Hvaða eiginleika hafa kjötmjölskögglar sem áburður?

Kjötmjöl það sem framleitt er hér á landi er í raun kjöt- og beinamjöl. Mjölið er framleitt úr bæði sláturúrgangi og beinum stórgripa og sauðfjár. Í svarinu verður mjölið kallað kjötmjöl til einföldunar.

Efnainnihald og leysni

Í kjötmjöli er að finna helstu næringarefni sem plöntur þurfa til vaxtar í hentugum hlutföllum, það er nitur (N) ~ 8%, fosfór (P) ~ 5% og kalín (K) ~ 0,5%. Kjötmjölið inniheldur á bilinu tífalt til fimmtánfalt niturinnihald miðað við húsdýraáburð, en um þriðjung af nitri miðað við algengan, auðleystan kemískan túnáburð.

Kjötmjöl er seinleystur áburður og sjást skýr áburðaráhrif á grasvexti þar sem hann hefur verið notaður á uppgræðslusvæðum í að minnsta kosti þrjú ár, mest á öðru ári. Áhrifin vara þó mun lengur og virðist mjölið duga til að breyta illa grónu landi í gróið land. Mjölið hefur yfirleitt verið notað í duftformi en á síðustu árum hafa kögglar verið búnir til úr mjölinu til að auðvelda dreifingu þess, til dæmis á golfvelli. Þess ber að geta að hefðbundinn „kemískur“ túnáburður er auðleysanlegur og nýtast næringarefnin úr slíkum áburði því að langmestu leyti fyrsta sumarið.

Kjötmjölið hefur yfirleitt verið notað í duftformi en á síðustu árum hafa kögglar verið búnir til úr mjölinu til að auðvelda dreifingu þess, til dæmis á golfvelli.

kjotmjol_litil_130812.jpg

Áhrif á jarðveg

Kjötmjöl er fremur kalkríkt og hefur ekki sýrandi áhrif á jarðveg eins og sumar gerðir af tilbúnum áburði hafa. Jafnvel er rætt um að kjötmjöl geti nýst erlendis sem eins konar kölkun á súrum jarðvegi, það er til að gera jarðveg basískari.

Kjötmjöl er ríkt af efnum og efnasamböndum, svo sem lípíðum, fjölpeptíðum og amínósýrum sem verða til við hitameðferð þá sem kjöt og beinaleifar fara í gegnum við vinnslu kjötmjölsins. Þegar slíkt efni, sem brotið hefur verið niður, er borið á jarðveg, þá margfaldast fjöldi örvera og jarðvegslífvera. Hugsanlega gæti aukinn fjöldi jarðvegsörvera náð að brjóta niður annað lífrænt efni sem til staðar er í jarðvegi og aukið þar með frjósemi hans enn frekar. Því er ekki aðeins mikilvægt að skoða kjötmjölið út frá beinu efnainnihaldi, heldur einnig út frá þeim áhrifum er það getur haft á lífríki jarðvegsins sem geta síðar skilað jarðvegsbætandi áhrifum. Sama gildir um fleiri gerðir lífræns áburðar.

Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið á notkun kjötmjöls sem áburðar hafa verið gerðar erlendis við hlýrri skilyrði en hér á landi. Reikna má með að við kaldari aðstæður í jarðvegi, svo sem hér, gangi niðurbrotsferli í kjötmjölinu hægar en þar sem hlýrra er og því ætti áburðurinn að duga heldur lengur, það er vera seinleystari en erlendis. Þess ber einnig að geta að jarðvegur hérlendis flokkast nánast allur sem eldfjallajarðvegur og hann hefur vissa eiginleika, til dæmis hærri bindingu af lífrænu efni og fosfór en þekkist í flestum nágrannalöndum okkar. Því má búast við að einhver mismunur sé milli áburðargjafar hér á landi með kjötmjöli. Hvort sem þau áhrif eru okkur í hag eða ei skal ósagt látið.

Í tilraun sem Landgræðsla ríkisins setti upp á Geitasandi á Rangárvöllum kom kjötmjölið betur út en til dæmis húsdýraáburður miðað við áhrif eftir 2 ár.

Um notkun á kjötmjöli

Kjötmjöl var notað sem fóður fyrir jórturdýr hérlendis og erlendis. Notkun þess var þó bönnuð hér á landi sem fóður fyrir jórturdýr árið 1978 og síðar í Evrópu og víðar í kjölfar kúariðu en nokkur tilfelli greindust í mönnum. Auk þess að vera góður prótíngjafi í skepnufóður er kjötmjöl ágætisáburður á gróður og hefur í ríkari mæli verið notað til áburðargjafar.

Nokkuð hefur verið slakað á kröfum um notkun kjötmjöls sem áburðar á síðustu árum, en settar voru afar strangar reglur um notkun mjölsins eftir kúariðufárið og í ljósi þess að dýralæknar óttuðust að sauðfjárriða gæti smitast með mjölinu. Heimilt er í dag að nota mjölið hér á landi til áburðar á beitilönd eða lönd sem eru nýtt til fóðurgerðar samkvæmt reglugerð nr. 395/2012 frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu frá apríl 2012, að því tilskildu að land sé ekki beitt strax í kjölfar áburðargjafarinnar. Reglur um íblöndun óætra efna, svo sem húsdýraþvags, eiga að taka gildi í september 2012. Reglur þessar eiga að tryggja að kjötmjöl verði nothæft sem áburður og þannig verði minni hætta á hringrás smitefna.

Kjötmjöl er kjörinn áburður til uppgræðslu, ekki síst vegna hægrar leysni og sjást áhrifin greinilega í 2-3 ár. Hefur áburðurinn verið borinn saman við aðrar tegundir áburðar, bæði lífræns og ólífræns, í tilraun sem Landgræðsla ríkisins setti upp á Geitasandi á Rangárvöllum. Þar skilaði kjötmjölið litlum áburðaráhrifum fyrsta sumarið, en hafði náð sömu áhrifum og tilbúni áburðurinn strax á öðru ári. Annar lífrænn áburður, svo sem slóg, húsdýraáburður og fleira stóð kjötmjölinu að baki. Þriðja árs uppgjör tilraunarinnar hefur ekki farið fram en spennandi verður að sjá þróunina. Miðað er við að bera á 1-1,5 tonn á hvern hektara og eru notaðir skeljasandsdreifarar þegar miklu magni er dreift. Hefur kjötmjöl verið notað til uppgræðslu á Þorlákshafnarsöndum, á Sandskeiði og víðar í landnámi Ingólfs, í Þjórsárdal og nú nýlega í landi Bolholts á Rangárvöllum. Einnig hefur mjölið verið nýtt til áburðar á íþróttavelli og golfvelli.

Helsti ókosturinn við nýtingu kjötmjöls er að fuglar og refir sækja í lyktina af mjölinu, meðal annars mávar.

Kjötmjöl ætti að vera ágætur áburður, að minnsta kosti sem íblöndun með tilbúnum kemískum áburði, til dæmis við ræktun á tvíærum tegundum en þar mætti nefna olíurepju. Hugsanlega mætti þá sleppa voráburðargjöf seinna árið. Þetta hefur þó ekki verið notað svo greinarhöfundur þekki til.

Helsti ókosturinn við nýtingu kjötmjöls er að fuglar og refir sækja í lyktina af mjölinu og ef það er kögglað ná þeir að éta það í mun meira magni en þegar því er dreift í duftformi. Fuglar eru þó horfnir nokkrum dögum eftir að dreifingu er lokið og fyrr ef rignir á mjölið eftir dreifingu.

Annar ókostur sem ber að nefna er að ef kjötmjöl er sett í sömu holu og trjáplöntur er hætta á að hann geti þurrkað upp plöntur, sér í lagi í þurrkatíð, en kjötmjölið er afar þurrt og dregur í sig raka úr umhverfinu. Einnig geta refir og önnur dýr þefað uppi kjötmjölið, jafnvel fram á vetur, og reynt að grafa eftir því en þá geta plönturnar fylgt með í kjölfarið. Þetta síðastnefnda gildir einnig um fiskimjöl.

Heimildir og áhugaverðir tenglar:

Spurningin í heild sinni hljóðaði svo:

Mig langar að vita hvaða eiginleika kjötmjölskögglar hafa sem áburður og hver bein áhrif á grasflötinn eru, samanborið við mykju/skít og/eða kemískan kornaáburð?  
Höfundur : Hreinn Óskarsson PhD, sviðstjóri samhæfingarsviðs / skógræktin.