TRJÁKLIPPINGAR

TRJÁKLIPPINGAR GÓÐUR ÁRANGUR MEÐ KLIPPUNUM

TRJÁKLIPPINGAR GÓÐUR ÁRANGUR MEÐ KLIPPUNUM EGAR stoltur garðeigandinn tekur trjáklippurnar í hönd og hyggst fegra og hirða garðinn sinn, þá er ýmislegt sem hafa ber í huga.

TRJÁKLIPPINGAR GÓÐUR ÁRANGUR MEÐ KLIPPUNUM

EGAR stoltur garðeigandinn tekur trjáklippurnar í hönd og hyggst fegra og hirða garðinn sinn, þá er ýmislegt sem hafa ber í huga. Almenn regla við klippingar er sú, að klippa á yfir brumi eða grein sem vísar út úr runnanum, eða í þá átt sem viljinn stendur til að runninn vaxi. Þá er áríðandi að skilja aldrei eftir stubba þegar klippt er, því þeir bjóða heim hættunni á sjúkdómum.

Steinn Kárason er meistari í skrúðgarðyrkju og veit hvað hann syngur þegar klippa á trén. Hann hefur m.a. gefið út bókina Trjáklippingar, þar sem farið er rækilega í saumana á réttu handbrögðunum. Hann varð fúslega við beiðni um að veita lesendum af viskubrunni sínum.

Steinn segir, að þegar limgerði er plantað, þá sé oftast haft um fet á milli plantna. Plönturnar séu hafðar langsum í limgerðinu, svo þær nái að loka og mynda vegg. Við útplöntun að vori sé klippt eins og þurfi. "Hæðin á plöntunum er þá yfirleitt 30-40 sm á tveggja ára plöntu. Síðan á að snyrta að sumri og vetri. Aðalklippingin að vori, sem nú er að fara í gang, er miðuð við það að víðitegundir t.d. hækki um 10-15 sm á hverju ári. Hliðarnar eru látnar halla inn að ofan, til að hleypa sem mestri birtu inn í og ofan í limgerðið, sem verður þá þéttara."

Hvernig á að klippa limgerði?

Steinn segir að Alaskavíði, sem algengur er í limgerði, borgi sig að klippa 1-3 sinnum að sumri, fyrir utan hefðbundna vorklippingu. "Alaskavíðir launar fyrir sig með minna viðhaldi ef hann er klipptur þannig, að hliðarnar halli svo mikið inn að ofan að aðeins myndist einn toppur. Með því móti þéttist limgerðið betur að neðan. Ef limgerðið er látið byggja sig upp á þennan hátt þá stendur það betur af sér veður, þolir betur snjó og verður þéttara."

Hvaða tegundir á fólk að velja, vilji það fljótsprottið limgerði?

"Alaskavíðirinn er afskaplega hraðvaxinn og getur hækkað um 1-2 metra á ári. Hann er hins vegar mjög grófur og margir telja að hann henti tæpast sem limgerðisplanta, þar sem hann þarf mikið viðhald. Hins vegar er hægt að mæla fremur með afbrigði sem kallast grænn Alaskavíðir í almenna garða. Vilji fólk fá grófari skjólbelti, til dæmis við sumarbústaði, þá hentar brúnn Alaskavíðir ef til vill betur, en hann er grófari en sá græni. Viðjan er einnig fljótsprottin og aðrar algengar tegundir eru birki og gljávíðir. Brekkuvíðirinn á vaxandi fylgi að fagna á ný, þar sem hann er seltuþolinn. Þessar tegundir allar getum við notað í ytri kant lóða, því þær þola vind ágætlega og mynda ágæt skjólbelti."

Hvernig á að klippa rósarunnana í garðinum?

"Rósir mynda ýmist blóm á greinum sem vaxa á hverju sumri, eða þær blómgast á tveggja ára gömlum greinum. Algeng tegund, Hansarósin, blómgast á greinum sem vaxa sama sumar. Hún er látin bæta 3-7 brumum við sig í vexti á hverju ári, en eldri greinar látnar víkja endrum og sinnum fyrir nýjum og sterklegum greinum. Þannig á sífelld endurnýjun sér stað, en reynt að hafa greinarnar ekki of margar, til að plantan sé fær um að bera blóm á þeim greinum sem eftir standa. Hansarósion er klippt frá því um áramót og fram á vor.

Þá eru rósarunnar sem mynda blóm á tveggja ára greinum, svo sem klifurrósin Flammentanz. Rósin er látin bæta við sig um 30 sm á ári, en þá má ekki fjarlægja allan tveggja ára við, svo rósin blómgist.

Rósastilkar, sem sumir kalla eðalrósir, eru klipptar mikið niður, í svona 20 sm hæð. Klippingu er hagað þannig, að tekið sé af yfir brumi eða grein sem vísar út, eða í þá átt sem æskilegt er talið að greinin vaxi. Svo eru látnar koma 5-7 greinar, eða stilkar, því yfirleitt nær rósin ekki að bera fleiri blóm utan dyra."

Hvernig á að klippa rifsberjarunna?

"Það verður að gæta þess að klippa ekki allar greinar ofan af rifsinu, því rifsið blómstrar á tveggja ára við."

Þola allar plöntur að vera fluttar eftir að þeim er fyrst plantað?

"Grunnreglan er sú að það er hægt að færa allar plöntur á meðan þær eru ungar. Þá þola aspir flutning þótt þær séu orðnar 5-10 metra háar, ef rétt er að farið. Þumalfingurreglan með lauftré er sú, að á meðan tréð er 1-2 metrar á hæð er oftast hægt að taka það upp og flytja það á einfaldan hátt. Ef það er orðið hærra er betra að rótarstinga. Það er gert með þeim hætti að ræturnar eru stungnar í sundur allan hringinn, nokkuð frá stofni. Þetta er gert að vori og tréð hefur sumarið til að jafna sig og mynda nýjar rætur innan við sárið. Næsta vor á eftir er svo hægt að flytja tréð."

Steinn segir að um barrtré gildi aðrar reglur. "Furur eins og stafafuran þola illa flutning eftir að tréð hefur náð 1 metra hæð. Stafafuran er með stólparót, sem vex beint niður og vafasamt að eyða miklu púðri í að hrufla við þeim. Grenitegundir flestar, eins og til dæmis sitkagreni er hægt að flytja þótt trén séu há, til dæmis 3-5 metrar. Munurinn felst fyrst og fremst í rótargerðinni. Plöntur með stólparót þola flutning illa, en plöntur með grunnstæðar rætur þola hann miklu betur. Ef vel og rétt er að staðið er hægt að færa mjög stór tré. Það fer þó einnig eftir aldri trjánna hvort skynsamlegt er að færa þau. Hættan á skakkaföllum eykst eftir því sem tréð er eldra. 30-50 ára tré getur verið hæpið að flytja," segir Steinn Kárason, skrúðgarðyrkjumeistari.

STEINN Kárason, skrúðgarðyrkjumeistari.

HÉRNA hefur klippingin verið röng. Stubbar, sem skildir eru eftir, bjóða sjúkdómum heim.

SÁRIÐ þarf að vera í hæfilegri fjarlægð frá brumi þegar stýft er. Á skýringarmynd a) hefur verið klippt of nærri brumi, á mynd b) of langt frá brumi, en mynd c) sýnir rétta klippingu.

EIN af grundvallareglum við trjáklippingar er sú að klippa ofan við útlægt brum eða grein.