Skógræktarfélag Kópavogs er héraðsskógræktarfélag innan Skógræktarfélags Íslands.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands ( SÍ ) er haldinn að hausti til ár hvert. Á fundinum er kosið í stjórn félagsins, lagabreytingar afgreiddar þegar það á við og fjallað um margvísleg málefni sem snerta skógræktarfélögin í heild eða skógrækt almennt.
Fulltrúar frá Skógræktarfélagi Kópavogs sækja aðalfundinn og hafa þar bæði kjörgengi og kosningarétt.
Einstök skógræktarfélög skiptast á að vera gestgjafar fundarins og því er fundarstaður breytilegur milli ára. Gefur það skógræktarfélögunum tækifæri til að kynna starfsemi síns félags og fræðast um starfsemi annarra félaga. Aðalfundurinn er einnig mikilvægur félagslegur vettvangur, þar sem þátttakendum gefst kostur á að viðhalda og endurnýja kynni við gamla og nýja félaga innan skógræktarhreyfingarinnar.
Skógræktarfélag Kópavogs var síðast gestgjafi fundarins 2019.
Í ár verður aðalfundur Skógræktarfélags Íslands haldinn á Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024 og eru Skógræktarfélög Neskaupstaðar, Reyðarfjarðar og Eskifjarðar gestgjafar fundarins.
Nánari upplysingar um fundinn er að finna á eftirfarandi slóð https://www.skog.is/adalfundur-2024/