Heiðarból
Skógræktarsamstarf Ferðafélagsins Útivistar og Skógræktarfélags Kópavogs
Ferðafélagið Útivist hefur tekið reit í fóstur á Selfjalli í Kópavogi, nánar tiltekið í Lækjarbotnum. Hugmyndin er að vinna að fjölbreyttri landgræðslu og gróðurrækt á svæðinu, setja upp bekki og fegra svæðið á annan hátt en það mun í framtíðinni nýtast félögum í Útivist, auk gesta og gangandi.
Þetta verkefni er tilkomið vegna fjárgjafar Jóns Ármanns Héðinssonar til félagsins, sem áformað er að nýtist til skógræktar og fegrunar lands. Fyrir tilstilli þessa ánægjulega framlags Jóns Ármanns hefur verið komið á samstarfi við Skógræktarfélag Kópavogs.
Reiturinn er í suðurhlíð Selfjalls sem er milli Heiðmerkur og Sandfells. Þar stóð um áratuga skeið skáli sem var í eigu ferðafélagsins Farfugla meðan það var og hét og kallaðist Heiðarból og er ætlunin er að halda því nafni um þennan reit.
Til stendur að hefja vinnu í Heiðarbóli sunnudaginn 20. september nk. En þá ætla félagar í Útivist að fjölmenna og kynna sér svæðið, huga að skipulagningu til framtíðar og gróðursetja þar trjáplöntur.
Safnast verður saman við Waldorfskólann í Lækjarbotnum kl. 11:00 og þaðan verður gengið upp og yfir Selfjall að Heiðarbóli.
Kristinn H. Þorsteinsson frá Skógræktarfélagi Kópavogs tekur á móti göngufólki með skóflur og trjáplöntur og verður félögum til handleiðslu.
Að gömlum og góðum sið verður boðið uppá kaffi og kleinur.