BIRKIFRÆTÍNSLA Í VATNSENDAHLÍÐ 4. OKT

Skógræktarfélag Kópavogs í samstarfi við Kópavogsbæ efna til birkifrætínslu þriðjudaginn 4. október í Vatnsendahlíð kl. 17.30-19.00.

Safnast verður saman við fræðslusetrið á Leiðarenda 3 í Guðmundarlundi þar sem stutt fræðsla fer fram um hvernig staðið skal að söfnun og sáningu birkifræja. Að fræðslu lokinni verður gengið út í skóg, spölkorn frá fræðslusetrinu og fræi safnað.

Fyrir alla fjölskylduna

Söfnun birkifræja er skemmtilegt fjölskylduverkefni. Börn hafa mjög gaman af því að tína fræ. Þau skynja mikilvægi þessa verkefnis afskaplega vel og eru fljót að tileinka sér vinnubrögð. Að tína birkifræ er holl og góð útivera og hreyfing en mikilvægt er að meta veður og klæða sig eftir því.

Að lokinni frætínslu má annað hvort skilja fræin eftir hjá Skógræktarfélaginu eða skila þeim í fræsöfnunarkassa í Bónusverslunum og Olís-stöðvum. Þeim fræjum sem safnað er verður sáð í örfoka land víða um land, meðal annars í upplandi Kópavogs. Þá getur fólk líka tekið fræið sitt með sér heim og síðan valið eigin svæði til sáninga.

Með því að klæða örfoka landsvæði birkiskógi stöðvast kolefnislosun og binding hefst í staðinn. Átakið snýr að bæði loftslags- og umhverfisvernd og er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám en þekur einungis 1,5% lands í dag. Markmið stjórnvalda er að birki vaxi á fimm prósentum landsins árið 2030. Það er í senn metnaðarfullt og mikilvægt starf að auka þekju birkiskóga og birkikjarrs í 5%. Það verður ekki auðvelt og því er mikilvægt að virkja sem flesta til þessa verkefnis.

Bakhjarlar verkefnisins eru Bónuss, Olís og Prentmet Oddi ásamt Skógræktinni og Landgræðslunni. Aðrir samstarfsaðilar eru Skógræktarfélag  Kópavogs, Kópavogsbær, Landvernd, Lionshreyfingin, Kvenfélagasamband Íslands, Skógræktarfélag Íslands og aðildarfélög þess og fleiri.

Leiðarlýsing að Guðmundarlundi á já.is.

Leiðarlýsing að Guðmundarlundi á Google Maps

Vefur Skógræktarfélags Kópavogs

https://birkiskogur.is/

BIRKIFRÆSÖFNUN Í HEIÐMÖRK 27. SEPT.

Þriðjudaginn 27. september kl. 17.30 – 19.00 efnir Skógræktarfélag Reykjavíkur til söfnunar birkifræja í Heiðmörk. Viðburðurinn hentar allri fjölskyldunni, ekki síst börnum sem gjarnan eru mjög áhugasöm um fræsöfnun. Í upphafi er stutt fræðsluerindi um fræsöfnun og sáningu í Smiðjunni viðarvinnslu félagsins.

NÁNARI UPPLÝSiNGAR ER AÐ FINNA Á SLÓÐINNI:  https://heidmork.is/birkifraesofnun-i-heidmork/

LANGDSÁTAK Í BIRKISÖFNUN AÐ HEFJAST

Skógræktarfélag Eyfirðinga ríður á vaðið og opnar formlega landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í söfnun og sáningu á birkifræi. Félagið býður fólki að koma í Garðsrárreit í Eyjafirði fimmtudaginn 22. september kl. 17 og tína þar fræ af birki. Verkefnastjóri átaksins verður með fræðslu um birkifræsöfnun og auðvitað verður alvöru skógarstemmning með ketilkaffi á könnunni og safa fyrir börnin.

SJÁ ÝTARLEGRI UMFJÖLLUN UM DAGINN OG VERKEFNIÐ Á SLÓÐINNI:  

https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/landsatak-i-birkifraesofnun-ad-hefjast

TRÉ ÁRSINS 2022 YFIR 30 METRA HÁTT

Sitkagreni var útnefnt tré ársins 2022 við hátíðlega athöfn á krikjubæjarklaustri 12. september. Tréð var gróðursett 1949 og mældist 30 metrar og fimmtán sentimetrar á hæð, en þetta í fyrsta skipti sem tré hefur mælst yfir 30 metrar hér á landi, frá því fyrir ísöld.

Forsætisráðherra fékk heiðurinn að því að mæla tréið en henni til halds og trausts var Björn Traustason, fagstjóri landupplýsinga á rannsóknasviði Skógræktarinnar.

Meira um þennan merka viðburð má lesa á vefsíðu Skógrækarinnar á slóðinni:  https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/haesta-tred-fra-thvi-fyrir-isold

FRÆÐSLUGANGA Í TRJÁSAFNINU Í MELTUNGU 16. SEPT

Kópavogsbær og Sögufélag Kópavogs hafa sl. áratug eða svo staðið fyrir fræðslugöngum víðsvegar um bæinn í námunda við dag íslenskrar náttúru þann 16. september, þó ekkert hafi orðið af þessum viðburði sl. tvö ár vegna Covid19. Á laugardaginn kemur, 17. september, verður þráðurinn tekinn upp að nýju og bæjarbúum og öðrum gestum boðið upp á fræðslugöngu um trjásafn Kópavogsbæjar í Meltungu, austast í Fossvogsdal, í leiðsögn staðkunnugra.

Gróðursetning í trjásafnið í Meltungu hófst fyrir 25 árum og er þar nú að finna um 1.200 tegundir og yrki trjáa og runna, margra sjaldgæfra, og er safnið orðið eitt stærsta sinnar tegundar hérlendis. Í trjásafninu er að finna þemagarða og -svæði, s.s. Rósagarðinn, Yndisgarðinn, Aldingarðinn, Sígræna garðinn, Aspaskóginn, garðlöndin o.fl. Sjón er sögu ríkari.

Lagt verður af stað frá bílastæðunum við austurenda Kjarrhólma kl. 13:00 og er áætlað að göngunni ljúki um kl. 15:00. Boðið verður upp á grillpylsur á staðnum að göngu lokinni.

VIÐ GRÓÐURSETJUM - ALMENNINGI ER BOÐIÐ AÐ TAKA ÞÁTT Í SKÓGRÆKT

Íbúum Kópavogs og öðrum áhugasömum er boðið að taka þátt í skógrækt

Á Degi íslenskrar náttúru, föstudaginn 16. september nk., verður útivistar- og fjölskyldudagur haldinn í samstarfi Skógræktarfélags Kópavogs og Kópavogsbæjar, þar sem hvatt er til hreyfingar, samveru og skógar- og náttúruupplifunar. 

DAGSKRÁ

Dagskrá dagsins hefst kl 17:00 þar sem safnast verður saman í Fræðslusetrinu í Guðmundarlundi í Leiðarenda 3 og verður heitt á könnunni. Fljótlega verður gengið út á Vatnsendaheiði undir leiðsögn og hugað að gróðri og sögu.
Á heiðinni verður horft til framtíðar og gróðursettar trjáplöntur í þágu aukinna lífsgæða.

Skógrækt er góð leið til að binda CO2 úr andrúmsloftinu til langs tíma en um leið er verið að stuðla að jarðvegsvernd. Sveppum og mordýrum í jarðvegi fjölgar, vatnsmiðlun eflist og skógurinn opnar nýja möguleika til útivistar svo eitthvað sé nefnt.
Að gróðursetningu lokinni verður farið til baka í Guðmundarlund.

*Athugið að þeir sem ekki treysta sér að ganga að Vatnsendaheiði en vilja taka þátt í gróðursetningu eða fylgjast með, þá er hægt að aka bifreið að gróðursetningarstaðnum.

Að lokinni formlegri dagskrá geta þátttakendur dvalið áfram í Guðmundarlundi og bardúsað við ýmislegt skemmtilegt, enda hefur lundurinn upp á margt að bjóða. Í lundinum er meðal annars 10 brauta frísbígolfvöllur, leiktæki og frábær 9 holu minigolfvöllur. Inni í miðjum Guðmundarlundi er Hermannsgarður, lítill og vinalegur blómagarður með steinbeðum, stígum og bekkjum og svo er það auðvitað skógurinn sjálfur sem býður upp á mikla möguleika til leikja og útivistar.

Fyrir þá sem ætla að taka hring á iðjagrænum minigolfvellinum þá má benda á að hver og einn verður að taka með sér eigin golfkylfur og -kúlur og það sama á við um frísbígolfvöllinn, fólk verður að koma með sína diska.

Fyrir þá sem ekki rata í Guðmundarlund er einfaldast að fara inn á https://ja.is/ og slá inn: Leiðarendi 3.

Úvistar- OG FJÖLSKYLDUDAGUR 5. júlí

Þriðjudaginn 5. júlí verður útivistar- og fjölskyldudagur haldinn í samstarfi Skógræktarfélags Kópavogs og Kópavogsbæjar þar sem hvatt er til hreyfingar, samveru og skóga- og náttúruupplifunar. 

DAGSKRÁ

Dagskrá dagsins hefst kl 17:00 þar sem safnast verður saman í Fræðslusetrinu í Guðmundarlundi í Leiðarenda 3 og verður heitt á könnunni. Fljótlega verður gengið upp á Vatnsendaheiði undir leiðsögn og hugað að gróðri og sögu.
Á heiðinni verður horft til framtíðar og gróðursettar plöntur í þágu aukinna lífsgæða.

Skógrækt er góð leið til að binda CO2 úr andrúmsloftinu til langs tíma en um leið er verið að stuðla að jarðvegsvernd. Sveppum og mordýrum í jarðvegi fjölgar vatnsmiðlun eflist og skógurinn opnar nýja möguleika til útivistar svo eitthvað sé nefnt.
Að gróðursetningu lokinni verður farið til baka í Guðmundarlund.

*Athugið að þeir sem ekki treysta sér að ganga upp og Vatnsendaheiði en vilja taka þátt í gróðursetningum eða fylgjast með þá er hægt aka bifreið að gróðursetningar stað.

Að lokinni formlegri dagskrá geta þátttakendur dvalið áfram í Guðmundarlundi og bardúsað við ýmislegt skemmtilegt enda hefur lundurinn upp á margt að bjóða. Í lundinum er meðal annars 10 brauta frísbígolfvöllur, leiktæki og frábær 9 holu minigolfvöllur. Inni í miðjum Guðmundarlundi er Hermannsgarður, lítill og vinalegur blómagarður, með steinabeðum, stígum og bekkjum og svo er það auðvitað skógurinn sjálfur sem bíður upp á mikla möguleika til leikja og útivistar.

Fyrir þá sem ætla að taka hring á iðjagrænum golfvellinum þá má benda á að hver og einn verður að taka með sér eigin golfkylfur og kúlur og það sama á við um frísbígolfvöllinn, að fólk verður að koma með sína diska.

Fyrir þá sem ekki rata í Guðmundarlund er einfaldast að fara inn á https://ja.is/ og slá inn Leiðarendi 3.

GRÓÐURSETNING Á LÍF Í LUNDI 27. JÚNÍ 2022

Mánudaginn 27. júní verður útivistar- og fjölskyldudagur haldinn í samstarfi Skógræktarfélags Kópavogs og Kópavogsbæjar undir merkinu Líf í lundi þar sem hvatt er til hreyfingar, samveru og skóga- og náttúruupplifunar. Viðburðurinn Líf í lundi verður nú haldinn í fimmta sinn og fer fram í kringum Jónsmessuna víða um land.

DAGSKRÁ

Dagskrá dagsins hefst kl 17:00 þar sem safnast verður saman í Fræðslusetrinu í Guðmundarlundi í Leiðarenda 3 og verður heitt á könnunni. Fljótlega verður gengið upp á Vatnsendaheiði undir leiðsögn og hugað að gróðri og sögu.

Á heiðinni verður horft til framtíðar og gróðursettar plöntur í þágu aukinna lífsgæða.

Skógrækt er góð leið til að binda CO2 úr andrúmsloftinu til langs tíma en um leið er verið að stuðla að jarðvegsvernd. Sveppum og mordýrum í jarðvegi fjölgar vatnsmiðlun eflist og skógurinn opnar nýja möguleika til útivistar svo eitthvað sé nefnt.

Að gróðursetningu lokinni verður gengið til baka í Guðmundarlund.

*Athugið að þeir sem ekki treysta sér að ganga upp og Vatnsendaheiði en vilja taka þátt í gróðursetningum eða fylgjast með þá er hægt aka bifreið að gróðursetningar stað.

Að lokinni formlegri dagskrá geta þátttakendur í Líf í lundi dvalið áfram í Guðmundarlundi og bardúsað við ýmislegt skemmtilegt enda hefur lundurinn upp á margt að bjóða. Í lundinum er meðal annars 10 brauta frísbígolfvöllur, leiktæki og frábær 9 holu minigolfvöllur.

Inni í miðjum Guðmundarlundi er Hermannsgarður, lítill og vinalegur blómagarður, með steinabeðum, stígum og bekkjum og svo er það auðvitað skógurinn sjálfur sem bíður upp á mikla möguleika til leikja og útivistar.

Fyrir þá sem ætla að taka hring á iðjagrænum golfvellinum þá má benda á að hver og einn verður að taka með sér eigin golfkylfur og kúlur og það sama á við um frísbígolfvöllinn, að fólk verður að koma með sína diska.

Fyrir þá sem ekki rata í Guðmundarlund er einfaldast að fara inn á https://ja.is/ og slá inn Leiðarendi 3.

FERÐ ELDRI BORGARA Í GUÐMUNDARLUND 15 JÚNÍ 2022

Félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi og Félag eldri borgara í Kópavogi efna til skemmtiferðar í Guðmundarlund fimmtudaginn 15. júní næstkomandi.   

Guðmundarlundur er afar vistlegt útivistarsvæði sem nýtur mikilla vinsælda almennings en svæðið hefur sterkt aðdráttarafl og hefur upp á margt að bjóða.
Gestgjafar í Guðmundalundi verða Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær sem taka á móti gestunum milli klukkan 14:00 og 16:00.  
Boðið verður upp á rútuferðir frá BOÐANUM, GULLSMÁRANUM og GJÁBAKKANUM kl. 13:30 og til baka rétt fyrir kl. 16. Fólk getur einnig komið í Guðmundalund á eigin vegum en til að finna lundinn er góð leið að fara t.d. inn á www.ja.is og slá inn Leiðarendi 3 og skoða kort.

Vegna veitinga þarf að skrá þátttöku í síðasta lagi mánudaginn 13. júní á eyðblöð í félagsmiðstöðvunum í Kópavogi eða með því að senda tölvupóst á febk@febk.is

Við skráningu þarf sérstaklega að taka fram hvort þátttakandi ætli að nýta sér rútuna eða koma sér í Guðmundarlund á eigin vegum.  

Þeir sem þurfa á hjólastólabíl að halda er bent á að panta sér far með fyrirvara hjá Ferðaþjónustu fatlaðra í síma 515 – 2720.

Glens og gaman hefur ætíð fylgt þessum góða hóp eldri borgara og sem fyrr mun verða boðið verður uppá léttar veitingar.

GUÐMUNDARLUNDUR MEÐ TUGI ÞÚSUNDA GESTA Á ÁRI - FRÉTT Í MBL

Frétt sem birtist í Mbl 3. júní 2022 rituð af Steinþóri Guðbjartsson steinthor@mbl.is Ljósmynd: Morgunblaðið/Hákon

Guðmundarlundur með tugi þúsunda gesta á ári - Nær 5.000 skráðir gestir í vikunni • Þörf á stærra svæði

Guðmundarlundur í Kópavogi er mjög vinsælt, um 11 hektara útivistarsvæði og þangað koma tugir þúsunda gesta árlega. „Við erum komin yfir þolmörk og í raun þyrftum við að stækka svæðið vegna vinsælda þess,“ segir Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs.

Guðmundarlundur í Kópavogi er mjög vinsælt, um 11 hektara útivistarsvæði og þangað koma tugir þúsunda gesta árlega. „Við erum komin yfir þolmörk og í raun þyrftum við að stækka svæðið vegna vinsælda þess,“ segir Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs.

Guðmundur H. Jónsson, þáverandi forstjóri BYKO, og fjölskylda gáfu Skógræktarfélagi Kópavogs, gamlan sumarbústað og skóg í leigulandi í eign Kópavogs í Stórabási í Vatnsendahlíð í Vatnsendalandi 1997 og fékk spildan nafnið Guðmundarlundur. Félagið hefur unnið markvisst að landgræðslu og skógrækt á svæðinu, en jafnframt stuðlað að aukinni fræðslu um það samfara uppbyggingu þess með útivist og afþreyingu í huga. Þar eru margir göngustígar, grasflatir, leiksvæði, níu holu minigolfvöllur, tíu brauta frisbígolfvöllur og grillaðstaða á þremur stöðum auk húsnæðis sem er meðal annars notað sem fræðslumiðstöð fyrir börn í grunnskólum Kópavogs. „Svæðið hefur vaxið og dafnað smám saman og er eitt allra besta og vinsælasta útivistarsvæðið landsins,“ segir Kristinn.

Regluleg aðsókn allt árið

Almenningur nýtir svæðið allt árið. Kristinn segir það vinsælt fyrir ýmis mannamót eins og til dæmis fyrirtækjasamkomur, fjölskyldudaga, afmæli og brúðkaup auk þess sem meðlimir í félagasamtökum séu tíðir gestir. Daglega í desember fyrir jólin standi jolasveinar.is fyrir leiksýningu, þar sem Grýlu, Leppalúða, Skjóðu og fleiri bregður fyrir í skóginum. „Í fyrra komu 10.000 gestir í skóginn í desember, annað eins í maí og þessa vikuna eru tæplega 5.000 skráðir gestir,“ segir Kristinn um aðsóknina.

Kristinn bendir á að Guðmundarlundur sé í raun hlið inn í Vatnsendaheiðina og áfram inn í Heiðmörk. „Þetta er sannkölluð útivistarperla í jaðri annarrar slíkrar.“ Grunnskólabörn í Kópavogi taki þátt í gróðursetningu í svonefndum Skólaskógum á hverju ári, skólakrakkar víðs vegar að af landinu komi á svæðið sér til skemmtunar og það iði af lífi og fjöri árið um kring. „Bikarmót fjallahjólreiðamanna í Breiðabliki fer fram í Vatnsendahlíðinni árlega og stjórnendur nota aðstöðuna okkar en þessu fylgir fjöldi keppenda, starfsmanna og áhorfenda, svo dæmi um viðburð sé tekið.“

Skógræktarfélag Kópavogs sér alfarið um svæðið og segir Kristinn mikla vinnu aðeins við að halda hlutum í horfinu. Stækkunarmöguleikar séu fyrir hendi. Lundurinn sé í tengslum við skóg fyrir ofan á Vatnsendaheiðinni og tvinna megi svæðin betur saman.

„Gríðarlegur fjöldi leitar í Guðmundarlund og Vatnsendaheiðina en þrátt fyrir það verða margir mjög hissa þegar þeir koma hingað í fyrsta skipti, og það kemur þeim á óvart hvað þetta er skemmtilegt svæði. Það hefur enda aðeins verið reifað hvort ekki sé kominn tími til að stækka Guðmundarlund og efla hann.“

 

Bikarmót í fjallahjólreiðum 19. maí

Bikarmót Breiðabliks í ólympískum fjallahjólreiðum verður haldið í Guðmundarlundi í Kópavogi fimmtudaginn, 19. maí 2022.

Um er að ræða braut sem liggur meðal annars um skógræktarsvæði skógræktar Kópavogs og er brautin sett upp í samráði og samvinnu við skógræktina. Í aðdraganda mótsins eru hjólarar beðnir um að fara varlega þegar þeir fara um skóginn í Guðmundarlundi þar sem hún liggur í gegnum frisbígolfvöll. Vinsamlegast takið því tillit til annarra sem eiga þar leið um. Þessum hluta brautarinnar verður síðan lokað á sjálfum keppnisdegi.

AÐALFUNDUR 2022

Ársskýrsla Skógræktarfélags Kópavogs flutt á aðalfundi 29. mars 2022

 

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs 2021 haldinn 27. maí að leiðarenda 3 í Guðmundarlundi.

Í stjórn félagsins sitja.

·         Þröstur Magnússon formaður

·         Kristján Jónasson varaformaður

·         Sigrún Óskarsdóttir gjaldkeri

·         Loftur Þór Einarsson ritari

·         Jón Ingvar Jónasson meðstjórnandi

·         Hrefna Einarsdóttir varamaður     

Kristinn H. Þorsteinsson er starfsmaður félagsins.

Haldnir 6 stjórnarfundir á starfsárinu.

Daginn fyrir aðalfundinn í maí 2021 mættu í Guðmundarlund yfir 50 manns, sumarstarfsmenn frá Kópavogsbæ á námskeið og til skráninga.

Sem fyrr voru komnir saman ólíkir einstaklingar og hópar á öllum aldri. Skólafólk flest í yngri kantinum og eldri einstaklingar frá mismunandi löndum og menningarheimum. Tungumálin sem ómuðu í Guðmundarlundi sumarið 2021 voru fjölbreytt. Um 90 manns voru við störf hjá skógræktarfélaginu yfir sumartímann. Margir entust út allt sumarið en aðrir voru stutt og um suma vissi maður varla hvort þau væru að koma eða fara.

Frá Sambýlinu í Dimmuhvarfi komu íbúar og tóku þátt í verkefnum í Guðmundarlundi.

Í samstarfsverkefni Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Kópavogs voru gróðursettar um 19.000 trjáplöntur í Landgræðsluskóga og uppgræðslu í Selfjall í Lækjarbotnum. Auk þess sem sáð var birkifræi í vesturfjall Selfjalls sem einnig ber heitið Selfjallsháls.

Sumarið 2020 var aðallega gróðursett í norðurhluta Selfjalls og að mestu í suð-austur hluta svæðisins í fjallinu. Þær plöntur komu illa undan vetri vorið 2021 sérstaklega barrviðurinn en birkiplönturnar sem voru flestar illa kalnar  höfðu þó lifandi brum rétt ofan við rótarhálsinn og verður fróðlegt að sjá hvernig þær plöntur koma undan vetri núna í vor. Frostlyfting var nánast engin enda borið að öllum plöntunum ýmist gras eða hrossaskítur til að verjast frostlyftingu en svæðið skilar öllum plöntum upp á yfirborðið ef ekki er borið að þeim.  

Í Lækjarbotnum voru felldar trjáplöntur með fram veginum inn á sumarhúsasvæðið sem voru farnar að trufla umferð með greinum sínum og snjósöfnun á vegi var talsverð yfir vetramánuðina. Hreinsað var til á um 1,3 km kafla og var farið um og yfir tvö metra út fyrir vegöxl. Öllum trjám og greinum var rennt í gegnum kurlara. Kurlið fór að hluta til í stíga og önnur verkefni í Guðmundarlundi en einnig var það notað á svæðinu.

Í Lækjarbotnum eru víða skógarreitir eða skógarteigar frá árunum eftir 1993 með trjám um og yfir 7. metra að hæð. Þéttleiki var og er orðin víðast hvar mikill og aðgengi um skógana sumstaðar erfiður. Umhirða trjáreitana í gegnum tíðina hefur verið lítil.  Skógarsvæðin í Lækjarbotnum eiga gegna því megin hlutverki að vera ákjósanlegur vettvangur til útivistar.  

Við grisjun var sá háttur hafður á fella ekki tré sem einhverja hluta vegna höfðu sérstöðu eins og vaxtarlag, fegurð eða vera fágæt tegund á svæðinu. Sumsstaðar fengu tré að standa  þétt saman og mynda eina heild en öðrum stöðum var grisjað vel eða eins vel og hægt er án þess að eiga í hættu að skógurinn falli um í veðrum. Nokkur tré eiga að fá að njóta sín sem stakstæð tré í framtíðinni. Þannig á að viðhalda fjölbreytileika í þéttleika skógarins enda hann ekki hugsaður til viðarframleiðslu.

Stefnt er að því að í framtíðinni hafi svæðið hátt útivistargildi í fögru umhverfi. Að grisjunni og kurlun komu fagmenn frá Trjáprýði en Þráinn Gíslason skógræktarnemi annaðist og stjórnaði trjáfellingar meðfram vegum. Sumarstarfsmenn drógu til efni og voru fagmönnum innan handar. Það er enn mikið verk óunnið á svæðinu meðal annars í grisjun og stígagerð. Greinar og bolir fallinna trjáa voru látnir liggja í skóginum þar sem þau rotna en það er gott fyrir lífið í skóginum því það eykur náttúrulega hringrás næringarefnanna og eflir vistkerfi svæðisins.

Skátaskáli Garðbúa í Lækjabotnum var leigður undir sumarstafsfólkið fyrir kaffiaðstöðu og reyndist það vel.

Í Selfjalli eru nokkur félagasamtök með reiti til gróðursetninga. Félögin eru Kiwansklúbburinn Eldey, Lionsklúbburinn Eir, Rótaraklúbburinn Borgir og Rótarýklúbbur Kópavogs , Sorotímistaklúbburinn og Útivist.

Þann 14. júní komu saman félagar í Kópavogsdeild Sorotimistaklúbbsins og gróðursettu 100 stk af stálpaðum potta-  og hnausplöntum af birki og reynivið í reitinn í tilefni af 100 ára árstíð alþjóðasambandsins. Kristinn H. Þorsteinsson og Þráinn Gíslason frá skógræktarfélaginu sáu um fræðslu og aðstoðuðu við gróðursetningar. Félagið gróðursetti fyrst í reitinn 1993 og er þar vaxinn upp fallegur skógarreitur.

Rótarýklúbburinn Borgir kom saman til gróðursetninga 27. maí og gróðursettu undir styrkri stjórn Guðríðar Helgadóttur garðyrkjufræðings. Þarna fóru niður fyrstu plönturnar en klúbburinn fékk reitnum úthlutað 2021.

Útivist fjölmenntu sem fyrr í Selfjall 8. september til gróðursetninga en klúbburinn fékk úthlutað reit vorið 2020.

Gróðursetning grunnskólabarna í Kópavogi er reglulegur þáttur í skólastarfinu en ár hvert fá þau plöntur úr Yrkjusjóði til ræktunar í Skólaskógum á Vatnsendaheiði. Settar voru niður um 1200 trjáplöntur í maí og júní undir handleiðslu Skógræktafélagsins. Sumarstarfsmenn báru áburð á allar plöntur í Skólaskógum.

Vatnsdropinn sem samstarfsverkefni Menningarhúsanna í Kópavogi, í Óðinsvéum í Danmörku og Haapsalu í Eistlandi fékk úthlutað reit á Vatnsendaheiði  haustið 2021. Hópur félaga komu saman undir stjórn Friðriks Baldurssonar og Svavars Sverrissonar og gróðursettu í reitinn bakkaplöntur. 

Gróðursetningar í Vatnsendaheiði hófust 1994. Víða voru tré farin að ganga inn á vegi og trufla umferð. Farið var um heiðina og meðfram öllum vegum og tré felld eða greinar fjarlægðar sem voru farin að skaga inn á vegi. Það þarf að að fara yfir allt svæðið í heild sinni í umhirðu,  gefa þeim trjám rými sem stefna í að hafa einhverja sérstöðu, grisja og fella á þann hátt að útivistagildi svæðisins eflist. Fyrirhugað er að fara í stígagerð á svæðinu og vonandi hefjast framkvæmdir sem fyrst.  Stígarnir verða unnir og lagðir með vélum en sumarstafsmenn skógræktarfélagsins ættu að nýtast í fínvinnunni í lokafrágangi. Hönnun stíganna var gerður fyrir 25 árum og bíða síns tíma.  

Guðmundarlundur er heimasvæði Skógræktarfélagsins, vistlegt útivistarsvæði sem nýtur mikilla vinsælda almennings en svæðið hefur sterkt aðdráttarafl og hefur upp á margt að bjóða.

Það var viðburðaríkur og ánægjulegur gróðursetningardagur á Líf í Lundi laugardaginn        26. júní á Vatnsendaheiði og í Guðmundarlundi.

Almenningi var boðið að taka þátt í gróðursetningum í Vatnsendaheiði og leggja sitt að mörkum í þágu samfélagsins. Kolefnisbinding með skógrækt er góð leið til að binda CO2 úr andrúmsloftinu til langs tíma en um leið er verið að stuðla að jarðvegsvernd. Sveppum og mordýrum í jarðvegi fjölgar, vatnsmiðlun eflist og skógurinn opnar nýja möguleika til útivistar svo eitthvað sé nefnt. 

Eftir gróðursetningar stóð þátttakendum til boða að slá inn árangur dagsins inn í kolefnisreiknivélina og meta þannig framlag sitt til umhverfismála.

En járnið skal að sjálfsögðu hamra á meðan það er heitt og því var blásið á ný til sóknar og dagskráin var endurtekin miðvikudagana 7. og 21. júlí. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við Skógræktarfélags Kópavogs og Kópavogsbæ og önnuðust Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri og Kristinn H. Þorsteinsson framkvæmdarstjóri fræðslu og leiðsögn.

Félagsmiðstöðvar eldri borgara og Félag eldri borgara í Kópavogi efndu til skemmtiferðar í Guðmundarlund fimmtudaginn 15. júlí.  Gestgjafar voru Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær sem tóku á móti gestunum milli klukkan 14:00 og 16:00 og buðu upp á léttar veitingar.  Formaður Skógræktarfélags Kópavogs Þröstur Magnússon, bæjarstjórinn í Kópavogi Ármann Kristinn Ólafsson og formaður Félag eldri borgara í Kópavogi Ragnar Jónason ávörpuðu gesti  sem voru hátt í 200. Leikarinn góðkunni Örn Árnason skemmti gestum og fékk viðstadda til að taka undir í söng svo undirtók í hlíðum. Eldri borgarar hafa óskað eftir að fá að sækja Guðmundarlund heim um miðjan júní í ár á svipuðum nótum og í fyrra.

Sunnudaginn 29. ágúst var haldið XCO bikarmót Breiðabliks í hjólreiðum. Brautin lá um Vatnsendahæð, að hluta til innan skógarins í Guðmundarlundi og við bílastæðin. Mótið tókst á allan hátt vel og kom Skógræktarfélagið að mótinu og aðstoðaði við gerð brautar. Miðstöð mótshaldara var í fræðslusetrinu að Leiðarenda 3 og voru Hrefna Einarsdóttir og Sigrún Óskarsdóttir frá skógræktarfélaginu mótshöldurum til aðstoðar. Sumarstarfsmenn hjá skógræktarfélaginu komu að vinnu við brautargerð og aðstoðuðu Breiðablik eins og kostur var.  Ákveðið hefur verið að næsta mót verði haldið síðla dags fimmtudaginn 19. maí.

Miðvikudaginn 22. september bauð Markaðsstofa Kópavogs til opinnar gönguferðar með upphaf og endi í Guðmundarlundi og var göngutími um 90 mínútur. Tilefnið var að kynna tillögur Markaðsstofunnar að merkingum á gönguleiðum í kringum Elliðavatn og út frá Guðmundarlundi í tengslum við verkefni sem Markaðsstofan er að vinna, að ósk ferðaþjónustuaðila í bænum. Einnig var gangan tengd við Evrópska samgönguviku sem stóð yfir dagana 16.-22. september. Kristinn H. Þorsteinsson frá skógræktarfélaginu veitti leiðsögn og í lok göngunnar bauð félagið upp á kaffi og meðlæti í húsakynnum Skógræktarfélagsins.

Ævintýri í Jólaskógi í Guðmundarlundi á aðventunni var haldið annað árið í röð. Dagskráin er tæplega klukkutíma löng sýning þar sem áhorfendur ganga í litlum hópum um skóginn í Guðmundarlundi, vopnaðir vasaljósum og hitta á ferðum sínum persónur úr jólafjölskyldu okkar Íslendinga, þau Grýlu, Leppalúða, jólasveinana og tröllasystkini þeirra. Þá var haldið jólatrjáaskemmtun í skóginum fyrir nokkra grunn- og leikskóla Kópavogs. Í fyrrasumar bjó skógræktarfélagið til sérstakt rjóður inni í skóginum og var jólatré staðsett í miðju rjóðurins ljósum prýtt. Var mikil ánægja með þetta fyrirkomuleg en inni í skóginum ríkir betra veðurfar þegar utan hans blása kaldir vindar.  Hátt í 10.000 manns komu í Guðmundarlund í desember og nutu lífsins.

Það er annasamt að reka útivistasvæði spölkorn frá þéttbýlinu og ekki alltaf tekið út með sældinni. Þegar veður er gott eða í það minnsta sæmilegt og ekki snjóskaflar til að klofa yfir þá eru nánast allaf einhverjir sem gera sér glatt kvöld eða glaða nótt í Guðmundarlundi um helgar og oft gerist það í friði og ró. Undanfarin tvö ár hefur það færst í vöxt svo um munar að ungt fólk stefni sjálfum sér og öðrum í Guðmundarlund til gleðskapar og þá einkum þegar vorar. Vinsældir Guðmundarlundar hjá skólafólki náði nýjum hæðum síðastliðið vor.  Eða eins og segir í skýrslu lögreglu þann 20. maí 2021 ( Tilvitun hefst ) „ Lög­regl­an fékk til­kynn­ingu um fjöl­mennt ung­linga­sam­kvæmi í Guðmund­ar­lundi í Kópa­vog­in­um skömmu fyr­ir miðnætti í gær. Talið er að um 200 ung­ling­ar hafi verið á svæðinu og marg­ar bif­reiðar.“ ( tilvitnun lýkur )

Ef þetta hefði verið eina samkvæmið þá hefði maður mátt vel við una. En það var ekki því allar helgar frá miðjum apríl og fram í júní  á síðasta ári voru þéttsetnar af ungu fólki, krökkum á grunnskólaaldri upp í fullorðna einstaklinga sem ráfuðu hér um sumir blindfullir og eða dópaðir, mölvandi flöskur, brjótandi borð eða salerni og ælandi út um allan skóg. Þegar fjöldinn er farinn að skipta fleiri tugum eða hundruðum hefur lögreglan lítið í fjöldann að gera. Hún getur einungis staðið hjá og verið sýnileg.

Árrisulir gestir Guðmundarlundar, einstaklingar, fjölskyldur eða hópar eiga að getað komið í lundinn til að njóta útivistar án þess að þurfa rótast hér í tómum vínflöskum og munntóbakspúðum. Það er gríðaleg vinna sem felst í því að halda svæðinu hreinu. En til þess að það gerist hafa fulltrúar skógræktarfélagsins mætt hér eldsnemma að morgni til að fara yfir svæðið og þrífa það og gera við. Það er ekki alltaf sem aðkoman er slæm en allof oft.

Tekin var saman tímafjöldi sem fór í að halda svæðinu hreinu um helgar og á rauðum dögum á árinu 2021. Það voru 300 klukkutímar eða sem samsvarar 40 dögum sem félagar lögðu á sig að vakna hvern einasta frí dag ársins fyrir utan 25. desember og fara um svæðið í sjálfboðavinnu. Þó færri tímar verði á þessu ári vegna ófærðar og veðra þá má reikna samt með 250 – 260 klukkustundum. Menn þreytast og gefast upp. Ef Guðmundarlundur er ekki vaktaður á þennan hátt mun hann einfaldlega falla af stalli og einstaklingar, fjölskyldur og hópar leita annað.

Á síðastliðnu ári fór mikil orka í að lagfæra það skemmt var og er það miður. Það sem var öllu skemmtilegra voru allar þær nýframkvæmdir og eðlilegar viðhaldsframkvæmdir. Af því helsta sem nefna má er að lagt var nýtt rafmagn í geymslugáma félagsins okkar og tenglar og ný ljós sett upp. Þá var lagt rafmagn út í lundinn og settir upp vandaðir rafmagnskassar  annars vegar hjá gerðinu þar sem jólatrjáaskemmtanir fóru fram í vetur og hinsvegar við grillhúsið. Lagfært var rafmagn í Nýja húsinu. Þá var lagt vatn frá brunni og að Grillhúsi sem kemur til með að auðvelda öll þrif í og kringum grillhúsið. Áfram var unnið við stígagerð í skóginum og settar niður um 300 runnaplöntur í skógarbotninn. Jarðvegskipti voru framkvæmd í kringum nokkrar körfur á Frisbígólfvellinum en vegna ásóknar þá hafði myndast moldarflag við körfurnar og í moldarinnar stað var sett grús. Þá voru borð og bekkir lagfærðir eins og kostur var en þar sem mikið var um skemmdir á árinu og fækkaði borðum og bekkjum verulega.  Gamla húsið krafðist talsverts viðhalds og spurning hversu lengi það hangir uppi eða hvenær verður stigið niður úr gólfinu. Öll leiktæki fyrir utan þau nýju sem sett voru niður í fyrra eru ekki upp á marga fiska en verða endurnýjuð fljótlega því þau fengu náð í augum verkefnisins Okkar Kópavogur.  Það var í fjórða sinn núna í vetur sem íbúar í Kópavogi gátu kosið inn verkefni sem voru hugmyndir bæjarbúa.  

Það eru þrjú verkefni sem koma til framkvæmda í ár eða á næsta og snerta starfsemi okkar. Fyrst er þar að nefna að leiktæki verða sett upp í Guðmundarlundi,  Þá verður gerður malarstígur á milli Boðaþings og Guðmundarlundar og setja á niður ruslatunnur í hverfinu  og ekki óeðlilegt að einhverjar verði settar niður í Guðmundarlundi þar sem ætla má að fá útivistasvæði í Kópavogi njóti sömu vinsælda og Guðmundarlundur hvað fjölda varðar. 

Gras á flötunum í Guðmundarlundi kom ekki vel undan vetri og var kalið á stórum svæðum. Hafist var strax handa að vori við viðgerðir, flatirnar rakaðar, losað um svörðinn, sáð og borið á. Var þetta gert þrisvar sinnum yfir sumarið en grasið átti mjög erfitt uppdráttar vegna gífurlegrar aðsóknar gesta í Guðmundarlundi. Þetta gerist árlega enda liggur vatn og ís yfir stórum hluta svæðisins talsverðan tíma ár hvert og gras kafnar. Aukin umferð gesta um Guðmundarlund þýðir aukið álag. Við erum á þolmörkum og þurfum að horfast í augu við það.

Fossá í Hvalfirði er skógræktarjörð sem Skógræktarfélag Kópavogs á til helminga á móti Skógræktarfélögum í Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjósarhreppi en þau félög skipta á milli sín hinum helmingi jarðarinnar. 

Ár hvert er félagsmönnum skógræktarfélaganna sem og öðrum boðið að mæta um tvær helgar í desember og höggva eigið jólatré gegn sanngjörnu gjaldi. Skógræktarfélag Kópavogs hefur mannað aðra helgina á móti hinum félögunum. Þá hafa félagsmenn Skógræktarfélags Kópavogs fellt hærri tré og eru þau meðal annars seld til Kópavogsbæjar sem torgtré. Fyrir síðastliðin jól voru engin torgtré felld á Fossá, Þau voru tekin í Lækjarbotnalandi.

Eins og fram hefur komið áður þá tóku Skógræktin og Landgræðslan árið 2020 höndum saman og óskuðu eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins. Skógræktarfélag Kópavogs tók verkefnið að sér að ósk Skógræktarinnar og Landgræðslunnar, sjá um fræðslu og taka á móti fræi og annast dreifingu þeirra bæði í þau lönd sem félagið hefur aðgang að eða koma þeim í hendur annarra í öllum landshlutum. Í apríl mánuði 2021 var starfsmaður Skógræktarfélags Kópavogs tilbúinn að hefja fræðslu á sviði umhverfismála þar sem megin áherslan væri lögð á jarðvegsvernd, endurheimt vistkerfa og kolefnisbindingu með birki og kynningu á verkefninu Landsátak í söfnun og sáningu birkifræja.
Vegna takmarkana á skólastarfi riðlaðist margt og starfsemin hefur farið hægar af  stað en fyrirhugað var.
Í lok maí fór fram fræðsla í grunnskólanum á Laugarvatni, myndræn og verkleg.
Vinnuskóli Kópavogs fékk myndræna og verklega kennslu seinni part júnímánuðar og fram í
júlí. Kennarar í Borgarholtskóla, félagar í Lions í Kópavogi og á Akranesi sem og starfsfólk
Íslandsbanka og Tempo ehf nutu fræðslu í september. Á Landsþingi Kvenfélagasambands
Íslands (KÍ) í október gafst tækifæri á að kynna Landsátakið.
Í samstarfi við Kvenfélagasambands Íslands og Lions er verið að undirbúa heimsóknir á fundi klúbba sem víðast á landsbyggðinni og kynna verkefnið og hvetja félagsmenn að taka þátt í þessu fjöldskylduverkefni að „Safna og sá“
Þótt farsóttin hafi vissulega sett strik í reikningin mun Skógræktarfélagið halda sínu striki og
vinna að því að koma inn fræðslu sem víðast. Skógræktarfélagið er í sambandi við nokkra skóla sem áhuga hafa á að tengjast verkefninu þegar horfir til betri tíðar og samstarf félagsins við Kvenfélagasambandið og Lions ætti að opna okkur leið til að efla verkefnið sem fjölskylduverkefni.

Á árinu bart félaginu gjafir frá vinum og fjölskyldu Hauks Hannibalssonar í tilefni af 80 ára afmæli hans. Haukur var ötull skógræktarmaður og félagi í Skógræktarfélagi Kópavogs. Hann var einn af frumherjum skógræktar á Fossá og lagði landinu lið, komandi kynslóðum til heilla. Stjórn Skógræktarfélagsins í samvinnu við fjölskyldi Hauks ákvað að gróðursetja myndarlegt reyniviðatré og setja við hlið þess skjöld með nafni Hauks og upplýsingar um framlag hans til skógræktar.  Tréð verður gróðursett með viðhöfn í sumarbyrjun.

Þá komu gjafir frá vinum og fjölskyldu Helgi Hálfdánardóttur ekkju Guðmundar Jónssonar í BYKO og vvar ákveðið að lagfæra umhverfið í kringum styttu Guðmundar í Guðmundarlundi, helluleggja og setja upp bekk. Verður það gert í sumar.

Óvenju snjóléttur, hlýr og þurr vetur var allt árið 2021 sem gerði það að verkum að flest alla daga var hægt að spila frisbígolf eða minigolf á iðgrænum golfvellinum þó vetur væri. Vöxtur gróðurs almennt var góður yfir sumartímann og haustið hagstætt fyrir plöntur að þroskast.

Í byrjun febrúar síðastliðinn tók að snjóa á höfuðborgarsvæðinu að einhverju marki. Hvert óveðrið á fætur öðru dundi yfir og hefur verið meira og minna ófært í Guðmundarlund í rúman mánuð.  Þetta sýnir að erfitt verður að halda úti leigu í nýja húsinu eins og hugur manna stóð til og þarfnast því rekstur húsnæðisins endurskoðunnar.

Sem fyrr fór margt öðruvísi en vonir stóðu til vegna Covid. Þegar við horfum hugsanlega fram á nýja og betri tíma er lag að hrista rykið af hugmyndum og bretta upp ermar. Það er að mörgu að huga og vonandi gefst tækifæri á að efla félagsstarfið, fjölga viðburðum og efla fræðslu til félagsmanna sem og til annarra Kópavogsbúa. Samstarf við Kópavogsbæ sem er skógræktarfélaginu mikilvægt hefur verið einstaklega gott og stöndum við núna í viðræðum um áframhaldandi samninga.

Stjórn og starfsmaður félagsins þakka öllum þeim sem lagt hafa starfsemi skógræktarfélags Kópavogs lið á einn eða annan hátt.

 

============================================

Fossárfélag

Aðalfundur fyrir árið 2021 hefur ekki verið haldinn og reikningar liggja ekki fyrir. Á siðasta aðalfundi sem haldinn var 15. september 2020 var gert grein fyrir fulltrúum eiganda í stjórn félagins.

Stjórn félagsins er þannig skipuð frá aðalfundi 2020.

Frá skógræktarfélagi Kópavogs

Kristinn H. Þorsteinsson – formaður

Kristján Jónasson - varaformaður

Karl M. Kristjánsson – ritari

Frá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar:

Bjarki Þór Kjartansson – gjaldkeri

Frá Skógræktarfélagi Kjósahrepps:

Kristján Oddsson – meðstjórnandi

Skógræktarfélagi Kjalnesinga tilnefndi engan í stjórn á aðalfundi 2020

Jólatrjáasala fór fram dagana  4. desember og aftur 11. og 12. desember milli kl 11:00 og 15:00. Þann 5. Desember féll jólatrjásala niður vegna aftakaveðurs. Sem fyrr og stóðu félagar vaktina tvær helgar. Skógræktarfélag Kópavogs annaðist sölu trjáa aðra helgina en hin félögin deildu með sér hinni helginni. Gekk salan þokkalega.

Skógræktarfélag Kópavogs hefur tekið torgtré fyrir Kópavogsbæ á Fossá undanfarin ár en það varð viðsnúningur á árinu 2020 því þá fækkaði töku trjáa að Fossá umtalsvert og 2021 voru engin tré tekin. Skógræktarfélag Kópavogs tók flest sín tré í Lækjarbotnum.

Sótt var um styrk til plöntukaupa í Vorvið og var félaginu úthlutað 450 þúsund krónur. Plöntur komu frá Landgræðsluskógum 6500 stk og voru gróðursettar voru um 8000 plöntur á Fossá síðast liðið haust.

Markaðsstofu Vesturlands vann að því síðastliðið sumar við það að GPS trakka gönguleiðir á Vesturlandi og meðal annars á Fossá. Sótt var um að markaðsetja gönguleiðir og setja inn upplýsingar inn á kort. Var það samþykkt Eigendur jarðarinna veiti sitt samþykki með þeim fyrirvara að kortlagning hafi ekki áhrif á notkun slóða og vega á jörðinni. Karl M. Kristjánsson oddiviti sveitarinnar fylgir þessu máli eftir.

Það er að ýmsu sem þarf að huga vegna reksturs Fossár og mun formaður Skógræktarfélags Kópavogs ræða þau mál í erindi seinna í kvöld.

Fh. Fossá, Skógrækrafélags

Kristinn H. Þorsteinsson formaður.

DAGSKRÁ AÐALFUNDAR 29. MARS 2021

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs boðar til aðalfundar félagsins sem haldinn verður þriðjudaginn 29. mars 2022,  kl 20:00 í Guðmundarlundi, Leiðarenda 3 í Kópavogi.

 

Á dagskrá fundarins er:

1. Fundarsetning

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

3. Skýrsla stjórnar

4. Reikningar félagsins

5. Skýrslur nefnda

6. Félagsgjald

7. Lagabreytingar

8. Kosning stjórnar

9. Kosning skoðunarmanna reikninga

10. Önnur mál

 

Strax að loknum aðalfundi flytja Kristinn H. Þorsteinsson framkvæmdarstjóri og Þröstur Magnússon formaður Skógræktarfélags Kópavogs erindi í máli og myndum sem þeir nefna "Góður grunnurbyggja á til framtíðar"

AÐALFUNDUR SKÓGRÆKTARFÉLAGS KÓPAVOGS 29. MARS 2022

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs hefur ákveðið í ljósi núverandi stöðu í samfélaginu að boða til aðalfundar þriðjudaginn 29. mars 2022.

Komi upp sú staða að sóttvarnaraðgerðir verði hertar á ný áskylur stjórn Skógræktarfélags Kópavogs sér rétt til að fresta aðalfundi með stuttum fyrirvara.

 Dagskrá fundarins verður auglýst er nær dregur.

 Með kveðju

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs

Ævintýri í Jólaskógi

Ævintýri í Jólaskógi er í Guðmundarlundi á aðventunni, annað árið í röð.

Ævintýri í Jólaskógi er tæplega klukkutíma löng sýning þar sem áhorfendur ganga í litlum hópum um skóginn í Guðmundarlundi, vopnaðir vasaljósum og hitta á ferðum sínum persónur úr jólafjölskyldu okkar Íslendinga, þau Grýlu, Leppalúða, jólasveinana og tröllasystkini þeirra.

Nánari upplýsingar er að finna á slóðinni https://tix.is/is/event/12105/-vintyri-i-jolaskogi-vasaljosaleikhus/

 

HÖGGVIÐ YKKAR EIGIÐ JÓLATRÉ – FJÖLSKYLDUSTUND Í SKÓGINUM.

Jólatrjáasala verður á Fossá í Hvalfirði tvær helgar í desember þ.e
laugardaginn 4. og sunnudaginn 5. desember og aftur 11. og 12. desember milli
kl 11:00 og 15:00

Einstaklingum sem og starfsmannafélögum eða öðrum hópum gefst nú, eins og undanfarin ár, frábært tækifæri til að koma að Fossá í Kjós og ná sér í jólatré.  

Jólatré sem seld eru að Fossá kosta aðeins 6.500 allt að 2,5. metrum.

 Þegar komið er að Fossá er hægt að fá lánaða sög og leiðbeiningar starfsfólks um hvar megi sækja tré og hvernig skuli bera sig að. (Þeir sem eiga góða sög eru hvattir til að taka hana með sér).

Þegar tréð hefur verið valið og fellt stendur til boða aðstoð við að pakka trénu inn í net sé þess óskað.  Hægt er að greiða fyrir tréð/ trén hvort sem er með peningum, korti eða leggja beint inn á reikning.

Öll vinna við sölu trjánna er unnin í sjálfboðavinnu og er afrakstur sölunnar notaður til að gróðursetja fleiri tré á Fossá og styrkja svæðið enn frekar sem útivistarsvæði. 

 Skógurinn að Fossá er opinn skógur og öllum velkomið að njóta hans árið um kring.

Hvernig kemst ég að Fossá?

Jörðin Fossá er frekar innarlega í Hvalfirði. Beygt er af Vesturlandsveginum inn í Hvalfjörð að sunnanverður, skammt frá Hvalfjarðargöngunum.

Leiðin liggur inn Hvalfjörðinn og er farið yfir Laxá,  framhjá Hálsi í Kjós , Hvammsvík, og Hvítanesi þar sem gamla Bretabryggjan hangir enn uppi.

Næsta jörð við Hvítanes er Fossá og er svæðið vel merkt þegar komið er að.

Allir eru velkomnir í ævintýraland jólatrjánna að Fossá.

Nánari upplýsingar er hægt að fá í gegnum síma 839-6700 eða í gegnum netfangið skogkop@gmail.com