Skógræktarfélag Kópavogs Gnitaheiði 14, 200 Kópavogi Sími: 864-9246 Netfang: skogkop@gmail.com Veffang: skogkop.is

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs 2019

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs boðar til aðalfundar föstudaginn 14.júní 2019.

Fundurinn hefst kl. 17.00 og verður í Leiðarenda í Guðmundarlundi , Kópavogi.

Sú nýbreytni verður að fundurinn verður haldinn undir himni samkomutjalds, umvafinn skógi og fallegri náttúru. Félagar í Skógræktarfélaginu eru hvattir til að mæta, klæða sig eftir veðri og njóta aðalfundar félagsins á sumarkvöldi í Guðmundarlundi.

Dagskrá

1. Fundarsetning 2. Kosning fundarstjóra 3. Kosning fundarritara 4. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári 5. Skýrslur nefnda 6. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins 7. Tillaga að félagsgjaldi 8. Lagabreytingar 9. Kosningar skv. félagslögum 10. Tillögur um framtíðarverkefni félagsins 11. Önnur mál

Veitingar í boði félagsins

Með góðum kveðjum, Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs 2.júní 2019

Tillaga að lagabreytingum. Á aðalfundinum 14. júní leggur stjórn Skógræktarfélags Kópavogs fram tillögu að breytingu á 4. grein félagslaga sem fjallar um skipan í stjórn félagsins og kosningu skoðunarmanna. 4. grein laga félagsins hljómar svo: Stjórn félagsins skipa sjö menn. Skulu þeir kosnir á aðalfundi og skal stjórnin skipta með sér verkum þannig: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri , en aðrir teljast meðstjórnendur. Kjörtímabil stjórnar er tvö ár, en kosning fer fram árlega og ganga þrír úr stjórn annað árið og fjórir hitt. Jafn margir skulu kjörnir í varastjórn með sama hætti og ennfremur kýs aðalfundur tvo skoðunarmenn ársreikninga og tvo til vara til eins árs. Tillaga stjórnar er að 4. grein taki breytingum á aðalfundi og hljómi svo: Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum, formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Formann félagsins skal kjósa sérstaklega til tveggja ára í senn. Auk þess skal á hverjum aðalfundi kjósa tvo stjórnarmenn til tveggja ára í senn. Kjósa skal einn varamann í stjórn til eins árs í senn. Stjórn skipar með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Aðalfundur skal kjósa tvo skoðunarmenn ársreikninga og einn varamann til eins árs í senn.

( Kosið skal þannig á aðalfundi 14. júní 2019 að kjörnir verða þrír aðalmenn til tveggja ára þ.e. formaður og tveir aðrir aðalmenn og tveir aðalmenn til eins árs. Texti þessi innan sviga fellur út úr 4. grein um leið og ný stjórn hefur verið kosinn samkvæmt samþykktri breytingu á 4. grein. ) Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að allir stjórnarmenn geti hætt á sama tíma og þannig tryggjum við betur samfelldni í starfi félagsins til lengri tíma. Greinargerð. Það hefur reynst erfitt að uppfylla skilyrði 4. greinar laga félagsins eins og hún hljóðar í dag þar sem kjósa skal um 14 manns í aðal- og varastjórn. Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs leggur því til að fjölda stjórnarmanna í aðal- og varastjórn verði fækkað úr 14 manns í 6 manns. Auk þess verði gerð sú breyting að formaður félagsins verði kosinn í beinni kosningu á aðalfundi.

Athugið að lögin í heild má finna á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs : https://skogkop.is/um-felagid