Hermannsgarður í Guðmundarlundi

Gudml-loftm2009-4sm.jpg
 
 

Grein eftir Friðrik Baldursson, garðyrkjastjóra, birt í Garðyrkjuritinu 2009

Hermann Lundholm ætti varla að vera þörf á að kynna fyrir þeim félögum Garðyrkjufélagsins sem komnir eru til “vits og ára”, en þar sem alltaf eru að bætast við nýir félagar er rétt að stikla á stóru um þennan merka ræktunarmann.

Screen Shot 2018-01-01 at 9.07.08 PM.png

Hermann fæddist árið 1917 í bænum Springforbi á Sjálandi og nam garðyrkju í Danmörku. Hann kom til Íslands 1938 og settist hér að. Hermann starfaði við garðyrkju, m.a. í Mosfellsdal og Hveragerði en árið 1955 flutti hann í nýstofnaðan Kópavogskaupstað. Hann hóf störf sem garðyrkjuráðunautur bæjarins vorið 1958 og gegndi því starfi allt til ársins 1989 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Hermann var fyrsti garðyrkjumaðurinn sem ráðinn var til bæjarfélagsins og lengst af sá eini sem þar var starfandi.

Þegar Hermann hóf störf í Kópavogi var íbúafjölgun gífurleg og mikið um að vera. Auk garðyrkjustarfa sinna hjá bænum var Hermann óþreytandi að ráðleggja íbúum við garðrækt og hjálpa til. Hann hafði mikil áhrif til framfara í ræktunarmálum í Kópavogi. Það lá því beint við að Hermann varð einn stofnenda Skógræktarfélags Kópavogs árið 1969 og gegndi formennsku þar um skeið. Hann var alla tíð mjög virkur í félaginu.

Við heimili Hermanns að Hlíðarvegi 45 var sannkallaður grasagarður, þar sem hann var stöðugt að gera tilraunir með nýjar tegundir tré og runna, en þó aðallega fjölæringa. Fullyrða má að plöntusafn Hermanns hafi verið eitt hið stærsta í einkaeigu hérlendis. Þeir voru margir sem fengu plöntur hjá Hermanni ásamt góðum ráðum, en segja má að hann hafi verið það sem kallað er “gangandi alfræðibók” um allt það sem lýtur að garðyrkju og ræktun. Hermann var einn ötulasti fræsafnari Garðyrkjufélagsins og hafa margir félagar notið góðs af þeim störfum hans gegnum tíðina. Eftir hann liggur mikill fjöldi greina í blöðum og þó einkum Garðyrkjuritinu. Garður Hermanns Lundholm var einnig umfjöllunarefni lokaritgerðar Auðar Jónsdóttur garðyrkjufræðings árið 1998 og hefur hluti hennar birst í Garðyrkjuritinu.

Alpaþyrnir í garði Hermanns.

Alpaþyrnir í garði Hermanns.

Fyrir ræktunarstörf sín hlaut Hermann Lundholm fjölmargar viðurkenningar, bæði hjá Kópavogsbæ og ekki síður á sviði garðyrkjunnar á landsvísu. Hann var heiðursfélagi í Skógræktarfélagi Kópavogs, Skógræktarfélagi Íslands, Garðyrkjufélagi Íslands og í Trjáræktarklúbbnum.

Umhverfisráð Kópavogs veitti honum viðurkenningu þegar hann lét af störfum árið 1989 og aftur 1996 fyrir framlag hans til ræktunarmála í Kópavogi. Loks má geta þess að árið 2006 hlaut Hermann Lundholm heiðursverðlaun garðyrkjunnar, sem Garðyrkjuskólinn veitir, fyrir ævistarf sitt.

Screen Shot 2018-01-01 at 9.29.18 PM.png

Hermann lést vorið 2007 á nítugasta aldursári. Hann eftirlét Skógræktarfélagi Kópavogs gróður úr garði sínum og ákvað félagið að það safn yrði best komið í svokölluðum Guðmundarlundi á Vatnsenda, en það svæði hefur félagið til umráða. Kópavogsbær kom síðan inn í málið til aðstoðar og einnig Garðyrkjufélag Íslands og úr varð samstarfsverkefni þessara þriggja aðila. Þar sem til stóð að byggja á lóðinni við Hlíðarveg þurfti að koma gróðrinum þaðan og tíminn var skammur. Því var gripið til þess ráðs að stinga upp plöntur með góðum hnaus og koma þeim fyrir í gámum með mold til geymslu þar til hægt yrði að gróðursetja plönturnar aftur. Alls voru þannig teknir tæplega 6 gámar úr garði Hermanns. Ekki reyndist unnt að henda reiður á fjölda tegunda og yrkja sem fluttar voru en þær skipta væntanlega hundruðum. Plönturnar voru í geymslu í gámum veturinn 2007-2008 og virtust ekki hafa orðið meint af volkinu.

Screen Shot 2018-01-01 at 9.29.25 PM.png

Síðastliðinn vetur og fram á vor funduðu fulltrúar samstarfsaðilanna þriggja, þau Sigríður Jóhannsdóttir frá Skógræktarfélagi Kópavogs, Vilhjálmur Lúðvíksson frá Garðyrkjufélagi Íslands og Friðrik Baldursson frá Kópavogsbæ og komu sér saman um tilhögun verkefnisins, þar á meðal gerð garðsvæðis í Guðmundarlundi. Vinnuheitið varð fljótt “Hermannsgarður” og má segja að það nafn hafi fest sig í sessi. 

Screen Shot 2018-01-01 at 9.29.39 PM.png

Í aprílbyrjun hófust framkvæmdir við gerð garðsins samkvæmt meðfylgjandi skipulagstillögu. Garðyrkjufyrirtækið G.A.P. sf. sá um framkvæmdir undir stjórn garðyrkjustjóra Kópavogs, en verkið var kostað af Skógræktarfélagi Kópavogs og Kópavogsbæ.

Screen Shot 2018-01-01 at 9.29.51 PM.png

Þriðjudaginn 27. maí 2008 var síðan haldinn vinnudagur þar sem félagar úr skógræktarfélaginu og garðyrkjufélaginu auk starfsmanna garðyrkjudeildar Kópavogsbæjar komu saman og gróðursettu í Hermannsgarð. Vinnudagurinn hófst kl. 16 og lauk ekki fyrren upp úr kl. 22, þó fólk hafi gefið sér tíma til að snæða grillpylsur í matarhléi. Ætla má að allt að 50 manns hafa komið þarna að verki, um lengri eða skemmri tíma, enda fór svo að innihaldi allra gámanna sex var komið í beð það kvöldið. Viku síðar var annar vinnudagur, heldur styttri, þar sem unnið var að snyrtingu og frágangi. Fyrirhugað er að þessu samstarfsverkefni verði haldið áfram, þar sem ýmislegt er ennþá eftir að gera í Hermannsgarði, s.s. skipta plöntum, færa til og bæta við. Þá stendur einnig til að merkja þær tegundir sem í garðinum eru og setja þar upplýsingaskilti. 

Screen Shot 2018-01-01 at 9.42.13 PM.png