Fréttir og aðalfundur

Komið er nýtt ár og fyrsti mánuður ársins að baki.  Við sitjum enn föst í viðjum Covid en horfum fram á bjartari tíma.

Í bréfi til félagsmanna sem sent var í tölvupósti 22. desember síðastliðinn nefndi ég meðal annars að Það hefði ekki ríkt nein lognmolla hjá Skógræktarfélaginu í desember og Guðmundarlundur hafði verið bókstaflega fullur af fólki út úr hliði dag eftir dag. Við lögðumst í þá vinnu að skrá og fylgjast með umferð fólks um lundinn í desember og niðurstaðan var sú að við vitum með fullri vissu að um 6500 manns komu í Guðmundarlund þann mánuð og höfum sterkan grun um að við þá tölu megi bæta vel yfir 1000 manns.  Þá eru ótaldir þeir aðilar sem nýta sér Vatnsendaheiðina ofan Guðmundarlundar til útivistar. Í sumar var aðsókn gífurleg hvern dag frá morgni og fram á kvöld en síðan dróg mikið úr mannaferðum í september þegar faraldurinn reis upp aftur enda öllum brugðið. Það stóð ekki lengi því jafnt og þétt snéri fólk til baka þegar á leið og aðsóknin jóks aftur dag frá degi.  

Það er auðvelt að stunda útiveru og bæta lýðheilsu í Guðmundarlundi þó margir séu í lundinum á sama tíma. Svæðið hefur sterkt aðdráttarafl enda hefur það upp á margt að bjóða. Það væri fróðlegt og áhugavert að setja upp teljara til talningar á fólki og ökutækjum við Guðmundarlund en slíkar talningar hjálpa mikið til við skipulag og vinnu við svæðinu þegar fjöldinn er orðin eins mikill og raun ber vitni.

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs

Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í samfélaginu vegna COVID-19 veirunnar hefur stjórn Skógræktarfélags Kópavogs tvisvar þurft að fresta aðalfundi félagsins. Fyrst átti að halda hann hann í lok mars 2020 en eðlilega var honum frestað. Síðan var stefnt  á að boða til aðalfundar í september en það gekk ekki eftir.  Nú hefur stjórn Skógræktarfélagsins ákveðið að reyna að halda tvo aðalfundi hvor á eftir öðrum sama dag í lok marsmánuðar. Hvort það gengur veit engin en fundurinn verður boðaður formlega með minnst 10 daga fyrirvara eins og lög félagsins kveða á um en þó ekki fyrr en reglur um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk verða ásættanleg.

Með kveðju

Kristján Jónasson

Formaður stjórnar Skógræktarfélags Kópavogs

Mikill fjöldi gesta heimsækir Guðmundalund daghvern

Mikill fjöldi gesta heimsækir Guðmundalund daghvern