsvæða í nágrenni bæjarins en einnig við aðila utan lögsagnarumdæmis ef henta þykir.

  • Hvetja félaga og almenning til að taka þátt í verkefnum félagsins

  • Hvetja til aukinnar þekkingar og ræktunar garðplantna fólki til ánægju og augnyndis innan þéttbýlis.

  • Hafa umsjón með og annast rekstur skógræktar- og útivistasvæða og gera svæðin eftirsóknarverð til útivistar og hreyfinga.

  • Hafa Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun að leiðarljósi

4.gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum, formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. 

Formann félagsins skal kjósa sérstaklega til tveggja ára í senn. Auk þess skal á hverjum aðalfundi kjósa tvo stjórnarmenn til tveggja ára í senn.

Kjósa skal einn varamann í stjórn til eins árs í senn.
Stjórn skipar með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. 

Aðalfundur skal kjósa tvo skoðunarmenn ársreikninga og einn varamann til eins árs í senn. 

5.gr. 

Aðalfundur telst lögmætur ef löglega er til hans boðað samkvæmt 6.gr. 

6.gr. 

Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en í mars mánuði ár hvert. Aðalfundur er löglega boðaður ef boðað er til hans með tölvupósti til félagsmanna og með tilkynningu á heimasíðu félagsins með minnst 10 daga fyrirvara. Aukaaðalfund skal halda í félaginu ef stjórn félagsins telur ástæðu til, eða 50 félagsmenn óska þess. Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála, öðrum en þeim sem um ræðir í 8. og 9.gr. laga þessara.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

1. Fundarsetning

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

3. Skýrsla stjórnar

4. Reikningar félagsins

5. Skýrslur nefnda

6. Félagsgjald

7. Lagabreytingar

8. Kosning stjórnar

9. Kosning skoðunarmanna reikninga.

10. Önnur mál

Aðalfundur kýs heiðursfélaga að fengnum tillögum félagsstjórnar.

Á aðalfundi og öðrum fundum félagsins hafa allir félagar atkvæðisrétt.

7.gr. 

Stjórn félagsins fer með öll málefni félagsins á milli aðalfund og ræður starfsmenn félagsins. Formaður stjórnar fundum stjórnar, en ritari bókar 
fundargerðir. Stjórninni er skylt að boða til félagsfundar ef 15 félagsmenn eða fleiri óska þess. 

8.gr. 

Ef félagið hættir störfum skal það samþykkt á tveim lögmætum aðalfundum í röð með 3/4 greiddra atkvæða á hvorum fundi og ráðstafar þá síðari fundurinn eignum félagsins til vörslu hjá Skógræktarfélagi Íslands, uns myndaður verður að nýju félagsskapur í sveitarfélaginu með sambærileg hlutverk. Skulu þá eignirnar renna til þess félags. 

9.gr. 

Lögum þessum verður eigi breytt nema á löglegum aðalfundi með 3/4 greiddra atkvæða. Tillögur frá félagsmönnum um lagabreytingar skulu berast félagsstjórninni fyrir 1.febrúar eða í síðasta lagi 30 dögum fyrir aðalfund.

Lög Skógræktarfélags Kópavogs, samþykkt á aðalfundi félagsins 27 maí 2021.