Landsátaki í söfnun birkifræs 2020 hefur gengið mjög vel. Það kom strax í ljós að fjölmargar fjölskyldur sameinuðust um að leggja málefninu lið og safna fræi og stunda um leið holla og góða útiveru.
Formlega lauk birkifræsöfnunarverkefninu í lok október þetta haustið og voru þá allar söfnunartunnur sem staðið hafa í Bónusverslunum síðan um miðjan september teknar niður.
En það eru ekki allir einstaklingar og fjölskyldur á því að verkefninu sé lokið þetta haustið því enn er okkur að berast fræ enda hanga reklar víða á birkitrjám þó þeim hafi fækkað mikið að undanförnu og munu sennilega hverfa af trjánum næstu daga.
Skógræktarfélag Kópavogs tekur við öllu fræi og er hægt að ná sambandi við félagið í gegnum síma 839-6700 eða senda tölvupóst á skogkop@gmail.com
Landgræðslan og Skógræktin hófu leikinn í landsöfnun á birkifræi og kölluðu að borðinu fjölmarga aðila við skipulagningu og stjórnun aðgerða. Skógræktarfélag Kópavogs og Kópavogsbær voru meðal þeirra sem svöruðu kallinu og í góðri samvinnu var góðu verki skilað.
Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs vill þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóg við söfnun og sáningu. Þátttaka almennings er lykillinn að þeim góða árangri sem náðist.
Með kveðju
stjórn Skógræktarfélags Kópavogs
10 nóv 2020