Um Skógræktarfélag Kópavogs

 
gudm-3.jpg
 
 

Skógræktarfélag Kópavogs var stofnað 25. september 1969.   Stofnfélagar voru 60. Fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Örn Árnason.

Árið 1971 fékk félagið úthlutað land frá Kópavogsbæ í Smárahvammslandi. Þar rak félagið gróðrarstöð sem hlaut nafnið Svörtuskógar.  Þessi stöð var rekin til ársins 1984, en þá var landið tekið undir byggingasvæði. Plöntur úr Svörtuskógum eru víða til prýði í Bæjarlandinu.

Núna eru félagarnir að nálgast fjórða hundraðið og stendur félagið að skógrækt bæði að Fossá í Kjós og á svæðum ofan við Vatnsenda.

Lögheimili Skógræktarfélag Kópavogs er við Gnitaheiði 14, 200 Kópavogur.

 

Lög Félagsins

Lög Skógræktarfélags Kópavogs, samþykkt á aðalfundi félagsins 19. mars 2003.

1.gr.

Félagið heitir Skógræktarfélag Kópavogs og er héraðsskógræktarfélag innan Skógræktarfélags Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Kópavogi.

2.gr.

 Tilgangur félagsins er að vinna að trjárækt, skógrækt og landgræðslu í Kópavogi og nágrenni, og auka þekkingu og áhuga Kópavogsbúa á þeim málum. Að vera samstarfsvettvangur þeirra einstaklinga og félaga, sem vilja vinna að framgangi framangreinds hlutverks félagsins og eflingu skógræktar, landgræðslu og umhverfismála í Kópavogi.

3.gr.

Félagið vill ná tilgangi sínum með því:

a)      Að veita félagsmönnum fræðslu um trjárækt, skógrækt, umhverfismál og landgræðslu með leiðbeiningum og fræðslustarfsemi, svo sem fyrirlestrum, myndasýningum og sýnikennslu, eftir því sem kostur er á.

b)      Að efla trjárækt í Kópavogi t.d. með ræktun trjáa og runna til skjóls og fegrunar.

c)      Að leita samvinnu við Kópavogsbæ og aðra landeigendur í lögsagnarumdæmi Kópavogs um friðun heppilegra  landsvæða í nágrenni bæjarins, í samvinnu við nágrannabyggðarlögin, ef henta þykir. Á þessu landi verði komið upp skóglendi og útivistarsvæðum fyrir Kópavogsbúa.

d)      Að hafa samvinnu við Kópavogsbæ um vinnu unglinga að trjárækt, skógrækt og landgræðslu, sem þáttar í starfi vinnuskóla.

4.gr

Stjórn félagsins skipa sjö menn. Skulu þeir kosnir á aðalfundi og skal stjórnin skipta með sér verkum þannig: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri , en aðrir teljast  meðstjórnendur. Kjörtímabil stjórnar er  tvö ár, en kosning fer fram árlega og ganga þrír úr stjórn annað árið og fjórir hitt. Jafn margir skulu  kjörnir í varastjórn með sama hætti og ennfremur kýs aðalfundur tvo skoðunarmenn ársreikninga og tvo til vara til eins árs.

5.gr.

Aðalfundur telst lögmætur ef löglega er til hans boðað samkvæmt 6. gr

6.gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en í marsmánuði ár hvert. Stjórn félagsins boðar til aðalfundar með bréfi til félagsmanna með 10 daga fyrirvara og einnig með auglýsingu í útvarpi eða blöðum. Aukaaðalfund skal halda í félaginu ef stjórn félagsins telur ástæðu til, eða 50 félagsmenn óska þess. Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála, öðrum en þeim sem um ræðir í 8. og 9. gr. laga þessara.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

1.      Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári

2.      Skýrslur nefnda

3.      Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.

4.      Tillaga að félagsgjaldi

5.      Lagabreytingar

6.      Kosningar samkvæmt félagslögum

7.      Tillögur um framtíðarverkefni félagsins

8.      Önnur mál

Aðalfundur kýs heiðursfélaga að fengnum tillögum félagsstjórnar.

Á aðalfundi og öðrum fundum félagsins hafa allir félagar atkvæðisrétt.

7.gr.

Stjórn félagsins fer með öll málefni félagsins á milli aðalfunda og ræður starfsmenn félagsins. Formaður stjórnar fundum stjórnar, en ritari bókar fundagerðir. Stjórninni er skylt að boða til félagsfunda ef 15 félagsmenn eða fleiri óska þess.

8.gr.

Ef félagið hættir störfum skal það samþykkt á tveim lögmætum aðalfundum í röð með ¾ greiddra atkvæða á hvorum fundi og ráðstafar þá síðari fundurinn eignum félagsins til vörslu hjá Skógræktarfélagi Íslands uns myndaður verður að nýju félagsskapur í sveitarfélaginu með sambærileg hlutverk. Skulu þá eignirnar renna til þess félags.

 9. gr.

Lögum þessum verður eigi breytt nema á löglegum aðalfundi með ¾ greiddra atkvæða. Tillögur frá félagsmönnum um lagabreytingar skulu berast félagsstjórninni fyrir 1. febrúar eða í síðasta lagi 30 dögum fyrir aðalfund.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi  Skógræktarfélags Kópavogs 19. mars 2003.