Ágæti félagi
Nú eru birkisöfnun og birkisáningar í Selfjalli að baki þetta árið. Vetur hefur gengið í garð og nýjar áherslur í starfsemi Skógræktarfélags Kópavogs litið dagsins ljós.
Það hefur ekki ríkt nein lognmolla hjá Skógræktarfélaginu í desember. Guðmundarlundur hefur bókstaflega verið fullur út úr hliði dag eftir dag.
Sett var upp ljósum skreytt jólatré á flötina í Guðmundarlundi fyrir fyrstu helgi í aðventu og hundruð skólabarna hafa sótt lundinn heim, dansað í kringum jólatréð og sungið jólalög með Bólu og jólasveinunum svo undir tók í fjöllum.
Grýla, Leppalúði, Skjóða og Hurðaskellir færðu Kópavogsbúum og öðrum landsmönnum jólaandann á silfurfati og leikritið Ævintýrið í Jólaskógi hefur sannarlega slegið í gegn því hundruð gesta, ungir sem aldnir hafa lagt leið sína í Guðmundarlund til að upplifa skemmtilega jólastemningu og ævintýri sem sannarlega mun lifa í minningunni.
Um leið og klaka leysti á mini-gólfvellinum birtust kylfingar á öllum aldri og slógu bolta eins og enginn væri morgundagurinn. Frisbí gólfarar hafa ekki látið sig vanta en þeir mæta snemma á morgnana og hætta seint á kvöldin því myrkrið truflar ekki þeirra leik.
Fyrir nokkrum dögum voru tekin í notkun falleg og barnvæn leiktæki og hafa börnin sannarlega tekið þessum tækjum fagnandi en þau styrkja enn frekar svæðið sem útivistar og leiksvæði.
Aðrir mæta í Guðmundarlund í þeim tilgangi að anda að sér fersku heiðar loftinu, njóta trjánna og mannlífsins og ganga um eða skokka til að auka hreysti og vellíðan.
Í Hvalfirði á jörðinni Fossá þar sem Skógræktarfélagið vinnur að skógrækt var almenningi að venju boðið uppá að mæta og leita sér að jólatré og til að höggva. Þessi fjölskyldustund í skóginum hefur mælst vel fyrir og lögðu fjölmargir leið sína að Fossá. Á Fossá eru merktar gönguleiðir en svæðið býður upp á mikla útivistarmöguleika og þess virði að leggja leið sína þangað árið um kring.
Jólahátíðin er að ganga í garð, hátíð ljóss og friðar. Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs og starfsmaður þakkar gott samstarf og velvild á árinu og hlökkum til að takast á við verkefni ársins 2021.
Við óskum þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Með kveðju
Kristján Jónasson, formaður skógræktafélags Kópavogs.